Gísli Elíasson fv. verksmiðjustjóri SREggert Theódórsson fv. lagestjóri SRÓkunn blómarós hjá SRStrákagöng við SiglufjörðFrá vígslu KFS 1966Togarinn Hafliði og GoðinnHaförninn "fastur í ís"

Jólahátíð um borð Leitað í stóru felustöð..

Ljósmyndasafn Steingríms, á netinu

Til forsíðu
Til baka

>LEITARVÉLIN

Hafðu samband:

Póstfangið mitt

Gefðu mér upplýsingar um nöfn sem mig vantar

  Föstudagur 21. febrúar 1969

LEITAÐ Í STÓRU "FELUSTÖÐUNUM"

Steingrímur Kristinsson segir frá siglingu til  austantjaldshafna.

UM BORÐ Í HAFERNINUM  JÓLADAG 1968
VIÐ LÖGÐUM af stað frá Siglufirði 21. nóvember s.l. Við vorum allir ánægðir með  brottförina, ekki síst þeir skipverjar (undirmenn), sem fengið höfðu uppsagnarbréf og höfðu  verið atvinnulausir frá 5. nóvember vegna verkefnaskorts fyrir skipið okkar sem við höfðum verið  ráðnir á, Haförninn. Var því aðallega um að kenna verðfalli á lýsi, sem rekstur "Hafarnarins" raunar byggðist á yfir vetrarmánuðina. Svipað ástand hafði verið á lýsismarkaðinum á s.l. vetri  svo Haförninn flutti þann vetur aðeins einn farm af lýsi út, en hafði í þess stað verið leigður  íslensku olíufélögunum til olíuflutninga, sem og voru gifturíkir, og komu þeir flutningar  margsinnis í veg fyrir að olíu og bensínskortur yrði á Norður og Vesturlandi af völdum hafíss,  en Haförninn braust skipa oftast gegn þeim ógnum.
Enda ber hann þess enn glögg merki, sem  vekja athygli hvar sem skipið nú kemur.

 

Eins og fyrr segir lögðum við frá Siglufirði 21. nóvember s.l., og að þessu sinni í langa ferð,  lengri en við höfðum áður farið á þessu skipi. Liðið gátu mánuðir, enginn vissi nákvæmlega  hve margir, þangað til við kæmum heim aftur. En þrátt fyrir vissu um langa fjarveru frá  fjölskyldum okkar, vorum við ánægðir, því betra er að hafa brauð en ekki.
Haförninn var nú, að  fara í einskonar leigu, en reiðarinn, AP Möller í Danmörku stjórnaði rekstri skipsins. En það  sem rekstrarreikningar verða ekki til umræðu hér þá ekki meira um það.
Við höfum á þessum rúma mánuði flutt tvo farma af steinolíu og eina 5 farma af díselolíu.  Það er margt skrítið í Þessum olíubransa erlendis, ekki síður en heima á Íslandi. t.d. fluttum  við steinolíu (litlausa) frá Rotterdam til Eastham í Englandi, í sömu viku tókum við jafnmikið  magn af samskonar olíu í Southampton í Englandi, en áður en við fórum þaðan með farminn til  Noregs var hann litaður ljósblár, og var það gert um borð á meðan á lestun stóð. Englendingur,  sem vann við litunina, sagði mér að mjög algengt væri að mismunandi litur væri á olíum, sem  þeir seldu, t.d. vildu kaupendur olíunnar hinum megin við fljótið um 5 mílur frá olíustöðinni ekki  sjá annan lit en sepia, en það er dökkbrúnt, með rauðum blæ, eftir því sem „Encyclopedia"  sagði mér.

 

