Gísli Elíasson fv. verksmiðjustjóri SREggert Theódórsson fv. lagestjóri SRÓkunn blómarós hjá SRStrákagöng við SiglufjörðFrá vígslu KFS 1966Togarinn Hafliði og GoðinnHaförninn "fastur í ís"

Slys við strákagöng Bland frétta Badmintonmót Skarðsmótið 1976 Loðnufréttir Hitaveitan Fjör í tuskunum Ádeila og svar

Ljósmyndasafn Steingríms, á netinu

Til forsíðu
Til baka

>LEITARVÉLIN

Hafðu samband:

Póstfangið mitt

Gefðu mér upplýsingar um nöfn sem mig vantar

Laugardagur 12 ágúst 1976 

Grein og ljósmynd: Steingrímur  -- Svar: Jón Reynir

Einu sinni gekk bræðsla vel en nú

gengur hún illa

Siglufirði í ágústbyrjun. ----  Einu sinni var það síld, nú er það loðna. Einu sinni gekk bræðsla vel, nú gengur bræðsla illa.  Hvers vegna? spyrja margir. Ekki er hægt að gefa einhlítt svar því margar eru orsakirnar, flestar  mannlegar.

Nú er það loðna en ekki síld sem brædd er hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í  Siglufirði. Þessi verksmiðjusamstæða SR 46 og SR 30 er stærsta  síldarverksmiðja landsins, miðað við fulla nýtingu til síldarbræðslu, en nú er það  loðna eins og áður sagði, sem brædd er og afkastageta eitthvað minni þó aldrei  hafi í raun reynt á það, þar sem aldrei hefur verið notaður nema hluti af  verksmiðjusamstæðunni til bræðslu á loðnu.

Annars er verksmiðjan orðin mjög úr sér gengin, úrelt og gamaldags. Ekki hefur  fengist nægjanlegt fé á undanförnum árum til eðlilegs viðhalds, hvað þá til kaupa  á tækjabúnaði samkvæmt kröfum tímans. Þá má telja furðulegt hvað starfsfólki SR  i Siglufirði hefur tekist að pressa hráefni i gegnum þennan “gamaldags garm".

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er mat  margra Siglfirðinga að frá því að byrjað var að “fjarstýra" þessari  verksmiðju að sunnan (en aðsetur framkvæmdastjóra er í Reykjavik) þá hafi (a.m.k. ) verklegur rekstur gengið verr en ella, því fulltrúi framkvæmda-stjóra er sem  næst valdalaus, og starf fulltrúa eða verksmiðju-stjóra hlýtur að vera mjög erfitt og  tauga skemmandi starf því margir eru þeir sjómenn og landmenn sem "tæta" hann  í sig bæði bak og fyrir, oft að ósekju, eða þá fyrir það sem honum hefur verið  skipað að gera, og eða gera ekki. - Skipað af aðilum sem vegna vanþekkingar  og eða áhugaleysis vita ekki nægilega mikið (hafa ekki séð aðstæður sjálfir) til að geta metið hlutina  rétt. Og mörgum finnst vissir "stjórnartaumar" hafa meiri áhuga á því að lax komi á  krókinn heldur en loðna.

Það hefur lengi viljað brenna við að verklegar framkvæmdir við undirbúning að  loðnumóttöku og bræðslu hæfust of seint, stundum ekki í raun fyrr en skipin eru farin  að týnast útá miðin, enda oftast mikil reiði sjómanna yfir seinagangi og brasi. Og  oft hafa menn hér haft á orði að ef til vill óskaði stjórn SR heitt fyrir hverja vertíð að  ekkert veiddist, þá þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu. Þetta er e.t.v. illa sagt  en hvað á það fólk að halda sem fylgst hefur með þessari starfsemi. Undirritaður  hefur starfað hjá þessu fyrirtæki í um 20 ár og aldrei kynnst öðrum eins “afturfótum"  og stjórnun þessa fyrirtækis síðustu árin. Þessu fyrirtæki líðst að sóa milljónum af  verðmætum án þess að nokkur segi frá því opinberlega, - ég get ekki þagað  lengur. Á undanförnum loðnuvertíðum hefur runnið frjálst eða dælt beint i sjóinn  blóðvatni, soð, mjöl og soðkjarni fyrir milljónir ef ekki tugmilljónir króna.

Þessi "aðferð" þótti sjálfsögð fyrir 20-40 árum þar sem tækniþekking var ekki  fyrir hendi til að fullvinna hráefnið. Fyrir 10 árum þóttu það hroðaleg mistök ef litið  magn fór til spillis, þá var tækniþekkingin komin til að fullnýta hráefnið, en nú virðist  þessi þekking gleymd, því allar fjörðurinn á Siglufirði og nágrenni eru þaktar grút, lýsi og mjöli, sem  komist hefur (viljandi?) í sjóinn. Fugl hefur drepist umvörpum vegna þessa og  sóðaskapurinn geigvænlegur og sú spurning hefur vaknað hjá mörgum hvort  "siglingamálastjóri" geti gefið svar við því hvort svona athæfi sé ekki ólöglegt  samkvæmt alþjóðalögum. Eða kannski loðnuolía í sjó flokkist ekki undir olíumengun?

