Lýsisherslustöð | Rauðka | Burtrekstur | Einkaleyfi ! | Brottrestranir-Einherji | Uppsagnir-Mjölnir | Á 3. hundrað sagt upp

>>>>>>>>>>> Uppsagnir-Mjölnir

 

Til forsíðu
Til baka




Ljósmyndasafn Steingríms
á netinu.

Steingrímur Kristinsson Siglufirði
G-892-1569
S-467-1569

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mjölnir 29. júní 1949
Einkennileg ráðstöfun hjá S. R.

 

S.R. á Siglufirði hafa nýlega sagt upp vinnu fjölda .verkamanna, sem búið var að ráða í verksmiðjurnar og byrjaðir voru að vinna þar niður frá.

 

Ráðstöfun þessi mælist að vonum mjög illa fyrir meðal verkamanna, enda eru slíkar aðfarir með öllu óverjandi, og óvanalegar hjá verksmiðjunum á þess um tíma árs. Stjórnendur SR geta ekki afsakað sig með því, að ekki séu nægileg verkefni fyrir hendi hjá verksmiðjunum til að vinna að.

 

Nægir í þessu sambandi að benda á, hvernig lóðir SR lita út. Er það mikið verk, sem þar þarf að vinna. Sömuleiðis þarf að klára girðingar, sem byrjað var á í vor, en síðan hætt við. Þá var byrjað að steypa nýtt hús niðri á lóð SR30. Var steypt upp neðri hæðin. Við þessa byggingu hefur ekkert verið unnið í vor, ekki einu sinni slegið utan af húsinu.

 

Mörg önnur verkefni mætti benda á, sem verksmiðjurnar beinlínis þurfa að láta vinna, en í stað þess að láta verkamenn vinna þau, eru þeir reknir heim og þeim tilkynnt að engin þörf sé fyrir vinnuafl þeirra fyrr en trygging byrjar.

 

Þá er það sérstaklega eftirtektarvert, að fyrir þessari óþokkalegu árás hafa frekast orðið eldri menn og unglingar, sem litla eða enga vinnu hafa haft í vetur, og sýnir það eitt út af fyrir sig hugarfar stjórnenda SR til verkamanna.

 

Að svo komnu máli skal því ekki trúað, að þessar ráðstafanir séu gerðar með samþykki stjórnar og framkvæmdastjóra SR, en til þeirra hefur ekki náðst síðan uppsagnirnar fóru fram, vegna þess að þeir eru á fundahöldum í Reykjavík.

 

Það mun nú á næstunni upplýsast hver eða hverjir það eru, sem bera ábyrgð á þessari ráðstöfun, og er áreiðanlegt, að þeim herrum verður ekki gleymt af Siglfirskum verkamönnum.

Mjölnir 17. ágúst 1949

Brottrekstrarnir úr Síldarverksmiðjum ríkisins

Guðfinnur Þorbjörnsson verksmiðjustjóri rekur sex menn, af handahófi úr vinnu hjá S.R.

 

Eins og flestum bæjarbúum mun kunnugt af umtali, voru nokkrir fastráðnir verkamenn hjá SR reknir úr vinnu hinn 11. þ.m. Var þeim fyrst tilkynntur brottreksturinn munnlega, en sama dag sent bréf, undirskrifað af Guðfinni Þorbjarnarsyni verksmiðjustjóra.

 

Var burtreksturinn staðfestur í þessu bréfi og mönnum gefin að sök vinnusvik. Kemst Guðfinnur þannig að orði í bréfinu:

“Vinnubrögð yðar í vinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins undanfarna daga hafa verið svo léleg, að vér getum ekki lengur sætt oss við þau, og teljum, að þér hafið með þeim fyrirgert rétti yðar til vinnu hjá oss það sem eftir er tryggingartímabilsins í sumar, þar eð þér hafið ekki tekið leiðbeiningum verkstjóra og flokksstjóra vorra um að bæta vanrækslu yðar við vinnuna".