Enn einu undarlegu atviki, um litun á olíu vorum við vitni að í A-Þýskalandi og síðar í  Belgíu. Við tókum fullfermi af díselolíu í Wissinark í A-Þýskalandi, en tveir litir voru á  farminum, eða ljósbrúnn og litlaus, eða hvítur og var magn af hvoru, um helmingur farmsins.  Lögðu Þjóðverjar ríka áherslu á, að farmurinn blandaðist ekki innbyrðis og tafði það meðal  annars lestun, vegna allskonar umstangs af Þjóðverjanna hálfu þess vegna. En þegar til Belgíu  kom, vildu Belgirnir fá allan farminn í einni bunu og sögðu sig engu skipta um litinn. Einnig þótti  okkur skrítið að Belgarnir væru að kaupa olíu af A-Þýskalandi, en sjálfsagt eru einhverjar  skýringar á því.
Ég hefi oft heyrt margar "skrítnar" sögur hafðar eftir farmönnum varðandi A-Þýskaland. Enga  sögu hef ég heyrt jafn ótrúlega og þá, sem mig langar til að segja frá nú, um ástandið eins og  það kom fyrir mín augu þann stutta tíma sem ég dvaldi þar, og þeim  litla bletti, sem ég  hafði tækifæri til að skoða. Ég hefi engan heyrt sverja að sögur þeirra væru sannar, en í von um að þeir, sem  þetta lesa, trúi mér, þó ég hafi ekki trúað öllu sem hinir sögðu, þá ætla ég að sverja við drengskap minn, að það sem ég segi frá hér á eftir, er satt eins og ég sá það gerast.
Það byrjaði með því að gerð var þessi venjulega tollskýrsla, svona eins og ætíð í  siglingum. Gefið er upp áfengi, tóbak og stundum annar varningur, eftir því til hvaða landa er  komið.
Við höfðum lagst við anker, en víð gátum ekki fengið pláss í höfninni strax. Hvort  upplýsingar hafa komið frá „lóðsinum" eða frá öðrum veit ég ekki, en komið hafði í ljós að  venjuleg tollskýrslueyðublöð reyndust ófullnægjandi. Og urðum við því að skrifa nýja skýrslu  og fylla hana svo rækilega út að furðu sætti. Auk áfengis og tóbaks, útvarps og þess háttar og  myndavéla þurftum við að tilgreina nákvæmlega alla gjaldeyriseign okkar og okkur bent á að  við mættum búast við að leitað yrði í fötum okkar, sem var gert, t.d. hjá einum úr eldhúsinu, en  hann hafði gleymt 5 eða 10 gyllina seðli í brjóst-vasa sínum. Svo var okkur sagt að við mættum  alls enga smápeninga hafa, þá yrðum við að tína saman og láta innsigla. Við urðum að fara að  leita í skúffum og vösum að smá mynt, sem öll var tekin til innsiglingar. Passarnir okkar voru  skoðaðir rækilega, og strax var fjórum eða fimm tilkynnt að passar þeirra væru ógildir, en það vantaði hjá þeim embættisstimpil yfir ljósmyndina í pössunum.
Bryggjuræfillinn, sem við lágum við hefur auðsjáanlega ekki verið ætlaður til þess að setja  upp á hann landgang, hvað þá það væri þar landgöngubrú, sem er algeng í

mörgum  löndum. Hægt var þó að koma á land stiga sem var nær flatur á milli skips og bryggju og ekki hættulaust að fara á milli, þrátt fyrir spotta sem við strengdum sem handrið

Við fengum  fljótt fréttir af því að mjög glæsileg tollverslun væri skammt undan og fengist þar allt á milli  himins og jarðar. Sótt var um landgönguleyfi. Tók langan tíma að fá það og gilti það aðeins í tollbúðina og  að því er okkur var sagt, 5 tíma í einu. Ég var einn þeirra „lánsömu", sem komst fyrstur í land.  Það var um 15-20 mínútna gangur í tollbúðina, og á þessari leið sá ég sóðalegasta og  fátæklegasta umhverfi sem ég hefi augum litið. Síldin og ruslið ásamt öllum þeim óhreinindum,  sem sagt hefur verið frá og sumir hneykslast af á Raufarhöfn, Siglufirði og víðar var hreinasti  aldingarður í samanburði við það rusl, drullu og lykt, sem við fórum í gegnum. Og tollbúðin,  þessari „glæsilegu" verslun, sem okkur hafði verið sagt frá - þar var að vísu hátt til lofts, en  mér fannst þröngt til veggja og þröngt í búi, ef undan er skilið, áfengi og tóbak, af því var nóg  úrval og verð ekki sem verst.

Erindi mitt var aðallega að kaupa mér sængurföt sem mig vantaði, en þau sá ég ekki.  Eitthvað var þarna. af vefnaði og fatnaði á sjómenn, en ég held að enginn Íslendingur myndi  ganga í þeim fötum.

Margir Íslendingar og raunar út-lendingar, bölva yfir því að geta ekki verslað  fyrir íslenskar krónur í tollversluninni á Keflavíkurflugvelli heima, en þarna var ekki hægt að  versla fyrir austur-þýsk mörk.

