Öll heimablöðin á Siglufirði, Einherji, Mjölnir, Neisti og Siglfirðingur áttu það sameiginlegt að berjast í bökkum fjárhagslega. Þessi blöð voru varla gefin út nema fyrir kosningar, og jól, þegar vænta mátti tekna af auglýsingum. Gerðar voru tilraunir hjá þeim öllum að gefa blöðin út vikulega, hálfs mánaðarlega og mánaðarlega á tímabilinu 1960 - 1970 en allar mistókust vegna kostnaðar, og þá fyrst og fremst prentunarkostnaðar. En öll önnur vinna var unnin í sjálfboðavinnu.
Myndir í þessi blöð komu mest frá áhugaljósmyndurum eins og td. mér, þe, eftir að ég varð ljósmyndari Morgunblaðsins, þá voru mínar fréttamyndir, birtar í Morgunblaðinu og svo Siglfirðing, sem kom af tvennu, ég fór að vinna við blaðið Siglfirðing og síðar gerðist ég ritstjóri þess um tíma.