Verkstjóri og flokkstjóri, sem viðkomandi menn hafa unnið hjá hafa að sögn aldrei gefið þeim neina áminningu fyrir léleg vinnubrögð,og hafa viðurkennt í votta viðurvist, að þeir hafi ekki reynst síðri til vinnunnar en þeir verkamenn, sem með þeim unnu. Hafa samverkamenn þeirra lagt fram vottorð um hið sama.

 

Verkstjóri eins þessara manna hefur viðurkennt, að hann hafi tekið misgrip á honum og öðrum manni. Fannst honum ákveðið verk, sem hann hélt, að viðkomandi verkamaður væri að vinna, ganga illa, og er þetta tilefni til brottreksturs þessa verkamanns.

 

En þrátt fyrir, það, að verkstjórinn hefir hefur viðurkennt, að hann hafi tekið misgrip á honum og öðrum manni. Fannst honum ákveðið verk, sem hann hélt, að viðkomandi verkamaður væri að vinna, ganga illa, og er þetta tilefni til brottreksturs þessa verkamanns. En þrátt fyrir. það, að verkstjórinn hefur nú áttað sig á misgripum sínum, hefur hinn ranglega brottrekni maður ekki fengið vinnu sina aftur.

 

Þess skal getið, að verkstjórinn mun ekki hafa verið ánægður með vinnubrögðin á vinnustaðnum yfirleitt, og látið orð falla á þá leið, að það yrði að byrja á einhverjum með brottrekstrana!

 

Þessir brottrekstrarnir hafa mælst mjög illa fyrir. Verkamannafélagið Þróttur hefur nú tekið málið að sér og reynt að fá því framgengt með samningum, að mennirnir yrðu teknir aftur í vinnu, en sú tilraun hefur ekki borið árangur.

 

Mun félaginu í gær hafa borist bréf frá Guðfinni Þorbjörnssyni, þar sem hann heldur fast við fyrri ákvörðun sína. Lítur því út fyrir, að málið verði að ganga lengra.

 

Guðfinnur Þorbjörnsson, sem mun bera að mestu eða öllu, ábyrgðina á þessum brottreksrum, hefur hlaupið alvarlega á sig.

 

Gætinn yfirmaður, sem er óánægður með afköst undirmanna sinna, rekur þá ekki fyrirvaralaust úr vinnunni, eins og hér var gert, heldur áminnir þá fyrst og tilkynnir þeim, hvað við liggi, ef þeir bæti ekki úr. Enn síður er hægt að mæla því bót, að velja bara einhverja af handahófi úr stórum hóp manna til að reka.

 

Og að vísa manni úr vinnu í misgripum fyrir annan, og neita að taka hann aftur þegar mistökin upplýsast, mun vera algert einsdæmi, og fáum trúandi til slíks.

 

Þess skal getið, að a.m.k sumir þessara manna hafa unnið hjá SR áður, og hefur aldrei verið kvartað um slæm vinnubrögð hjá þeim fyrr en nú.

 

Vonandi bæta ráðamenn SR hið fyrsta fyrir þá rangsleitni, sem þessum verkamönum hefur verið sýnd, bjóða þeim að taka upp vinnu sína aftur og bæta þeim upp það tap, sem þeir hafa orðið vegna brottvikningarinnar.

 

Sú lausn á málinu er viðunarleg fyrir báða aðila, og sú eina sem sæmandi er fyrir stjórnendur verksmiðjanna.

 

Mjölnir 24. ágúst 1949

GUNNAR JÓHANNSSON

Samskipti SR við verkamenn og verkalýðssamtökin

 

Hvaða afstöðu hafa stjórnendur SR tekið gagnvart verkalýðssamtökunum, og hvaða siðferðilegar skyldur telja þeir sig hafa gagnvart verkamönnum?

 

Í vor, nokkru áður en tryggingartímabilið hófst i SR, sögðu verksmiðjurnar upp allmörgum verkamönnum, aðallega eldri mönnum og unglingum.