Já, vel á minnst, ég talaði um  4-5 ógilda passa áðan. Í því sambandi buðust Þjóðverjar til að útbúa sérstaka passa fyrir viðkomandi, ef þeir vildu borga  fyrir þá DM 10.00 pr. stk. En mörkin yrðu að vera vesturþýsk, ekki austur-þýsk. Þessu  „vingjarnlega" boði var að sjálf sögðu hafnað. Verslun okkar þarna í tollversluninni varð frekar  lítil, og lét ég mér nægja að kaupa sælgæti fyrir 40 norskar krónur.

Við höfðum fengið sérstaka landgöngupassa þegar við fórum í land og urðum nú að skila  þeim til varðanna á bryggjunni, þegar um borð var farið. Einu verðirnir, sem við sáum, voru  þeir, sem skiptust á um varðstöðuna í varðskýlinu á bryggjunni, en það var ömurlegt starf, því  frost var úti, 7-10 stig. Og skýlin óupphituð. Þetta voru vingjarnlegir ungir menn en enginn  þeirra skildi ensku né aðra tungu en þeirra eigin og var svo með alla starfsmenn þarna á  bryggjunni, bæði yfir og undirmenn, en slíkt er óvenjulegt í Vestur-Evrópu.

Að lokum kom að brottförinni og þá fyrst fundum við fyrir alvöru, hversu sælan undir  stjórn kommúnisma sem svo margir heima á Íslandi boða, er „sæt". Það byrjaði með því að  öllum var skipað upp úr koju (kl. 1 eftir miðnætti) skyldu allir mæta í hásetaborðsal (nema  skipstjórinn) og þar urðum við að vera eins og rollur í rétt, þar til tollurunum, lögreglunni, eða  hvað svo sem þessi einkennisklæddi her, sem um borð var kominn, kallaði sig.

Ég hafði sofið, er ég var ræstur og brá mér aðeins í slopp og var varla vaknaður, þegar  fram var komið. En þegar ég áttaði mig á því að hefja átti leit í herbergjum okkar að okkur  fjarverandi og seðlaveski mitt lá opið á skrifborði mínu (er einn f herbergi) þá hélt ég áleiðis til herbergis míns til að nálgast veskið. Gengið var i veg  fyrir mig af tveim dátum til að hindra mig, en ég ýtti þeim rólega en ákveðið úr vegi og fór mína  leið og var búinn að ná veskinu áður en þeir náðu mér aftur, sennilega vegna undrunar á því, að  nokkrum skyldi dirfast að ýta við mönnum í svona fallegum einkennisbúningi. Mér var fylgt aftur  til matsalarins.

Mér varð kalt á sloppnum og ætlaði aftur til klefa míns, til að klæða mig, en komst ekki í  gegnum "víglínuna". Annars voru þessir menn allir kurteisir og rólegir nema ef nefna mætti einn  skratta í svörtum einkennisbúningi.

Minnti hann mig á hrokafullan nasista úr bíómyndum, enda  vissi hann, að hann var hátt settur. Leitað var gaumgæfilega í öllu skipinu og ef marka má  aðferðina við leitina, en leitað var mest í stórum „felustöðum" eins og skápum o.s.frv. þá giska ég  á að þeir hafi, verið að leita að fólki, svona eins og þeir héldu að einhverjum dytti í hug að  yfirgefa „sæluna" frá austrinu.

Andlit okkar voru rækilega skoðuð og borin saman við myndirnar í pössum okkar og  sumir, m.a. ég varð að sýna þeim og telja (svo þeir sæju, þessir þjónar) í seðlaveskinu. Var  það borið saman við það, sem ég hafði gefið upp á „toll" listanum.

Og að lokum, Íslendingar sem ekki þegar þekkja sannleikann um ástandið fyrir austan,  kynnist honum af eigin raun, trúið að minnsta kosti ekki fagurgalanum í rauðu hönunum heima  hvorki þeim, sem sýna sitt rétta andlit né þeim, sem fela sig  bak við nafnabreytingar.

Sumir bölva öllu heima, segja allt ómögulegt, dýrt og ekki hægt að lifa af  tekjum Satt er það, sumar þjóðir geta veitt sér meira fyrir daglaunin en  Íslendingar, en það er líka margt sem við eigum, en þeir ekki, margt, sem þeir óttast, en við þurfum ekki að óttast. Og það vita þeir best, sem ekki  eru heima, að heima er best þrátt fyrir allt.

