|
Varð fyrir tugþúsunda tjóni í Strákagöngum
Siglufirði, 22. ágúst.
--- JARÐGÖNGIN við Siglufjörð, Strákagöng, hafa ætíð frá því þau voru opnuð með viðhöfn af þáverandi samgöngumálaráðherra, Ingólfi Jónssyni, 10. nóvember. 1967, verið ómetanleg samgöngubót fyrir Siglfirðinga, en svo virðist, að þeim hjá Vegagerðinni hafi fundist nóg komið að göngin væru opnuð með viðhöfn, því viðhaldi þeirra og hreinsun hefur verið mjög ábótavant, ef undan eru skildar helmingi of dýrar hurðir fyrir gangamunnana, sem settar voru í október 1971.
Þessar hurðir hafa angrað mjög þá, sem um göngin hafa þurft að fara, jafnt á sumrum og þó aðallega vetrum.
En hæð dyraumbúnaðar er mjög takmörkuð eða aðeins 380sm þótt hæð ganganna sjálfra sé um 480sm. Í fyrstu voru hurðirnar margsinnis teiknaðar eða teikningar leiðréttar vegna mistaka teiknistofu vegamála og að auki rangt hannaðar, þar sem vitað var, að hurðarbúnaður útilokaði ákveðna vöruflutninga, aðallega tunnuflutninga, sem stundaðir hafa verið á undanförnum árum.
Óeðlilega oft hafa þessar hurðir, sem opnaðar eru með rafbúnaði, bilað og hafa bílar oft lokast inni þess vegna og bílstjórar þurft að ganga nokkurra km leið til að tilkynna bilun, oft i misjöfnum veðrum. Einnig hafa stórir bílar oft rekið sig upp í dyrabúnaðinn, ekki þó alltaf fyrir það, að bílarnir hafi verið of háir heldur vegna þess, að mold og grjót þekur steypt gólf ganganna og á vetrum klaki.
Nú i dag rakst enn einn bíllinn, eða tengivagn bíls, upp i.
Að þessu sinni varð bilstjórinn fyrir tugþúsunda tjóni. Þessi bílstjóri er úr Reykjavik. Hafði hann tekið að sér flutninga á tunnum i stórum stíl frá Tunnuverksmiðju ríkisins til Suðurlands og útbúið vagn sinn samkvæmt því. Hann sagðist hafa leitað sér upplýsinga hjá vegamálaskrifstofu í Reykjavik um hæð ganganna.
Fyrstu tölurnar, sem hann fékk, voru 320sm., en þar sem hann hafði heyrt, að þau væru hærri, en vissi ekki fyrir vist, hafði hann tal af öðrum aðila hjá skrifstofunni, sem gaf honum upp 4 metra, en fékk síðan staðfestingu á 3,80 m og útbjó hann vagna sína samkvæmt því.
Hann ók norður og mjög varlega í gegnum göngin á leiðinni hingað. Hann varð var við, að aðeins nagaði í eitt horn á tengivagni, en kom ekki að sök og slapp í gegn. Þegar kom að munnanum Siglufjarðarmegin slapp bíllinn sæmilega í gegn án þess að koma við, en sennilega hefur tengivagninn farið upp á einhverja drulluhæðina, sem í göngunum er, því að hann rakst upp i öryggisbita, sem er til varnar hurðunum, og stórskemmdist vagninn.
Einmuna veðurblíða og þurrkatíð hefur verið á Norðurlandi í sumar og einu drullu- og bleytublettirnir eru inni í Strákagöngum, og bílar verða ein drullueðja við að keyra gegnum þau. - Steingrímur. |
|
Október
1974 - Þessi mynd var tekin er reist hafði verið á Siglufirði fyrsta húsið, sem húsaverksmiðjan Húseiningar, hefur framleitt.
Er það húsið, sem hinn nýi bæjarstjóri Siglfirðinga ætlar að búa í við Fossveg.
Húsið kostar 2.4 milljónir kr. Það er teiknað af Hafliða Helgasyni og er um 109 fermetrar.
Hafsteinn Ólafsson gerði vinnuteikningarnar og Ingólfur Arnarson raflagnir. Verksmiðja Húseininga er svo vel vélum búin, að hún getur smíðað eitt hús á dag miðað við 30-35 manna starfslið.
Framkvæmdastjóri Húseininga er Knútur Jónsson. Húseiningar er hlutafélag með um 100 eigendum, sem allir eru búsettir á Siglufirði. Steingrímur. |