21. júlí 2003
Grein Guðnýjar Pálsdóttur forseta bæjarstjórnar Siglufjarðar, í Morgunblaðinu í dag, á bls.15.
Jarðgangna umræðan. (birt hér einnig, með leyfi höfundar)
Jarðgangnamálið á Norðurlandi er orðinn hinn mesti skrípaleikur í fjölmiðlum. Þegar þessi dæmalausa ríkisstjórn spilaði út trompinu sínu um frestun þeirra þá rauk Birkir Jónsson strax á fund formannsins síns til að ræða málið og finna lausn. Sjálfstæðismenn frá Siglufirði hentust til Reykjavíkur á fund sinna manna fullvissir þess að nú mundu þeir missa andlitið algjörlega ef þeir gerðu ekki eitthvað til að reyna að bjarga því!
Formaður Framsóknarflokksins á Siglufirði hótaði að leggja fram tillögu á fundi um að leggja flokkinn niður ef ríkisstjórnin sæi ekki að sér og sneri blaðinu við. Engar dúsur mundu duga!
En ríkisstjórnin notaði aldagamalt herbragð sem dugði á kappana. Dró pínulítið í land, tróð dúsu upp í okkur öll, formaður framsóknarmanna á Siglufirði kokgleypti hana, tók gleði sína og sagði að nú væri hátíð í bæ! Ég held að bærinn hans sé í Fljótum norður því þar varð gleði á einum bæ þar sem ötulasti talsmaður gegn göngunum býr og kemur iðulega fram í fjölmiðlum með reiðilestra á hendur Siglfirðingum því hann vill fá göng við hlaðvarpann hjá sér svo hann geti selt ferðamönnum viðurgerning.
Það má vel vera að framsóknar-og sjálfstæðismenn andi léttar og þykist hafa bjargað einhverju. En skaðinn er skeður. Svik og prettir flokksbræðra þeirra gleymast ekki. Vantraust á þessa ríkisstjórn hefur vaxið. Á meðan reykvíkingar fá vegabætur í stórum stíl sem aldrei teljast hafa þensluáhrif sitjum við og bíðum eftir aðgerðum sem ekki aðeins eru arðbærar heldur koma til með að hafa stórkostleg áhrif á líf fjölda fólks úti á landsbyggðinni. Þeir sem eru á móti göngunum vilja bara fá vegabætur heima hjá sér. Allir vilja fá eitthvað við sínar eigin bæjardyr, samb. Fljótamanninn og fleiri sem fara hamförum í fjölmiðlum til að skara eld að sinni eigin köku.
Nei, það er ekki hátíð í bæ á Siglufirði yfir lyktum þessa máls. Fjöldi manns er reiður yfir hegðun ríkisstjórnarinnar og ég vona að aldrei grói um heilt og menn hafi vit á að gefa heiðarlegra fólki atkvæðin sín í næstu kosningum. |