 

Til Rússlands höfum við líka komið, og nú erum við í rússneskri landhelgi í annað sinn ( 2  . des. ) Ventspils. Hér er líka lögregluríki eins og í A-Þýskalandi, þó ekki sé það í  pappírsframkvæmd alveg eins.

Hér þarf að gera tollskýrslu eins og í öllum löndum. En sú tollskýrsla er að því leyti  frábrugðin að hér varðar þá ekkert um áfengi og tóbak, þeir eiga að vísu nóg að drekka í  landi, en þeir sem reykja segja (ég reyki ekki) að tóbakið sem þeir hafa á boðstólum sé  „tað".

Aftur á móti vilja þeir fá uppgefin svona helsta varning, sem við erum með, útvörp, segulbönd,  mynda-vélar o.s.frv. og gjaldeyriseign okkar, nákvæmlega skráða í þríriti, vilja þeir fá. Langan  tíma tók það okkur að fá landgönguleyfi. Ég bað um landgönguleyfi kl. 8 að morgni,  landgöngupassinn minn kom kl. 16 sama dag. Vopnaður vörður var í skýli við landganginn, en  um 100 metrar eru á milli varðskýlanna, svo langt sem maður sér við höfnina. Og eru  varðmenn ýmist vopnaðir skammbyssum eða vélbyssum. Allir þeir verðir sem ég þurfti að  um-gangast voru mjög vingjarnlegir, en enginn skildi þó annað en sitt móðurmál, rússneskuna.  Mikið er um kvenfólk í starfi bæði tollþjóna og við olíuverslunina. td. var það skemmtileg  tilbreyting að ung og myndarleg kona „tók út", sem kallað er, tanka okkar, samþykkti nægjan-lega hreina farmgeima, en þetta verk er ekki talið beint þrifalegt, því síður  kvenmarrsverk, vegna olíulyktar og olíuslepju í tönkunum. En þessar rússnesku jentur eru víst  engir eftirbátar karlkynsins hvað vinnu snertir.

Við fórum sex saman í land. Strax er við komum út fyrir hafnarhliðið breyttist  andrúmsloftið. Við sáum strætisvagn, sem var að fyllast af fólki. Við ákváðum að fara upp í  hann  þegar við vissum að hann var að fara inn í borgina, en einn farþeganna talaði ensku.  Þarna í vagninum var sjálfsali sem, farþegar greiddu fargjaldið í, en þessi enskumælandi sagði við  okkur, að ef við ættum ekki rúblur, þá skyldum við ekki borga neitt, það væri allt í lagi. Það  hefði enginn eftirlit með því.

Upphaflega ætluðum við okkur að fara til sjómannastofu sem hét  Interpub, eða eitthvað svoleiðis, en þar hafði okkur verið sagt að við gætum skipt peningum,  en ferðin endaði samt uppi í miðborginni. Þessi enskumælandi var þá búinn að biðja  okkur að  selja sér gjaldeyri, alveg sama hvaða gjaldeyri. Og stuttu eftir að við komum út úr vagninum  þyrptust „gæjar" í kring um okkur, einnig stúlkur, flestir töluðu ágæta ensku, og allir báðu um  það sama: gjaldeyri, amerískar sígarettur, tyggigúmmí og nælon-fatnað. Báðu meira að segja um  fötin, sem við vorum í, buðust til að skipta á fötum og borga á milli. Nefnið verðið, við borgum.  Þeir buðust til að kaupa t.d. DM 10 fyrir 5 rúblur, sem mun vera rúmlega 100 % hærra en  það, sem ríkið borgar, en löglega skiptur 10 marka seðill gildir í Rússlandi 2,21 rúblu. Á ég hér  við vestur-þýsk mörk.

