Gísli Elíasson fv. verksmiðjustjóri SREggert Theódórsson fv. lagestjóri SRÓkunn blómarós hjá SRStrákagöng við SiglufjörðFrá vígslu KFS 1966Togarinn Hafliði og GoðinnHaförninn "fastur í ís"

Snjóflóð og bátasmíði Úr einu í annað

Ljósmyndasafn Steingríms, á netinu

Til forsíðu
Til baka

>LEITARVÉLIN

Hafðu samband:

Póstfangið mitt

Gefðu mér upplýsingar um nöfn sem mig vantar

  Laugardagur 23. október 1971

Frá Siglufirði, úr einu í annað..................

Siglufirði í september. 

Jafnvægi í byggð landsins hefir oft borið á góma í umræðum stjórnmálamanna, en lítið  virðast allar þessar umræður og „aðgerðir", sem framkvæmdar hafa verið, bætt sjálft  „jafnvægið". Mig langar aðeins til að nefna nokkur atriði, séð með augum leikmanns, úti á  landsbyggðinni.

Má þar fyrst nefna það alvarlegasta: Fólksflóttann, en ég mun aðeins nefna það sem  Siglufjörð snertir beint. Á undanförnum áratug hefur fólki hér fækkað stórum, allt of mikið álit  ég. Hver er ástæðan? Svörin eru mörg, því að sitt sýnist hverjum, en ég ætla að nefna nokkrar  ástæður: Mér dettur fyrst í hug atvinnuleysi og það er raunin, en það er þó athyglivert að mikill  meirihluti burt fluttra Siglfirðinga, hefur um leið yfirgefið góða atvinnu. Það eru ekki hinir  atvinnulausu og atvinnulitlu, sem flúið hafa. En hvers vegna? Sumir eiga dætur og eða syni, sem  hyggja á framhaldsnám. Héðan er of dýrt fyrir flesta að „gera út", börnin sín í skóla í Reykjavík. Og  finnst þá sumum betra að flytja „suður" með allt draslið, jafnvel þótt skilja verði eftir óseljanleg  einbýlishús og íbúðir, og jafnvel óleigjanlegar. Stundum er það tilbreyting, sem fólkið þráir,  tækifæra, sem suðurlandið hefur upp á að bjóða, eða hundruð annarra tækifæra, sem suðurlandið hefur upp á  að bjóða fram yfir Siglufjörð. T.d. atvinnuúrval, vöruúrval, þjónustu alla ofl. ofl.

Ég nefndi áðan óseljanlegar íbúðir og hús. Hér er nóg af slíku og það fyrir litinn pening.  Ekki þó fyrir þá ástæðu að um lélegar húseignir sé að ræða, nei langt frá því. Fólk er bara  hrætt við að festa peninga hér, þar sem óvissa ríkir um atvinnu ofl. hér í bæ. Hér hafa íbúðir  og einbýlishús verið á söluskrá árum saman. Hér er hægt að fá keypta t.d. kjallaraíbúð 2ja-3ja  herbergja í „blokk" með tilheyrandi, ásamt teppalögðu út i horn, fyrir minna en kr. 250.000 þúsund og einbýlishús (stein bús) 7-8 herbergja fyrir minna en 1,2 milljónir. Hér virðist  algengasta söluverð húsa vera um kr. 400,000 þúsund. T.d. keypti undirritaður sjálfur, fyrir tveim  árum 4-5 herbergja einbýlishús með um 50 m² kjallara undir 1/3 af húsinu og manngengt háaloft fyrir geymslu. Og þetta allt í  steinhúsi kostaði aðeins kr. 400,000 - fjögur hundruð þúsund. - og aðeins rúmar kr.  100,000 út. - En ég hefi ekki enn getað selt gömlu íbúðina mína, „ 2ja-3ja herbergja í  "blokk", sem ofar er nefnd, ég leigi hana ungum hjónum fyrir kr.1.500. Hér þykir dýrt að  leigja fyrir 2.500--3.000 krónur. Á sama tíma og verð húsnæðis hækkar í Reykjavik, þá  lækkar það hér, og ef þessi þróun fær haldið áfram, endar það svo að Siglfirðingar, sem vilja  flýja, borga þeim, sem vilja hirða húseignina, til að losna við að borga fasteignagjöldin, sem  raunar samræmast engan vegin hinu raunverulega. fasteignaverði, svona vægt til orða tekið.

