Siglfirðingur 27. janúar 1949 Lýsisherslustöðin og ráðherratíð Áka
Hvað var gert meðan þingmaður kjördæmisins var atvinnumálaráðherra og nægur erlendur gjaldeyrir til, til að fá byggða lýsisherslustöð á Siglufirði ?
Kommúnistablaðið “Mjölnir” hefur undanfarið rætt byggingu væntanlegrar lýsisherslustöðvar og lagt áherslu á, eins og reyndar öll Siglfirsku blöðin, að heppilegast og réttlátast væri, að slík stöð yrði reist hér. -
Menn eru sammála að okkar gjaldeyrissnauða land, eigi mikið undir því komið, að flytja afurðir sínar út í verðmætustu formi. Lýsisherslustöð myndi ekki einungis verða stórt sport í rétta átt í því sambandi, heldur og auka atvinnuna, og þess er ekki síst þörf hér á Siglufirði.
Hinn mikli bægslagangur kommúnistablaða, í sambandi við þetta mál vekur fólk til umhugsunar um þeirra skerf fyrr og síðar til byggingar stöðvarinnar.
Hvað gerði hr. Áki Jakobsson, enn verandi þingmaður Siglfirðinga, meðan hans var aðstæðan og ráðherratignin til að knýja fram þetta hagsmunamál bæjarfélagsins og þjóðarinnar í heild?
Spyr sá sem ekki veit. Vitað er, að slík nýsköpun hefði verið margfalt þýðingarmeiri, en t.d. kaupin á Svíþjóðarbátunum o.fl. Hr. Áki Jakobsson, þingmaður Siglfirðinga, átti í sinni ráðherratíð að vinna ötullegast að því að lýsisherslustöð yrði reist hér, vitandi það, að hálft árið ganga verkamenn hér svo til algerlega atvinnulausir og vitandi það, að slík verksmiðja myndi stórum auka verðmæti síldarafurða, þeirra, er út eru fluttar, og vitaandi það, að slík verkamiðja væri best niðursett hér í hans eigin kjördæmi.
En hr.Áki Jakobsson, þingmaður, hefur að líkindum í vímu gjaldeyrismilljónanna, gleymt lýsisherslustöðinni - og Siglufirði.
Nú eru gjaldeyrisörðugleikar, nú hefur hr. Áki misst stöðuna og samviskuna með það að þykjast duglegustu forvígismenn þessara mála.
En litið þýðir að fást um þessa gleymsku ráðherrans, fyrrverandi Eins og komið er verðum við Siglfirðingar að treysta á samtakamátt okkar í þessu máli, og leiðandi menn stjórnarflokkanna hér, verða að gera sitt til að vinna því fylgi, að lýsisherslustöðin verði reist hér, strax og aðstæður leyfa.
Aðstaða og áhrif hr. Áka, og þingmanna kommúnista, er ekki slík í hinu háa alþingi, að nokkurs sé að vænta frá þeim þessu viðvíkjandi.
Lýsisherslustöðin er takmark, sem við Siglfirðingar verðum að vinna að af drengskap en festu, því afkoma bæjarbúa er ekki svo lítið undir því komið, að takist að auka vetraratvinnuna í bænum. - Offors og upphrópanir eru ekki líklegar til árangurs,en ef málið er sótt með rökum og festu þá er sigurinn frekast vís. |