| 21. júlí 2003 Samkvæmt ábendingu B.H. --- Þetta efni, "Reimleikar í Alþýðuhúsinu" er tekið með bessaleifi frá þessari heimasíðu: http://www.sigurfreyr.com/endurholdgun.html.
Reimleikar í Alþýðuhúsinu
Hinn 29. júní árið 1951 skýrði Runólfur Heydal, Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi, frá reynslu sinni of reimleikum sem hann varð vitni að í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Frásögn hans er svohljóðandi: ,,Sumarið 1938 réðst ég sem þjónn í Alþýðuhúsið á Siglufirði. Ég kom þangað um miðjan júní og svaf einn í húsinu. Þegar nótt tók að skyggja, fór ég að heyra kynlegan hávaða á leiksviði hússins og undir leiksviðinu. Heyrði ég hann flestar nætur, þó misjafnlega mikinn, og stóð hann oftast meira og minna alla nóttina. Einstöku nótt heyrðist ekkert óvenjulegt. Hræringar þessar hófust venjulega, þegar búið var að loka húsinu og ganga frá öllu eftir veitingar á kvöldin. Þó kom það fyrir, að hann byrjaði, áður en þessum verkum var lokið.
Á leiksviðinu voru ýmiss konar hljóðfæri, svo sem píanó, tvær eða þrjár trommur, stundum harmoníka og fleira. Hávaðinn stafaði af því, að þessi hljóðfæri voru dregin til og frá um leiksviðið af einhverjum ósýnilegum krafti. Af því gerðist mikill skarkali, því að þarna var hátt til lofts og húsið mjög hljóðbært. Stundum kom hávaðinn undan leiksviðinu, en var þá léttari. Þar var geymt hitt og annað hafurtask til leiksýninga. Yfirleitt heyrðist hávaðinn aldrei frá báðum stöðum samtímis.
Þessi gauragangur var ekki nein ímyndun. Ég gaf stundum nánar gætur að því, sem fram fór á leiksviðinu. Sá ég þá hljóðfærin færast til um sviðið, án þess að þar væri nokkur sýnileg vera. Og einum tvisvar sinnum horfði ég á ekki minni hlut en píanóið dregið yfir hér um bil hálft sviðið. Aldrei var neinu kastað og aldrei sá ég nokkurt kvikindi á leiksviðinu. Sumar nætur gekk svo mikið á, að mér kom ekki dúr á auga, og þessi ófögnuður færðist því meira i aukana, því meira sem dimmdi nótt. Þegar komið var fram undir miðjan ágúst, gafst ég upp á að hafast þarna við að næturlagi og fékk mér leigt herbergi úti í bæ.
Ég færði reimleika þessa í tal við fólk, sem vann og unnið hafði í húsinu. Það kannaðist við að hafa séð og heyrt þetta sama og ég. En enginn sem ég átti tal við, vissi of hverju reimleikar þessir stöfuðu." |
8. júlí Þessi frétt/grein er send af fréttavef BB: www.bb.is. Frá: vs. ----------------------------------------------------- Halldór Jónsson | 02.07.03 | 16:49 Til hamingju kjósendur Eins og íbúar við Djúp muna riðu margir stjórnarþingmenn um sveitir síðla vetrar og lofuðu gulli og grænum skógum eftir kosningar. Dustað var rykið af gömlum kosningaloforðum og þau endurnýjuð þ.e. reynt var að selja að minnsta kosti tvisvar sama hlutinn.
Flestum mátti vera ljóst að þarna væri um svikna vöru að ræða. Því miður er það nú svo að þegar sverfur að er oft auðvelt að lokka fólk með fagurgala. Tóku enda heilu sveitarstjórnirnar þátt í skrautsýningunni með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í fararbroddi. Eftir kosningar fór eins og vænta mátti að losna um þessa loforðagrímu stjórnarflokkanna. Hún féll síðan alveg í dag þegar ákveðið var að fresta(hætta við) byggingu Héðinsfjarðargangna milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.
Það verður þó að segja samgönguráðherra það til hróss að hann hefur gálgahúmor. Ástæða frestunarinnar er þensla. Jú þið lásuð rétt, þensla var það. Ekki er að efa að landsbyggðarfólk mun hafa ríkan skilning á þessari ákvörðun. Við erum jú á kafi í þenslu og uppsveiflu á landsbyggðinni.
Í tilefni dagsins skal 9.589 kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi óskað til hamingju með árangurinn. Þeir bera jú höfuðábyrgð á þeim ráðamönnum sem nú hafa fellt grímuna. Hvað skyldi verða hægt að selja Héðinsfjarðargöng oft? –Halldór Jónsson. http://www.bb.is/fullfrett.php?uid=23941 |