Þriðjudagur 9. mars 1976
Fréttin Mbl., Ljósmyndir; Steingrímur:
"Opnaði hurðina og hrópaði á fólkið að koma sér strax út"
- sagði Gestur Halldórsson, bílstjórinn á rútubílnum, sem fór fram af veginum við Strákagöng.
- ÉG reyndi þvínæst að reka bílinn í bakkgír en það tókst ekki. Þá var ekki annað að gera en stökkva upp, opna hurðina og hrópa á fólkið að koma sér strax út. Þetta sagði Gestur Halldórsson í samtali við Morgunblaðið í gær, en Gestur ók 17 manna rútunni, sem fór fram af veginum Siglufjarðarmegin við Strákagöng aðfararnótt sunnudags en í þessu slysi beið einn maður bana, Magnús Sævar Viðarsson sjómaður. Gengur kraftaverki næst að takast skyldi að koma öllum farþegum út úr rútunni stjórnlausri og bremsulausri og er það fyrst og fremst að þakka snarræði bílstjórans að það tókst.

Þannig var rútan útlítandi, eftir veltuna niður hlíðina, fremst á bakkanum, hengiflug og sjórinn undir.
Þegar ég var rétt að verða komin út úr göngunum, sagði Gestur, fór stýrið úr sambandi. Við reyndum að þoka bílnum út úr göngunum til þess að ég gæti notað talstöðina og kallað upp rútuna sem var á undan okkur. Þegar stýrið fór úr sambandi var bremsan í lagi. Hins vegar þegar bíllinn var alveg komin út úr göngunum voru engar bremsur og ég steig allt í botn.
Ég reyndi því næst að reka bílinn í bakkgír en það tókst ekki. Þá var ekki annað að gera en að stökkva upp, opna hurðina og hrópa á fólkið að koma sér strax út. - Fólkið stökk strax á fætur og þegar ég var búinn að hjálpa þeim út sem voru fremst komu þeir í röð sem voru aftur í. Þegar síðasti maðurinn fór út var bíllinn við það að fara yfir brúnina. Þetta gerðist allt í svo skjótri svipan að Magnús heitinn komst ekki út, en hann var sofandi í bílnum, sem ég reyndar vissi ekki þá.
Eins og við var að búast greip um sig hræðsla hjá fólkinu en ég get þó ekki sagt annað en það hafi gengið vel að ná því út úr bílnum. Menn voru svo auðvitað mjög slegnir þegar þetta var afstaðið og menn höfðu áttað sig á því sem hafði gerst.
Það sem gerðist var það að þrír af fjórum boltum sem héldu loki yfir spindilkúlu brotnuðu og það hékk á fjórða boltanum. Við það fór stýrið úr sambandi. Þegar svo fjórði boltinn gaf sig gekk lega upp og braut í sundur bremsurörið og við það fóru bremsurnar af bílnum. Þegar bíllinn var keyptur hingað í janúar var hann nýskoðaður og bifreiðaeftirlitinu fannst þá ekkert athugavert við hann, sagði Gestur Halldórsson að lokum.

22 ára gamall maður lést þegar rútan féll niður 100 metra hlíð.
Magnús Sævar Viðarsson
Framhjólin komin útaf er sá "síðasti" slapp.
MAÐURINN, sem beið bana, þegar 17 manna rútan fór útaf Siglufjarðarmegin við Strákagöng aðfararnótt s.l. sunnudags, hét Magnús Sævar Viðarsson, Suðurgötu 24, Siglufirði. Magnús var skipverji á skuttogaranum Sigluvík.
Magnús heitinn var sofandi þegar atburðirnir gerðust og var ýtt við honum og reynt að vekja hann þegar fólkið flýtti sér út. Var ekki vitað betur en hann hefði vaknað en hið rétta uppgötvaðist ekki fyrr en í þann mund er bifreiðin var að fara útaf brúninni og var þá um seinan að koma honum til bjargar. Magnús mun hafa fallið út úr rútunni á miðri leið niður hlíðina og er talið að hann hafi látist samstundis.
Fólkið, sem var i rútunni hafði farið á dansleik á Hofsósi kvöldið áður, en þar sýndu gagnfræða-skólanemendur frá Siglufirði leikritið "Svefnlausa brúðgumann." Var farið á tveimur rútum. Rúturnar voru á heimleið þegar slysið gerðist og var rútan sem bilaði sú seinni.


Efri myndin sýnir op Strákagangna og fjarlægðina fram að brún vegar, en hún mun vera um 35- 40 metrar. Neðri myndin er tekin frá bílflakinu upp hlíðina.
Allt gekk vel þar til að kom í Strákagöng, -að bílstjórinn varð var við bilanirnar. Eins og kemur fram í samtalinu við bílstjórann, Gest Halldórsson, hér fyrir ofan, þá var ætlunin að ýta bílnum út úr göngunum svo að talstöðvar-samband næðist við fyrri rútuna, en þegar bremsurnar virkuðu ekki og allar aðrar leiðir til að stöðva bílinn árangurslausar skipaði Gestur fólkinu að yfirgefa bílinn enda stefndi hann með sívaxandi hraða að vegarbrúninni. Fjarlægð frá opi ganganna að vegarbrún er 35-40 metrar.
Gekk fólkinu vonum framar að komast úr út bílnum. Sem fyrr segir, var Magnús heitinn sofandi og á leiðinni út, var ýtt við honum. Var talið að hann hefði vaknað en svo reyndist ekki vera. Piltur sá, sem síðastur fór út úr rútunni, Valbjörn Steingrímsson, ætlaði einmitt að fara að athuga með Magnús en varð frá að hverfa því bíllinn var þá kominn með framhjólin útaf veginum og gat Valbjörn með naumindum forðað sér. Sá fólkið eftir rútunni í myrkrið en hún staðnæmdist ekki fyrr en tæpum 100 m neðar.
Valbjörn lagði nú af stað niður flughála hlíðina til að svipast um eftir Magnúsi og komst hann alla leið niður að bílnum þar sem hann hafði stöðvast í slakka, 15 metra fyrir ofan sjó og þótti það tíðindum sæta miðað við aðstæður. Fann hann ekki Magnús í bílnum.
Um sama leyti lagði annar ungur piltur, Guðmundur Blöndal af stað fótgangandi til Siglufjarðar eftir hjálp. Bankaði hann upp hjá Steingrími Kristinssyni. Hann hafði strax samband við bilstjóra hinnar rútunnar, Hafliða Sigurðsson og fór Hafliði strax á staðinn en kom áður boðum til lögreglu og björgunarliðs. Einnig var læknir kallaður til. Fannst Magnús eftir skamma leit og var hann þá látinn. Hafði hann fallið úr bílnum þegar hann var kominn hálfa leið niður hlíðina.