Og í framhaldi þá má spyrja hvort ekkert eigi að gera í þessu máli hvað  sjómengun varðar og ekki má gleyma loftmenguninni?

Það bendir ýmislegt til að loðnuvinnsla til bræðslu geti orðið þjóðinni arðvænleg  bæði sumar og vetur, þótt loðnan komi aldrei í stað síldarinnar eins og í gamla daga. En til þess  að þessi atvinnugrein geti borið sig verulega, þarf að taka þetta verkefni föstum  tökum. Það þarf að endurbyggja verksmiðjukost landsmanna, því hann er yfirleitt  orðinn úreltur og stjórnendur SR þurfa að taka sig á eða víkja fyrir yngri mönnum  ella.

Það er ekki nægjanlegt að sýna örlitla skerpu á miðri vertíð, mjölskilvinda sú sem  væntanleg er til SR í Siglufirði hefði átt að vera starfhæf strax i byrjun, en ekki nú á  miðri, eða í lok vertíðar.

Steingrímur Kristinsson

 

Athugasemd framkvæmdastjóra S.R.

 

Blaðinu þótti rétt að gefa framkvæmdastjóra S.R. kost á að gera athugasemd við  grein Steingríms - og fer hún hér á eftir.

Vegna aflabrests á síldveiðum frá því 1967 og að sumarveiðar loðnu hafa ekki  orðið að neinu marki fyrr en nú i sumar, þó nokkrar veiðitilraunir hafi verið gerðar áður hefur  fjárhagur S.R. svo sem flestra annarra verksmiðja á Norður- og Austurlandi ekki  verið slíkur, að unnt væri að leggja í nýjar fjárfestingar að verulegu marki.

Verksmiðjunum hefur engu að síður verið haldið við svo að unnt væri að taka á  móti síld og loðnu, ef tækifæri gæfist.

Þrátt fyrir að tækjabúnaður verksmiðju S.R. i Siglufirði sé kominn nokkuð til ára  sinna, hefur loðnuvinnsla undanfarna vetur gengið þar tiltölulega vel, og má þakka  það m.a. þeim starfsmönnum verksmiðjanna, sem hafa langa starfsreynslu að  baki.

Sú loðna, sem veidd hefur verið i sumar fyrir Norðurlandi, hefur reynst mjög erfið í  vinnslu, ekki aðeins i verksmiðju S.R. í Siglufirði, heldur einnig í öðrum  verksmiðjum, sem eru með nýrri vélakost. Ástæður til þessara erfiðleika má rekja til  þess, að í fyrstu förmunum var loðnan mjög  blönduð sjó, auk þess að vera mjög átumikil og leystist fljótt upp af völdum átunnar  og sjálfsmeltingar á leiðinni í land og i þróm verksmiðjanna. Sumir farmarnir, sem  fyrst bárust, voru nánast einn fljótandi grautur. Þegar svo er komið, verður soðið  svo mikið að vöxtum, að þrátt fyrir að soðkjarnatækin anni að vinna kjarnann úr  soðinu, er það takmörkunum háð hversu miklu magni af kjarna er hægt að blanda  i pressukökuna. Af þessum ástæðum fór nokkuð af soði til spillis fyrst í stað.

Til þess að bæt a úr þessum erfiðleikum var óskað eftir því við skipstjórnarmenn  að þeir dældu loðnunni hægar úr nótinni um borð í skip sín, en við það kemur  loðnan heilllegri um borð og síubúnaður skipanna síar sjóinn betur úr aflanum.  Jafnframt var samkvæmt ráðleggingu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins bætt  formalíni i loðnuna um leið og hún rennur í lestar skipanna. Þessar aðgerðir hafa  leitt til þess, að loðnan kemur nú yfirleitt heilllegri að landi, þrátt fyrir langan  flutning.

Jafnframt þessum aðgerðum var loðnumóttöku hagað þannig, að móttakan var  takmörkuð við 2ja sólarhringa vinnslu verksmiðjunnar, i stað 7-8 sólarhringa  vinnslu áður og má segja að vinnsla í verksmiðjunni hafi gengið eftir atvikum vel  síðan.

Nokkur sjávarmengun átti sér stað í fyrstu, einkum frá veiðiskipum, sem lensuðu  vökva frá loðnunni áður en henni var landað. í vetrarloðnu er uppistaðan í þeim  vökva sjór, sem ekki hefur verið mikill mengunarvaldur, en í sumarloðnunni er  þessi vökvi blandaður átu, uppleystum efnum úr loðnunni og lýsi. Á þessu áttuðu  menn sig ekki í fyrstu, en eftir að þetta varð ljóst, lensuðu skipin á leið til lands og  úti í firðinum. Um lýsismengun í sjó frá verksmiðjunni er vart að ræða, þar sem allt  lýsi hefur verið skilið úr því soði, sem kann að hafa farið niður.