 

Var þeim tilkynnt, að þeir þyrftu ekki að búast við neinni vinnu fyrr en trygging hæfist, þ.e. 8. júlí. Stjórn Verkamannafélagsins Þróttar vítti þessa aðferð, og taldi þá, og telur enn, að það sem vakað hafi fyrir ráðamönnum verksmiðjanna hafi fyrst og fremst verið það að reyna að losa sig að fullu við sem mest af eldri starfsmönnum verksmiðjanna.

 

Þess skal ennfremur getið, að flestir þeirra, sem sagt var upp vinnunni i vor, voru ekki búnir að vinna þar þá nema sárafáa daga. Nokkrir þeirra, sem sagt var upp vinnunni, fóru ekki i verksmiðjurnar í sumar, heldur fengu atvinnu á öðrum vinnustöðvum.

 

Eftir að þessar uppsagnir fóru fram í SR í vor, hélt fjöldi verkamanna áfram að vinna í verksmiðjunum, enda sýnilega næg verkefni til staðar til að vinna við, svo það var ekki fyrir vöntun á verkefnum fyrir verkamennina til að vinna, að þeir voru reknir heim, heldur af allt öðrum og verri orsökum.

Gömlum starfsmanni í SR á Raufarhöfn sagt upp.

 

Á sama tíma og þetta skeði hér á Siglufirði, er eldri manni, sem búinn er að vinna hjá SR á Raufarhöfn í mörg ár, neitað um vinnu við verksmiðjurnar í sumar.

 

Maður þessi heitir Grímur Grímsson og er búsettur í Ólafsfirði. Í símskeyti, sem Grímur fékk frá S.R. á Raufarhöfn, er honum neitað um plássið á þeim forsendum, að enginn maður verði ráðinn í hans pláss, þar sem ákveðið hafi verið að fækka mönnum í verksmiðjunni. Þetta mun hafa verið átylla ein, því eftir því sem best verður vitað, var annar maður ráðinn í þetta starf. Þess skal einnig getið, að Grímur Grímsson slasaðist við vinnu í S.R. á Raufarhöfn fyrir nokkru síðan.

 

Ef þetta er aðstoðin, sem fyrirtækið veitir þeim mönnum, sem verða fyrir slysum við vinnu hjá því, sem því miður eru ískyggilega mörg, þá er sannarlega ekki hægt að segja, að það telji sig hafa miklar siðferðilegar skyldur við verkamenn sína.

 

Flestir atvinnurekendur hafa hingað til talið það skyldu sína að létta undir með þeim mönnum, sem verða fyrir slysum í vinnu hjá þeim, m.a. með því að láta þá hafa vinnu við þau störf, sem þeir geta frekast unnið.

 

Hjá S.R. virðist hið gagnstæða hafa átt sér stað, bæði í þessu tilfelli með Grím og fleirum.

Brottrekstrarnir í sumar.

 

Nú í sumar voru sex verkamenn reknir úr vinnu hjá SR á Siglufirði. Var þeim gefið að sök, að vinnuafköst þeirra hefðu verið léleg. Verksmiðjastjóri, Guðfinnur Þorbjörnsson, tilkynnti mönnunum þetta fyrst munnlega á mjög dónalegan hátt, og staðfesti það síðan í mjög naglegu orðuðu bréfi.

 

Stjórn Þróttar ræddi þessa brottrekstra við verksmiðjustjórann og framkvæmdastjóra S.R., Vilhjálm Guðmundsson. - Óskaði stjórn Þróttar eftir því, að mennúnir yrðu teknir i vinnu aftur, þar sem engar sannanir lægju fyrir um það, að þeir hefðu sýnt sviksemi í starfi, enda sumir þeirra búnir að vinna hjá SR undanfarin ár og aldrei verið fundið að vinnubrögðum þeirra svo vitað sé.

