Deilurnar um nýju verksmiðjurnar
Sunnanblöðunum hefur undanfarið orðið mjög tíðrætt um nýju síldarverksmiðjurnar á Siglufirði og Skagaströnd. - Eins og kunnugt er, skipaði Áki Jakobsson, sem þá var atvinnumálaráðherra, fjögra manna byggingarnefnd til að sjá um byggingu verksmiðjanna. í nefndina voru skipaðir þeir:
Dr. Trausti Ólafsson, sem var formaður nefndarinnar, Snorri Stefánsson, Þórður Runólfsson og Magnús Vigfússon.
Strax í upphafi voru ýmsir menn óánægðir með að sérstök byggingarnefnd skyldi skipuð, en stjórn S.R. ekki faldar framkvæmdir.
Góð samvinna milli byggingarnefndar og stjórnar S.R. tókst aldrei, og ýmis ágreiningsmál komu upp. t.d. lagði meirihluti stjórnar S.R. til í fyrravor að hætt væri við byggingu Skagastrandarverksmiðjunnar í bili en öll áhersla lögð á Siglufjarðarverksmiðjuna, sem þá mundi sennilega verða tilbúinn í vertíðarbyrjun.
Byggingarnefnd vildi ekki fallast á þessa tillögu, og sagði að það myndi ekkert flýta fyrir Siglufjarðarverksmiðjunni þó hætt yrði við Skagastrandarverksmiðjuna, sem líka var rétt.
Nú fyrir nokkru síðan gerði Finnur Jónsson harðvítugar árásir á byggingarnefndina á Alþingi og tuggðu Alþýðublaðið og Morgunblaðið upp ræðu hans með mikilli ánægju.
En ádeilur Finns voru ekki fram settar, sem rökstudd gagnrýni, heldur voru þau illkvittin árás á byggingarnefnd og Áka Jakobsson.
Sjálfsagt má með réttu eitthvað finna að störfum byggingarnefndar enda er það varla á færi nokkurs dauðlegs manns, að vinna svo stórt og margbrotið starf að ekkert megi setja út á það eftir á.
En ádeilurnar á byggingarnefnd, eins og þær hafa verið hingað til eiga ekkert skylt við heiðarlega gagnrýni. |