Ef vilji og geta eru fyrir hendi hjá stjórnvöldum, hvað er hægt að gera til að koma á  jafnvægi? Hvað er hægt að gera án þess að skerða frelsi okkar til sjálfsákvörðunar á búsetu?  Við búum við lýðræði, þess vegna getur stjórnvaldið ekki sagt: „Þú mátt ekki flytja." En  þrátt fyrir það tel ég, að það hvíli á herðum stjórnvalda að bjarga málinu, jafnvel þó að taka  verði af  þungu vogarskálinni til að koma á „jafnvægi"

Hvað Siglufjörð snertir, er mái hans talsvert frábrugðið öðrum sveitarfélögum. Hér er  langstærsti atvinnurekandinn „ríkið". Á ég þar við Síldarverksmiðjur ríkisins og fyrirtæki þess  hér. Ekkert þessara fyrirtækja borgar útsvar til bæjarins. Í síðustu útsvarsskrá fyrir Siglufjörð  eru skráð alls 49 fyrirtæki. Stærsti útsvarsgreiðandi þessara fyrirtækja greiðir aðeins kr.39,400 þrjátíu og níu þúsund og fjögur hundruð, - eða sem nemur meðal útsvari verkamanns. Og  fimm hæstu félögin greiða aðeins kr.115 þúsund samanlagt, þessir fáu launþegar sem eftir eru á Siglufirði,  þurfa því að halda bæjarkassanum við, en tekst ekki þrátt fyrir 15% auka álag á  útsvarsstigann, sem og er þungt á metunum hjá þeim, sem flúið hafa héðan. Og þessi sífelldi  peningaskortur bæjarfélagsins kemur svo niður á heildinni, í mynd umhverfis, þjónustu og  viðhalds mannvirkja. Svo og er augum lokað fyrir alls konar reglugerðarbrotum, jafnvel  lagabrotum, sem bæði opinberir og óopinberir aðilar fremja fyrir sjálfa sig og hið opinbera. Siglfirðingar hafa löngum treyst á guð og lukkuna, eða kannski maður nefni það „síldina" og sjóinn. Við erum hættir að hugsa um síldina eins og við  gerðum hér áður fyrr. Áður söltuðum við og bræddum síld og fluttum út, en nú flytjum við  saltsíld „inn" en flytjum niðurlagða síld út. En við hugsum enn um sjóinn og í framhaldi af því  vil ég segja eftirfarandi:

Hér eru tvö starfandi frystihús, ( tvö fyrirtæki ) bæði mjög gamaldags, og ófullnægjandi.  Héðan eru gerðir út einn togari af gömlu gerðinni, bv. Hafliði, skuttogarinn Dagný og  togskipið Hafnanes (250 t) og fjöldinn allur af minni bátum. Hér þarf að byggja strax  fullkomið frystihús, sem útvegað gæti 200 manns atvinnu, kaupa strax tvo 500 tonna  skuttogara og semja um smíði tveggja í viðbót, sem yrðu tilbúnir um leið og frystihúsið. Hafa  ávallt tryggt hráefni til Siglóverksmiðjunnar, smíða allar síldartunnur, sem Íslendinga vantar,  hér á Siglufirði. Og hvort sem þessi fyrirtæki yrðu í einkarekstri eða opinberum yrðu þau að  greiða útsvar af tekjum sínum, eins og fyrirtæki almennt gera. Stofna má hlutafélag með  þátttöku almennings um frystihúsið og togskipin svo eitthvað sé nefnt.

Það eru margir, sem hugsa um þær 11 milljónir króna sem greiddar voru til atvinnulausra  hér á síðastliðnu ári, þótt misjafnt sé hugsað, oftast af vanþekkingu. Sumir líta á atvinnuleysisbætur sem ölmusu og til er fólk, sem alls ekki vill skrá sig  atvinnulaust þess vegna. Einnig er til fólk, sem neitar vinnu til að falla ekki út af skrá og missa  um leið af bótunum. Seinna tilvikið er sjaldgæft, en notað vegna „gata" og galla á lögum um  atvinnuleysisbætur, eins og mörg önnur „göt" og gallar á öðrum lögum, td. skattalögunum.

Er nokkur sem álitur bætur fyrir brunatjón, ölmusu? Það held ég ekki. Og eru þeir ekki  fáir, sem fá bættan allan skaðann í bruna, þrátt fyrir brunatryggingu? Því skyldu  atvinnuleysistryggingar vera í öðru "áliti" hjá svo mörgum en aðrar tryggingar? Það fær enginn  bætt það tjón að fullu, sem verður af völdum atvinnuleysis. Það er ekki aðeins sá  einstaklingur, sem verður atvinnulaus, sem verður fyrir tjóni, heldur allir í sama bæjarfélagi,  raunar þjóðin öll. Hvað hefði gerst ef Atvinnuleysistryggingasjóður hefði lagt um áraramótin  69­70 um 11 milljónir í kaup á togskipi og gert það út héðan? Ég held að hefði svo farið, þá  hefðu atvinnuleysisætur hér ekki náð 5 milljónum í stað 11 milljóna. þar fyrir hefðu  útflutningsverðmæti sl, árs aukist ofl. ofl.

