Ákveðið að reisa lýsisherslustöð. Framkvæmdir byrja í sumar. Síðastliðinn miðvikudag voru að tilhlutun atvinnumálaráðherra gefin út í ríkisráði bráðabirgðalög um heimild fyrir ríkisstjórnina að taka 7 milljón króna lán til þess að reisa lýsisherslustöð og hefur atvinnumálaráðherra nú ákveðið, að framkvæmdir skuli hafnar þegar á þessu sumri.
Það hefur lengi verið á döfinni þetta mál. Allmiklar rannsóknir fóru fram fyrir stríð og í stríðsbyrjun, en ráðamenn í síldarútveginum brast kjarkur til að leggja í byggingu verksmiðjanna.
Það sem menn óttuðust mest fyrir stríð voru markaðsörðugleikar, en svo sem kunnugt er, var fituhringurinn breski Unilever mjög mikils ráðandi um verð og markaði fyrir lýsi og herta feiti, og það var nú ekki alveg eftir kokkabók þjóðstjórnarinnar að taka upp baráttu við enska auðvaldið.
Nú er svo komið, að þjóðir Evrópu vilja losa sig undan enska hringaauðvaldinu og munu því ekki verða vandræði á að finna markaði fyrir herta lýsið í Mið- og Austur Evrópu og jafnvel víðar, hvað sem enski auðhringurinn segir.
Þær rannsóknir, sem fram hafa farið hafa leitt í ljós, að Siglufjörður er heppilegasti staðurinn til þess að reisa verksmiðjuna á, eftir að virkjun Skeiðsfoss er lokið. Þó að Reykjavik og Akureyri geti boðið ódýrara rafmagn en Siglufjörður, þá er ýmis aukakostnaður við það að hafa hersluverksmiðjuna á þeim stöðum.
Einkum er það flutningskostnaðurinn á lýsinu frá síldarverksmiðjunum, tvennir tankar og meira af föstum starfsmönnum, en með tilliti til starfsmannahalds er Siglufjörður, vegna vertíðarinnar einna heppilegastur.
Jakob Gíslason forstjóri hefur gefið álit sitt á því, hvar heppilegast sé, að verksmiðjan standi frá rafmagnstæknilegu sjónarmiði og telur hann Siglufjörð heppilegastan.
Ýmsir af áhrifamönnum í síldariðnaði landsmanna eru algjörlega andvígir því, að verksmiðjan verði byggð á Siglufirði. Þannig er Finnur Jónson andvígur Siglufirði og vill láti byggja hersluverksmiðjuna á Akureyri eða Reykjavik.
Hinsvegar er aðstaða Siglfirðinga í þessu máli sú, að minnsta kosti eins og stendur, að tryggt er, að ekki verði brotinn réttur á þeim í þessu máli.
Siglufjörður er nýbúinn að reisa sér dýra rafmagnsstöð, sem kostar fullgerð 13 milljónir króna.
Bæjarbúar eru dálítið áhyggjufullir yfir rekstursafkomu hennar nú fyrstu árið. Ef lýsisherslustöðin verður byggð hér má telja, að bærinn sé úr allri fjárhagsáhættu í sambandi við hina dýru rafstöð sína.
Siglfirðingar gera sér miklar vonir um, að lýsisherslustöðin verði til þess að hrinda fram atvinnuþróuninni í bænum og færa Siglufjörð nær því marki að hafa næga atvinnu fyrir íbúa sína árið um hring. |