Ég hefi hugsað mér að fiska, á þeim miðum sem sægreifarnir hafa ekki sölsað undir sig, - og engum "kvóta" hefur verið komið á.
En það er að gera það sem ég var nokkuð duglegur við á mínum yngri árum, það er að taka ljósmyndir af mannlífinu og því sem er að ske í bænum - og koma því fyrir almenningssjónir. Ekki á síðum Morgunblaðsins né annarra blaða - sem áður var, heldur á þeim miðli sem aðgengilegastur er í dag, - á netinu, - hér á þessum síðum. Ég mun leitast við að taka myndir af fólki á förnum vegi, á vinnusvæðum, fá upplýsingar frá vettvangi og eitthvað fleira, sem mér dettur í hug og eða, þeir sem skoða síðuna benda mér á. Látið í ykkur heyra og smellið "Netfangið mitt" hér til vinstri. Þá hefi ég áhuga á því að Siglfirðingar heima og heiman sendi inn greinar um menn og málefni bæjarins okkar. (birtar á ábyrgð sendanda) Ef efnið er talið eiga heima á vef mínum þá mun ég birta það. Viðkomandi þarf að gefa mér að minnsta kosti upp nafn sitt og kennitölu, þó svo að nafn hans komi ekki fyrir undir greininni. Annað kemur ekki til greina. |