Það er grátlegt til þess að vita, hvað „kerfið" virðist barnalegt. Hundruðum milljóna er  kastað á glæ, í algjöran óþarfa og snobb af versta tagi. Eins og alla þessa „banka", sem  spretta eins og gorkúlur á mykjuhaug, nú síðast „Alþýðubankinn", og allir keppast þeir um  að kaupa hallir, sem þeir skreyta svo marmara og dýrum viðum fyrir sparifé landsmanna, og  svo allir þessir sjóðir, sem þeir rífast um. Hvað ætli spöruðust margar milljónir, ef aðeins væri  til einn ríkisbanki, sem hefði alla sjóðina og útibúin úti á landsbyggðinni auk þess sem  „sparisjóðir" yrðu áfram í stærstu kaupstöðunum?

 

Það er svo margt búið að ræða í sambandi við olíudreifingu, að ekki er á það bætandi.  Allur almenningur er sammála um þörf á breytingu til sparnaðar. En ég ætla í staðinn að  gagnrýna örlítið tvær „samvaxnar" ríkisstofnanir, það er Ríkisútvarpið, Sjónvarpið og  Landssímann.

Það væri of mikið sagt að segja útsendingu sjónvarps hingað til Siglufjarðar bágborna, en  samt vantar mikið á að endurvarp sjónvarps hingað sé fullkomin, og á ég þar við hversu  misjafna mynd við höfum. Stundum er myndin mjög góð, ef örlítill „draugur", (ber mest á því á texta) er ekki talinn með, en svo koma tímabil, sem vart er horfandi á myndina vegna flökts  og óskýrleika. Fróðlegt væri að vita, hver orsökin er og kæmi þá í ljós hvort eitthvað af þeim  „sögum", sem ganga um Norður- og Austurland eru sannar. Ein „sagan" segir. að orsökin sé  sú. að þess segir að orsökin sé sú, að þessir landshlutar þurfi að notast við endurvarp eða speglun frá  jökli uppi á hálendinu, í stað endurvarpsstöðvar á svipuðum stað, og það sé undir veðri á  viðkomandi jökli komið hvort myndin er skýr eða óskýr, fyrir norðan og austan. Önnur  „saga" segir, þó mér þyki hún ótrúlegri, að verkfræðingar Landssímans viti ekki um  ástæðuna. (skorti þekkingu)

Dagskráin sjálf má varla vera betri, - handa þeim sem vilja fá tækifæri til að sinna öðru en  sjónvarpsdagskránni, en fyrir hina, sem ekkert annað hafa að gera en sitja við „kassann", er  hún (dagskráin) léleg.

Og þá er það útsending og endurvarp dagskrár hljóðvarps hingað til Siglufjarðar. Hún er  mjög bágborin, vægt til orða tekið. Oftsinnis höfum við kvartað, persónulega í síma til  útvarpsstjóra (fyrrverandi), skriflega til útvarpsráðs, í blaða greinum og fréttum, meir að segja í  útvarpinu, auk þess sem tvívegis hefur verið safnað mótmælaundirskriftum og sent útvarpsráði  ásamt segulbandsupptökum sem heyra mátti glögglega hver „gæði" útsendingar hafa verið, en allt  án þess að viðunandi endurbætur fengjust og alls ekkert opinbert svar.

