Síldarpressur Rauðku eru hinar stærstu í heimi
Eftir A. SCHIÖTH
Forsaga: Síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar, sem almennt er kölluð “Rauðka” vegna ytra útlits, hennar, er einhver elsta síldarverksmiðja hér á land. Byggði hana danskur maður, Sören Goos að nafni, og rak hann sjálfur til ársins 1928 er hann komst í fjárþröng. Handelsbanken í Kaupmannahöfn tók þá við rekstrinum þar til Siglufjarðarkaupstaður keypti allar Goos-eignir á Siglufirði árið 1933.
Bærinn leigði einstaklingum verksmiðjurnar næstu 4 ár, en þegar hinir sameinuðu flokkar kommúnista og Alþýðuflokksmanna náðu meirihluta í bæjarstjórn eftir kosningarnar 1938 var þegar samþykkt, að bærinn tæki rekstur verksmiðjunnar í sínar hendur.
Ekki leið á löngu þar til sýnt þótti, að rekstur þessi gat alls ekki borið sig. Vélar allar gamlar og úreltar og vinnsla erfið og mannfrek. Það þótti hinsvegar sýnt, að með tiltölulega litlum kostnaði var hægt að endurbyggja verksmiðjuna og gat hún því orðið fjárhagsleg lyftistöng fyrir bæjarfélagið.
Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Siglufjarðar hefðu heldur kosið, að verksmiðjan hefði verið endurbyggð í einstaklingseign, en þá skorti bolmagn til þess að fá því framgengt, enda vart framkvæmanlegt vegna ríkjandi skattalöggjafar ofl. Bæjarbúar voru yfirleitt samála um, að nauðsynlegt væri að klífa, þrítugan hamarinn til þess að koma verksmiðjunni í sæmilegt horf og ákvað því bæjarstjórn að hefjast handa.
Árið 1939 tókst að útvega nauðsynlegt lán, 1½ miljón króna, til stækkunar á verksmiðjunni upp í 5.000 mála afköst á sólarhring, en því miður varð aldrei neitt úr þessari stækkun með því að þáverandi ríkisstjórn synjaði um leyfi til stækkunarinnar samkvæmt gömlum og úreltum lagaheimildum og tilhögum þeirrar stjórnar, sem á þeim tíma fór með rekstur Síldarverksmiðja ríkisins.
Árið 1943.
Mál þetta var svo tekið upp að nýju fyrir 4 árum og tókst þá að útvega nauðsynlegt lán og leyfi til að stækka verksmiðjuna, upp í 10 þúsund mála afköst á sólarhring. Sumarið 1945, hefði Rauðka getað unnið úr 5-7 þúsund málum síldar, en þá brást veiðin svo sem kunnugt er.
Sumarið eftir hafði stækkun verksmiðjunnar miðað svo áfram, að hiklaust má telja, að afköst hennar hafi verið 10-11 þúsund mál á sólarhring, en aftur brást síldveiðin.
Um endurbyggingu þessa má annars segja, að hún sé merkisviðburður hvað Íslenska tækni og síldariðnað snertir. Flestar vélarnar eru smíðaðar innanlands og hinar stórvirku pressur, sem hvor um sig vegur 28 tonn og afkasta allt að 5.000 málum, á sólarhring, eru stærstu síldarpressur í heimi. Með smiði þessara pressa hefir hf. Héðinn, unnið afrek, sem markar tímamót í sögu Íslensks síldariðnaðar.
Ekki skorti þó hrakspár úr ýmsum áttum á meðan á smíði og uppsetningu véla stóð. En þessar raddir eru nú löngu þagnaðar. Er rétt í því sambandi að minnast þess, að til voru þó þeir menn, sem fylgdust með áhuga með þessum framkvæmdum og léðu þeim stuðning sinn, Helgi Guðmundsson bankastjóri, Magnús Gíslason skrifstofustjóri, Sigurður Kristjánsson alþingismaður ofl. Yrði of langt mál að telja upp margar, nýjungar, sem teknar voru upp við þessa nýsköpun og sem fyrst og fremst er að þakka hinum hugvitssama og ötula framkvæmdastjóra Snorra Stefánssyni.
Hagur verksmiðjunnar.
Eins og kunnugt er hefur síldveiði brugðist þrjú undanfarin sumur að mestu leiti. Sumarið 1945 bárust verksmiðjunni ekki nema 13,800 mál, 1946 tæp 94 þúsund, og síðastliðið sumar tæp 80 þúsund mál. Þrátt fyrir þetta er hagur verksmiðjunnar allgóður og sannar það betur en flest annað, að vélar og annar útbúnaður verksmiðjunnar eru í besta lagi.
Verksmiðjan hefur staðið í skilum með afborganir og vexti af teknum lánum, og hvílir í dag rúmlega 7 miljón króna skuld á henni. Þegar þess er gætt, að afköst verksmiðjunnar eru 10-12 þúsund mál, verður ekki annað sagt, en að endurbygging og nýsköpun þessi þoli allan samanburð.
Er ástæðulaust að örvænta um framtíð þessa fyrirtækis og bendir allt til þess að vonir manna muni rætast um að verksmiðjan eigi eftir að verða öflug lyftistöng fyrir Siglufjarðarbæ.
Það er þó síður en svo, að stjórn Rauðku telji endurbyggingarstarfi verksmiðjunnar lokið.
Verðmæti fara til spillis.
Á ári hverju fara verðmæti fyrir tugi milljóna íslenskra króna í sjóinn með skilvinduvatni síldarverksmiðju. Verðmæti þessi hafa hingað til ekki verið handsömuð hér á landi en í Ameríku eru til vélar, sem vinna dýrmæt fóðurefni úr skilvinduvatni síldarverksmiðja.
Stjórn Rauðku hefur ráðið til sin ungan og áhugasaman efnafræðing Geir Arnesen frá Akureyri, og vinnur hann, ásamt framkvæmdarstjórn að undirbúningi þess, að handsama eitthvað af þessum verðmætum.
Þá er vert að minnast á það, að hátt fitumagn í síldarmjöli rýrir mjög verómæti þess, en verð lýsisins, miðað við þunga, er mun verðmeira en mjölið. Það liggur því í augum uppi, að það væri fundið fé, ef hægt væri með góðu móti, að ná allri fitu úr mjölinu. Að þessum verkefnum er unnið og ekki ósennilegt, að árangurs megi vænta á næstunni. |