Það gildir einu hverrar þjóðar gjaldeyrinn er, jafnvel íslenskar krónur  eru keyptar fyrir okurfé, 50-80% álagning. Sígarettupakkann kaupa þeir fyrir 1-2 rúblur (80- 170 kr.) Segja sjálfir frá því, að þeir selji hann aftur á 3 rúblur. Tyggigúmmíkartonið kaupa þeir  á 5 rúblur, sem er um 400-500 % "hagnaður" fyrir farmann. Það skal tekið fram, svo ekki valdi  misskilningi, að ekki varð um neina verslun að þessu sinni, (að ráði að minnsta kosti). kannski  vegna löghlýðni, en þó allavega vegna þess að fáa hafði órað fyrir þessari eftirspurn, og höfðu  því ekki neitt með sér, fyrir utan gjaldeyri, en hann var allur rækilega skráður í þríriti og gat  verið að eignin yrði könnuð eins og í A-Þýskalandi. En þessir kaupmangarar, sem eltu okkur,  buðu okkur þjónustu sína alla. "Segið bara hvað þið viljið, dans, vín kvenfólk. Eða viljið þið partí í  prívat húsi? Það kostar ekkert, nema að leggja "partíinu" til áfengi, sem hægt væri að fá í næstu  búllu fyrir 3 rúblur vodka flöskuna. " Og svo auðvitað áttum við að selja möngurunum nógu mikið næst, þegar við  kæmum. "Við borgum." Sögðu þeir. Og þeir virtust  geta borgað, því þeir gengu með seðlabúntin  upprúlluð í vasanum, eins og maður sér  menn gera í bíómyndunum. Þessir  manntegund þyrptist að okkur hvar sem við  gengum. Þeir sáu strax að við vorum útlendingar  og spurðu óhikað á ensku eftir viðskiptum. Sumir  jafnvel spurðu strax, hvort við værum íslendingar.  En íslensk skip silga mikið hingað til Ventspils.  Það vakti athygli mína að talsvert bar á fólki  undir áhrifum áfengis, en hvergi sá ég  lögregluþjón. En einhvertíma hefi ég heyrt heima  á Íslandi, að fyllirí og flækingur á götum úti  þekktist ekki í Rússlandi.

Lítið og fátæklegt þótti mér úrvalið í verslunum og auk þess er þar skuggalegt, sem raunar er  það þannig hvar sem maður lítur í kringum sig. Þar er ekki verið að eyða rafmagnsorkunni í neinn "óþarfa"  eins og það að lýsa upp „of" mikið. En fólkið virtist ánægt, hlýlega klætt. og í góðum holdum.

Svartamarkaðsbraskarana og  gleði-meyjarnar þekkti maður þó úr, við nánari athugun á fatnaðinum.

Ég er nú að öllu jöfnu ekki  vanur að skoða klæðnað fólks, en þar sem ég hafði einsett mér að sjá eins mikið af austrinu  og mögulegt var, sá það ma. það, að unga fólkið fylgjast vel með  vestrænni fatatísku, en þarf að greiða fyrir það okurfé. Nælonfatnaður er ekki til í Ventspils á  opinberum markaði var okkur sagt. Ég tók til dæmis eftir einni stúlku, sem sat við borð á  dansstað, sem ég kom inn á. - Hún var í bleikum netnælonsokkum, "samskonar" og ég  hef séð í búð í Englandi og heima.  Þessir sokkar, sem voru margstoppaðir og saumaðir saman  með ullargarni örlítið rauðara en sjálfir sokkarnir. Þeim sokkum hefði hvaða íslensk stúlka  sem er, verið löngu búin að henda.

 

Á leiðinni um borð aftur kom ég við í sjómannastofunni til að  skipta þar seðlum löglega. Á meðan beið leigubifreið eftir mér og  félögum mínum tveim. sem komið höfðu með mér. Hinir þrír urðu  eftir upp í borginni til að sjá meira af lífinu.

Þarna á stofunni var  einnig, ásamt mörgu öðru tollverslun sem hægt var að fá ýmiskonar  rússneskan varning, ásamt líkjör frá Castro á Kúbu, o.fl. stöðum. Eftir að hafa skipt nokkrum seðlum keypti ég og annar félagi  minn tvær flöskur hver af líkjör frá Kúbu og varð að samkomulagi að ég,  sem átti væntanlega vakt um borð færi með allan líkjörinn um  borð, en hinir tveir færu aftur til félaga sinna uppi í borginni.

Gekk nú allt vel, þar til hjá varð-manninum við landganginn.  Hann vildi fá að sjá kvittun fyrir öllum fjórum flöskum sem ég var  með, en ég hafði aðeins kvittun fyrir mínum tveim (sem nægt  höfðu í hliðinu). Eftir nokkurt þjark, á fingramáli og pati og eftir  að annar varðmaður hafði verið kallaður til, fékk ég að fara með allar flöskurnar um borð, en varðmennirnir gerðu gott úr þessu,  hlógu og klöppuðu vinalega á öxlina á mér og tautuðu brosandi OK. Sennilega það eina, sem þeir  kunnu í „ensku".

