Föstudagur 7. nóvember 1975
Ljósmynd og frétt: Steingrímur
Siglfirðingar vonast eftir meira vatni þegar holan verður sprengd út
NÚ HAFA fengist 13 sekúndulítrar af 66 stiga heitu vatni úr borholunni, sem unnið hefur verið að við Siglufjörð, en áður höfðu fengist 8 sekúndulítrar úr annarri holu. Á mesta álagstíma er gert ráð fyrir, að kaupstaðurinn þurfi 50 sekúndulítra, þannig að enn vantar nokkuð á að nægt vatn hafi fengist handa Siglfirðingum.
Bjarni Þór Jónsson, bæjarstjóri í Siglufirði, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að búið væri að bora niður á 1151 metra dýpi og verið væri að pakka holuna, þar sem sprengja ætti hana út í von um að meira rennsli fengist.
Hann sagði, að vatnið sem kæmi nú úr holunni, virtist koma í hana á 500 metra dýpi, eða á svipuðu dýpi og vatnið náðist í Ólafsfirði. Borinn væri nú kominn eins langt niður og hann kæmist. Hins vegar hefði hiti í berginu farið vaxandi eftir því sem neðar hefði dregið og á 1000
metra dýpi hefði hitinn verið 78 gráður, sem benti til hitasvæðis neðar í berginu.
- Það er því ekki enn vitað hvort við losnum við að hafa kyndistöð í bænum til að halda hita á heita vatninu, en við vildum gjarnan .ef þetta tekst ekki nógu vel núna, að borunum verði haldið áfram á næsta ári.
Myndin sýnir jarðborinn að störfum í Skútudal, Siglufjörður sést í bakgrunni