Siglufjarðarsaga
í hálfri miljón mynda
Myndirnar í safni Steingríms Kristinssonar á Siglufirði eru á bilinu 400 til 500 þúsund. Ómetanleg heimild um mannlíf og menningu í nyrsta kaupstað landsins.
"Atvinnulífsmyndirnar eru skemmtilegastar," segir Steingrímur, sem hefur tekið myndir í fjörutíu ár.
"Ég hef aldrei talið hve margar myndir eru í þessu safni, en þær eru einhversstaðar á milli 400 og 500 þúsund. Að jafnaði sit ég einn til tvo tíma á hverju kvöldi við að skrá myndirnar og síðan allt að 10 tíma um helgar. Mér mun sjálfsagt ekki endast aldur til að skrá myndirnar allar, jafnvel þó ég verði hundrað ára,`.` segir Steingrímur Kristinsson, ljósmyndasafnari á Siglufirði.

"Mér mun sjálfsagt ekki endast aldur til að skrá allar myndirnar, þó ég verði hundrað ára," segir Steingrímur Kristinsson hér í viðtalinu. Hann situr löngum stundum við tölvu sína og skráir inn myndir, en hundruð þúsundir mynda eru í safni hans. Mynd: SBS
Eitt stærsta myndasafn í einkaeigu
Steingrímur Kristinsson á eitt stærsta myndasafn í einkaeigu á Íslandi. Talsverður hluti safnsins, 200 til 300 þúsund myndir, eru það sem Kristfinnur Guðjónsson tók, en hann var um langt skeið ljósmyndari á Siglufirði.
Nokkuð af myndum kemur annarsstaðar frá, en vel á annað hundrað þúsund eru myndir sem Steingrímur sjálfur hefur tekið síðustu áratugi. Nokkuð er um að myndirnar séu til á pappír, en stærstur hluti safnsins eru myndir sem til eru á filmum eða gleri.
Þær eru vel varðveittar við góðar aðstæður á heimili Steingríms og aðgengilegar, - en stór hluti safnsins er skráður og jafnvel til á tölvutæku formi.

"Þær heilsuðu okkur með sveiflandi söng, síldarstúlkurnar, " segir í kvæðinu. Myndina tók Kristfinnur Guðjónsson, en hann var staðar ljósmyndari Siglfirðinga í áratugi.
"Ég er búinn að eyða miklum tíma í að tölvuskrá safnið og nú er ég búinn að vista það sem nemur 1,8 gígabætum inn á tölvuna mína," segir Steingrímur.
"Ég skrái þetta með ýmsu móti, en ég huga sérstaklega að persónusögunni þegar ég skrái safnið. Sjálfur hef ég búið hér alla tíð og þekki því auðvitað fjölda fólks sem hér hefur búið. Þegar ég er að skrá inn myndir man ég ekki alltaf hvað hver og einn heitir eða hét, en man hvar viðkomandi hefur búið. Þá er ég hér með við höndina öll manntöl sem skráð hafa verið á Siglufirði frá 1946 og því get ég oft fljótt fundið og staðfest viðkomandi upplýsingar.