Um miðjan júní s.l., þegar verð á sumarloðnu var fyrst ákveðið, gerði  Verðlagsráð að skilyrði við verðlagningu, að loðnunni yrði ekki dælt í land eins og  tíðkast hefur við loðnulöndun síðustu 4 ár. Þess vegna varð tíminn nokkuð naumur  til að setja annan búnað upp. Þær tafir, sem orð er á gerandi við löndunina, má  rekja til skipanna sjálfra, eins og þegar lestarborð sem laus eru í farminum fara í  löndunartækin og stórskemma þau, svo og vegna annarra óhappa, sem skýrt  hefur verið frá í blöðum.

Síldarverksmiðjur ríkisins starfrækja verksmiðjur á 8 stöðum á landinu, þ.e.  Skagaströnd, Siglufirði, Húsavik, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Framkvæmdastjóri fyrir verksmiðjurnar er einn og situr hann í Reykjavík, en þaðan eru  greiðastar samgöngur á alla þessa staði.

Sala afurða verksmiðjanna, svo og innkaup til þeirra og fjármálafyrirgreiðsla, fer  fram á skrifstofu S.R. í Reykjavík. Er því eðlilegt að framkvæmdastjóri sitji í  Reykjavik.

Allar verksmiðjur, sem tekið hafa á móti sumarloðnu nú I ár, hafa átt í  örðugleikum með vinnsluna og hafa ekki náð hærri mjölnýtingu en 12-13%, sem  er lægra en fræðilega ætti að vera og þurrefnisinnihald loðnunnar gefur tilefni til.  Stafar þessi lélega nýting mest af því að verksmiðjurnar geta ekki nýtt allt soðið  vegna þess að pressukakan er það lin og litil, að hún þolir ekki alla íblöndun  soðkjarnans.

Útilokað er að verksmiðjurnar geti af eigin fé ráðist i stórframkvæmdir eða  fjárfrekar endurbætur. Verð á loðnu og öðrum bræðslufiski er og hefur verið það  hátt, að ekkert hefur verið eftir til að svo mætti verða.

Fjármagni ríkisins og lánsfé hefur verið beint til annarra og stundum umdeildra  framkvæmda, svo ekki hefur verið fyrirgreiðslu að vænta ár þeirri átt.

Jón R. Magnússon framkvæmdastjóri S.R.

 

Vangaveltur, nú 25 árum síðar. Í desember 2001 þegar þessi síða er sett út á netið.  Það hafa margar breytingar til hins betra átt sér stað vegna vinnslu á loðnuafurðum. Nú er þessi fiskur sem fæstir vildu af vita, orðinn viðráðanlegur á marga vegu, tæknilega fullkomin skip til veiðanna, fullkomnar verksmiðjur sem nýta loðnuna til manneldis og fullkomnar loðnubræðslur, sem eiga ekki í nokkrum erfiðleikum með að vinna bæði lýsi og mjöl úr fiskinum á hvaða árstíma sem er.

Enn eiga þó sumir eftir að læra, það eru sumir skipsstjórnendur og útgerðarmenn. Það er um hlutfall sjávar og loðnu, í þeim farmi sem að landi kemur. Sum skipin eru það vel útbúin að aðeins 4-6 % sjór er í skipunum, passlegt, til að auðvelda dælingu á farminum í land, eða það sem algengara er að kalla blóðvatn, sem er í farmi þeirra. Sum aftur á móti (fleiri en færri) koma trekk í trekk með um og yfir 15-20% blóðvatn (sjó) í farmi sínum og bölsóttast síðan endalaust yfir því í fjölmiðlum og víðar að það sé verið að svindla á þeim. Þeir fái meira uppúr skipum sínum á einum stað en annarsstaðar. 

Ástæðan fyrir því er ofur einföld að misjafnt mælist upp úr skipunum, hvort heldur er á Íslandi, Færeyjum eða annarsstaðar. Á flestum verstöðvum (bræðslum) er síubúnaðurinn orðinn það fullkominn, að lítið sem ekkert blóðvatn (sjór) fer á vogirnar, blóðvatnið fer í sérstaka tanka, þannig sést hlutfall fisks og blóðvatns (þ.e. sjór) í förmunum. Sumir bölva yfir þessum fullkomnu síum.

En ætli það væri ekki troðið upp í slíka karla, ef þeir ætluðu að reyna að landa fiskikössum fullum af sjó og þorski í hlutföllunum 20:80 og ætlast til að þannig væri "þorskurinn" vigtaður? 

Ég get ekki séð mun á loðnu og þorski með tilliti til vigtunar og get því ekki séð nokkra ástæðu til að blanda ætti vatni með loðnunni á vigtarnar, frekar en þorskinum. Og ekki frekar en að fjármálaráðherra heimtaði allt í einu að blanda bjórinn okkar, til helminga með vatni.  SK