Við getum jú heyrt útsendingu hljóðvarps, oftast er Reykvíkingar geta það. Við höfum ótal  möguleika til að heyra. Ef við færum skalanálina á tækjum okkar á 209 kHz þá heyrum við í  Útvarpi Reykjavík sem sagt er senda út með 104 kw orku, en við heyrum samtímis í  útsendingu Ú.R. frá Eiðum með 20 kw orku, sem gerir það að verkum að dagskrárefnið  kemur til okkar í sveiflum, og kemur i veg fyrir að hægt sé að hlusta á tónlist, ekki einu sinni  bítlamúsin. Auk þess sem eyðilagður er fyrir manni möguleiki á að hlusta á B.B.C. á 200 kHz  og Osló á 218 kHz þar sem Ú.R. sendingar eru svo „breiðar" að það truflar allt frá 195 kHz til 220 kHz.  Þá er möguleiki að breyta um bylgjulengd og færa nálina á 737 kHz, en þar endurvarpar Akureyri með 5 kw orku, og  heyrum við allsæmilega í henni þar til fer að bregða birtu, en þá koma erlendar stöðvar inn,  eins og td. pólsk stöð, sem einnig sendir út á 737 kHz, en með 300 kw orku. Svo er það  „þriðji möguleikinn", sem okkur Sigfirðingum er sérstaklega ætlaður, en það er gömul  „bátatalstöð", sem sendir með 20 kw orku á 1412 kHz samkvæmt skráningu. En ef við  færum nálina á um 570 kHz heyrum við hana líka og ef við skiptum yfir á. ,bátabylgju" og  færum nálina á u.þ.b. 2108 og síðan á 3008 kHz (u.þ.b.) þá heyrum við gjallið einnig þar og  enn getum við skipt um bylgju, fært á stuttbylgju, um 5,8 mHz eða um 7,8 mHz og enn  heyrum við gjallið frá . „Tunnustöðinni", en svo hefur „bátastöðin" verið nefnd hér, vegna  gjallandi hljómburðar. Það mætti halda að gott væri að hafa öll þessi tækifæri og möguleika til að ná  útsendingum Ú.R. en þetta er bara ekki allt. Auk þess að vera gjallandi, dettur  „Tunnustöðin" oft út, þá heyrast oft slangur af langlínusímtölum ásamt tal og hringingarsónum,  sem eingöngu ættu að heyrast í símatóli, og svo hefur komið fyrir að loftskeytastöðin hér  hefur „slegið" út .Tunnustöðina".

Það hefur lengi verið krafa okkar að fá hingað FM stöð, en það hefur bara ekki verið  hlustað á okkur, sennilega kemur FM ekki hingað fyrr en fleiri en nú þegar, neita að greiða  afnotagjaldið.

Einhvers staðar stendur að það varði sektum að trufla útsendingar Ríkisútvarpsins.  Hvernig stendur á því að Landssíminn er ekki látinn svara til saka varðandi allar þær truflanir  undanfarandi ára, sem hann hefur framkvæmt á útsendingum ríkisútvarpsins?

Og því eru truflanir Landssímans ekki stöðvaðar? Það mætti auk þess endurbæta  „truflunarlögin", láta þau ná til sjónvarpsins líka og koma með því í veg fyrir að bíleigendur trufli  útvarp og sjónvarp í hverju húsi, er þeir aka framhjá. Í Danmörku t .d. fá bílar ekki skoðun ef  þeir hafa ekki skilríki sem sanna að vélar þeirra trufli ekki útvarp og sjónvarp, en hér virðist  löggjafanum ekki hafa dottið slíkt í hug. Einnig má nefna að oft hugsa ég napurt til radíó vitans á  Selvíkurnefi því hann sendir (eins og fleiri) út á fleiri tíðnum en honum er ætlað, og truflar þar af  leiðandi erlendar útvarpsstöðvar fyrir manni, eða er það gert með vilja gert, til að við spillumst ekki  af erlendum áhrifum, svona eins og kreddufullir aðilar suður í Reykjavík eru að reyna að koma í veg  fyrir að Sunnlendingar sjái Keflavíkursjónvarpið? Það brölt þykir mörgum úti á landsbyggðinni  hlægilegt, og ekki síður þetta brölt „siðgæðapostula", sem flýta sér allt hvað af tekur til að sjá  þessar svokölluðu klámmyndir og heimta svo að það verði bannað að sýna þær öðrum. „Svei  skít", segir stutt og laggott máltæki. Svei skít, þessu brölti „postulanna". Þeim væri nær að nota  krafta sína í að fræða og herða þann hluta þjóðarinar, sem skortir fróðleik og herslu, gagnvart  því sem koma skal framtíðinni, hvort sem það er „klám" eða annað sem sem mun koma..

Annars tel ég orðið „klám" mjög á reiki, því að menn eru alls ekki á eitt sáttir um hvað  „klám" er. Eiturlyf, þar með talið áfengi og tóbak, hafa skaðleg áhrif á fleiri en þá, er neyta  þess og eru leyfð. En „klám" kvikmynd og „klám" bækur og blöð eru bönnuð, þrátt fyrir  þúsundfalt minni möguleika á skaðsemi almennt. Hvar eru mörkin?

Steingrímur Kristinson  Siglufirði.