Skrái ég þá inn á tölvuna upplýsingar um þá sem á myndunum eru," segir Steingrímur. Í talsverðum mæli er leitað til hans eftir myndum, meðal annars af brottfluttum Siglfirðingum, en einnig hafa söfn, til dæmis Þjóðminjasafnið, leitað til hans í sama tilgangi.
Síldarflutningaskip við bryggju á Siglufirði undir lok síldaráranna. Steingrímur tók myndina.
Byrjaði að taka myndir 1959
Steingrímur kveðst fyrst fyrir alvöru hafa byrjað að taka myndir árið 1959.
Það var móðir hans, Valborg Steingrímsdóttir, sem upphaflega kveikti í honum, en hún hafði ung fiktað við myndatökur og "Hún hafði raunar ekki aðra aðstöðu til þess að framkalla myndir en að nota einfaldan fixer - og ljósið sem hún hafði við framköllunina var ekki annað en það sem sólin gaf. Filma var erfitt að afla sér, fyrir utan hvað þær voru dýrar.
Ég man þegar ég þegar ég var að byrja í þessu að erfitt var að biðja menn sem fengust við myndatökur um að liðsinna manni og kenna. Það var einsog maður væri að biðja þá um gull, en einna bestu leiðsögnina gaf Kristfinnur ljósmyndari mér."
Steingrímur hóf störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins árið 1950, þar sem hann starfar enn í dag, það er hjá SR-mjöli hf. Hafa yfirmenn þar í gegn um árin alltaf sýnt áhugamáli Steingríms mikinn skilning.
"Vilhjálmur Guðmundsson sem var lengi framkvæmdastjóri hérna sagði við mig einhverju sinni að ég mætti þegar þörf krefði bregða mér frá og taka myndir.
Þetta kom sé oft vel á þeim tíma, þó ég hafi reyndar í seinni tíð hætt slíku og er raunar hættur að fara á vettvang þegar eitthvað er að gerast, tek aðeins myndir þegar ég er á vettvangi,"
Segir Steingrímur, sem skráði með myndum sínum alla byggingasögu hinnar nýju verksmiðju S.R. mjöls hf. á Siglufirði, sem tekin var í notkun sl. haust og tók meðan á framkvæmdum stóð um 600 myndir. -
Steingrímur myndaði og skrifaði um langt skeið fréttapistla fyrir Morgunblaðið á Siglufirði og ýmis blöð þar áður.
Steingrímur var á Haferninum sem var lýsis-, síldar- og olíuflutningaskip í eigu Síldarverksmiðja ríkisins. Þessa mynd tók hann eitt sinn er skipið var að dóla í gegnum ís út af Húnaflóa árið 1968.
Svipmyndir úr atvinnulífinu
"Alla tíð hefur mér þótt skemmtilegast að taka svipmyndir úr atvinnulífinu," segir Steingrímur. "Best finnst mér að taka slíkar myndir þegar fólkið veit ekki sjálft af, þá verður það eðlilegast. Við þessar aðstæður notaði ég oft 400 og 800 mm. linsur og hef tekið myndir á 30 til 50 metra færi. Þá getur útkoman oft orðið góð." -
Steingrímur segir mörg skemmtileg myndefni hafa borið fyrir sín augu um dagana, líklega þó aldrei fleiri en á blómaskeiði síldarútgerðarinnar 1960 til 1968. Er einmitt í safni hans mikill fjöldi mynda frá þessu tímabili, sem kannski hefur líka verið myndað meira og betur en önnur í atvinnusögu þjóðarinnar.
Á síðustu árum hefur Steingrímur Kristinsson tekið Netið í þjónustu sína og með þeim hætti miðlar hann myndum úr safni sínum og slóðin að heimasíðu hans er http://frontpage.simnet.is/biosaga/tenglar
Er inn á síðuna miðlað í viku hverri, um 20 nýjum myndum, en að jafnaði eru þar á bilinu 300 til 400 myndir (1) hverju sinni. Meðal annars setur Steingrímur inn á síðuna myndir af fólki sem hann þekkir ekki deili á sjálfur og auglýsir eftir því þarna og kemst oft á sporið. En þess utan er síðan skemmtileg að skoða, enda eru þar margar svipmyndir frá Siglufirði og einnig skrá netfanga og heimasíðna meira en 200 Siglfirðinga, nær og fjær. -SBS.
(1) Plássið sem ég hafði á þessum tíma úti á netinu rúmaði ekki öllu meira (þá 5 MB,- í dag ótakmarkað)
Meðfylgjandi ljósmyndir og texti þeirra, voru birtar með viðtalinu, og eru skannaðar beint frá viðkomandi eintaki blaðsins. |