 

Eftir margra daga umþenkingar og fjölmarga klíkufundi með ýmsum ráðamönnum fyrirtækisins, kom svar frá herrunum Vilhjálmi og Guðfinni, þar sem þeir tjá sig ekki geta orðið við kröfu Þróttar um að taka mennina aftur í vinnu.

 

Stjórn Þróttar skrifaði þá stjórn SR og óskaði eftir áliti hennar i málinu og krafðist þess, að mennirnir yrðu teknir í vinnu aftur. Nú er liðin vika síðan bréfið barst til stjórnar SR., en ekkert svar hefur borist enn og enginn fundur fengist um málið í verksmiðjustjórn.

 

Formaður stjórnar SR, Sveinn Ben., er sagður suður í Reykjavík, en varaformaður telur sig ekki hafa vald til að boða fund í stjórn SR í fjarveru aðalformanns.

 

Til skilningsauka fyrir verksmiðjustjórn SR og aðra ráðamenn fyrirtækisins skal það tekið fram hér, að stjórn Þróttar er ákveðin í að knýja fram endanleg úrslit í þessu máli. Það er vitanlega hin mesta ósvífni hjá stjórn SR að liggja á slíku sem þessu, og draga svona að svara bréfi verkamannafélagsins.

 

Það er engin afsökun þó herra Sveinn Benediktsson þurft að fara suður til Reykjavíkur. Það eru fjórir stjórnarmeðlimir hér á staðnum, sem hefðu verið einfærir um það að afgreiða þetta mál strax og bréfið barst framkvæmdastjóranum í hendur.

Maður sem virðist vilja illdeilur.

 

Ég hef hér að framan minnst á nokkur atriði, sem snúa beint að verkamönnum, sem vinna hjá SR, atriði, sem sýna allvel þann hug, sem ýmsir ráðamenn þessa fyrirtækis bera til verkamannanna.

 

Getur verið, að síðar gefist tækifæri til að ræða frekar ýmislegt annað viðvíkjandi rekstri SR og framkomu ýmissa ráðamanna gagnvart starfsmönnum verksmiðjanna. Það er öllum ljóst, að samvinna milli verkamanna og verksmiðjustjórans er allt annað en góð, og er það fyrst og fremst vegna framkomu verksmiðjustjórans gagnvart verkamönnunum, sem við fyrirtækið vinna. Hefur þessi maður, Guðfinnur Þorbjörnsson, gert ítrekaðar tilraunir til að fara í kring um gildandi kaupgjaldssamninga Verkamannafélagsins Þróttar og fá út úr þeim allt annan skilning en þann rétta, og ekki í einu einasta tilfelli spurt um álit stjórnar Þróttar á viðkomandi atriðum.

 

Það hefur sannarlega ekki verið herra Guðfinni Þorbjörnssyni að þakka, að ekki hafa orðið stórárekstrar milli Þróttar og SR. Þar hafa aðrir en hann lagt sig fram um að miðla málum og jafna ágreininga, sem upp hafa komið.

Gott samkomulag SR. og Þróttar er báðum fyrir bestu.

 

Að lokum vil ég óska þess, að stjórn S. R. sjái sóma sinn i því að bæta úr því ranglæti, sem þeir verkamenn voru beittir, sem reknir voru úr SR í sumar, annaðhvort með því að bjóða þeim að vinna áfram í verksmiðjunum það sem eftir er í sumar, og greiða þeim fullt kaup fyrir þann tíma sem liðinn er síðan að voru reknir, eða greiða þeim fulla tryggingu í tvo mánuði, ef stjórnin telur sig ekki þurfa á vinnu þeirra að halda. Þetta eru þær minnstu kröfur, sem Verkamannafélagið Þróttur mun sætta sig við.

 

Það er ábyggilega best fyrir báða aðila, að þetta má1 verði leist með góðu samkomulagi þeirra. Með því sýndi stjórn SR að hún vilji gott samstarf við Verkamannafélagið Þrótt, það er áreiðanlega báðum fyrir bestu.