Af samtölum á milli skipverja að dæma eru menn sammála um, að fólkið þarna í Rússlandi er  á yfirborðinu ánægt og líður vel, því það þekkir ekki annað betra, nema fólkið sem umgengst  sjómennina.

Það talar frjálslega um viðskipti, fæst við svartamarkaðsbrask á götum úti, við  veitingaborð í stórum sölum, en ef tala á um pólitík, þá lítur þetta sama fólk flóttalega í kringum  sig og hvíslar uss... ekki pólitík.

Meðal kommúnista geta verið svartamarkaðsbraskarar og  hvers-konar glæpamenn, en þeir eru líka "hreinir" kommúnistar og hika því ekki við að segja frá, ef  félagi gefur í skyn að hann sé veikur í „trúnni". Það land, af þeim, sem ég hef komið til, en þau eru 11 - 12 talsins, sem mér finnst frjálslegast  og minnsta umstangið varðandi eftirlit á tollvarningi, er Belgía. Ég man ekki eftir að nokkru  sinni hafi verið leitað þar við komu eða brottför þau skipti, sem ég hefi komið þangað. Og  einu sinni komu tollveróðir ekki einu sinni til að innsigla keyptan tollvarning, sem annars er ætíð   gert í öllum löndum. Þeir báðu aðeins fyrir kveðju til okkar, en þetta var 2. janúar 1968. 

Annars verðum við raunar aldrei fyrir ónæði hvar sem við komum, nema í A-Þýskalandi.  Rússar leituðu t.d. ekkert hjá okkur, þegar við fórum þaðan í fyrsta skiptið eða athuguðu  peninga okkar, kvöddu okkur brosandi og sumir með handabandi, sem er einstakt. Ég vona að með þessum línum mínum hafi ég ekki gert neitt illt. Ég hefi aðeins sagt frá  hlutunum, eins og þeir komu mér fyrir sjónir. Ég er enginn pólitíkus, ekki einu sinni  Sjálfstæðismaður, en ég þykist vera með sjálfstæðar skoðanir, og kýs því hverju sinni  samkvæmt sannfæringu minni, ekki eins og rauðir  hanar reyna að telja mér trú um að ég eigi að gera. En svo mikið er víst að A-Þjóðverjar geta ekki haft  sjálfstæðar skoðanir í dag og látið þær uppi. Það er varla  hægt að snúa sér hálfhring án þess að sækja þurfi um  sérstakt leyfi til þess.

Trillur og mótorbátar frá A-Þýskalandi, sem stunda daglega  róðra til fiskjar og lífsviðurværis þurfa að sækja daglega um leyfi  og sýna það varðbáti, sem er fyrir utan viðkomandi höfn. Og er  þá leitað í bátnum áður en honum er sleppt lengra. einnig þarf sami  bátur að koma við hjá varðbátnum, þegar hann kemur úr róðri.  Ekki held ég að íslenskir fiskimenn, ekki einu sinni kommúnistar,  gerðu sig ánægða með slíkar aðgerðir. Margt fleira mætti telja  upp, t.d, þurfa farmenn í höfn í Rússlandi að vera komnir um borð  í skip sín fyrir miðnætti, annars eiga. þeir á hættu að fá ekki .landgönguleyfi næst, þegar skip  þeirra kemur í höfn. Þetta kom fyrir fjóra skipverja hér um borð, en vegna ókunnugleika  komu þeir dálítið „seint" samkvæmt rússneskum reglum. Það  höfðu tveir skroppið yfir í skip, sem lá við sömu bryggju og við,  en þar sem þeir komu um borð eftir miðnætti samkvæmt  rússneskri klukku (22,00 samkvæmt skipsklukku) þá var þeim tilkynnt  að í næsta skipti, sem við kæmum þangað, fengju þeir ekki að fara  í land.

Fólkið austan járntjalds er ósköp svipað að eðlisfari og annað  fólk vestan við, en reglurnar, höftin og þvinganirnar, sem rauðu hanarnir í Moskvu setja og krefjast að farið sé  eftir, vona ég að komi ekki á Íslandi.

 Stranglega er bannað  að tak ljósmyndir í austantjaldshöfnum, svo engar ljósmyndir  þaðan, fylgja hér  með

– Steingrímur