Mjölnir 24. ágúst 1949
GUNNAR JÓHANNSSON
Samskipti SR við verkamenn og verkalýðssamtökin
Hvaða afstöðu hafa stjórnendur SR tekið gagnvart verkalýðssamtökunum,
og hvaða siðferðilegar skyldur telja þeir sig hafa gagnvart verkamönnum?
Í vor, nokkru áður en tryggingartímabilið hófst i SR, sögðu
verksmiðjurnar upp allmörgum verkamönnum, aðallega eldri mönnum og
unglingum.
Var þeim tilkynnt, að þeir þyrftu ekki að búast við neinni vinnu fyrr en
trygging hæfist, þ.e. 8. júlí. Stjórn Verkamannafélagsins Þróttar vítti
þessa aðferð, og taldi þá, og telur enn, að það sem vakað hafi fyrir
ráðamönnum verksmiðjanna hafi fyrst og fremst verið það að reyna að losa
sig að fullu við sem mest af eldri starfsmönnum verksmiðjanna.
Þess skal ennfremur getið, að flestir þeirra, sem sagt var upp vinnunni
i vor, voru ekki búnir að vinna þar þá nema sárafáa daga. Nokkrir
þeirra, sem sagt var upp vinnunni, fóru ekki i verksmiðjurnar í sumar,
heldur fengu atvinnu á öðrum vinnustöðvum.
Eftir að þessar uppsagnir fóru fram í SR í vor, hélt fjöldi verkamanna
áfram að vinna í verksmiðjunum, enda sýnilega næg verkefni til staðar
til að vinna við, svo það var ekki fyrir vöntun á verkefnum fyrir
verkamennina til að vinna, að þeir voru reknir heim, heldur af allt
öðrum og verri orsökum.
Gömlum starfsmanni í SR á Raufarhöfn sagt upp.
Á sama tíma og þetta skeði hér á Siglufirði, er eldri manni, sem búinn
er að vinna hjá SR á Raufarhöfn í mörg ár, neitað um vinnu við
verksmiðjurnar í sumar.
Maður þessi heitir Grímur Grímsson og er búsettur í Ólafsfirði. Í
símskeyti, sem Grímur fékk frá S.R. á Raufarhöfn, er honum neitað um
plássið á þeim forsendum, að enginn maður verði ráðinn í hans pláss, þar
sem ákveðið hafi verið að fækka mönnum í verksmiðjunni. Þetta mun hafa
verið átylla ein, því eftir því sem best verður vitað, var annar maður
ráðinn í þetta starf. Þess skal einnig getið, að Grímur Grímsson
slasaðist við vinnu í S.R. á Raufarhöfn fyrir nokkru síðan.
Ef þetta er aðstoðin, sem fyrirtækið veitir þeim mönnum, sem verða fyrir
slysum við vinnu hjá því, sem því miður eru ískyggilega mörg, þá er
sannarlega ekki hægt að segja, að það telji sig hafa miklar
siðferðilegar skyldur við verkamenn sína.
Flestir atvinnurekendur hafa hingað til talið það skyldu sína að létta
undir með þeim mönnum, sem verða fyrir slysum í vinnu hjá þeim, m.a. með
því að láta þá hafa vinnu við þau störf, sem þeir geta frekast unnið.
Hjá S.R. virðist hið gagnstæða hafa átt sér stað, bæði í þessu tilfelli
með Grím og fleirum.
Brottrekstrarnir í sumar.
Nú í sumar voru sex verkamenn reknir úr vinnu hjá SR á Siglufirði. Var
þeim gefið að sök, að vinnuafköst þeirra hefðu verið léleg.
Verksmiðjastjóri, Guðfinnur Þorbjörnsson, tilkynnti mönnunum þetta fyrst
munnlega á mjög dónalegan hátt, og staðfesti það síðan í mjög naglegu
orðuðu bréfi.
Stjórn Þróttar ræddi þessa brottrekstra við verksmiðjustjórann og
framkvæmdastjóra S.R., Vilhjálm Guðmundsson. - Óskaði stjórn Þróttar
eftir því, að mennúnir yrðu teknir i vinnu aftur, þar sem engar sannanir
lægju fyrir um það, að þeir hefðu sýnt sviksemi í starfi, enda sumir
þeirra búnir að vinna hjá SR undanfarin ár og aldrei verið fundið að
vinnubrögðum þeirra svo vitað sé.
Eftir margra daga umþenkingar og fjölmarga klíkufundi með ýmsum
ráðamönnum fyrirtækisins, kom svar frá herrunum Vilhjálmi og Guðfinni,
þar sem þeir tjá sig ekki geta orðið við kröfu Þróttar um að taka
mennina aftur í vinnu.
Stjórn Þróttar skrifaði þá stjórn SR og óskaði eftir áliti hennar i
málinu og krafðist þess, að mennirnir yrðu teknir í vinnu aftur. Nú er
liðin vika síðan bréfið barst til stjórnar SR., en ekkert svar hefur
borist enn og enginn fundur fengist um málið í verksmiðjustjórn.
Formaður stjórnar SR, Sveinn Ben., er sagður suður í Reykjavík, en
varaformaður telur sig ekki hafa vald til að boða fund í stjórn SR í
fjarveru aðalformanns.
Til skilningsauka fyrir verksmiðjustjórn SR og aðra ráðamenn
fyrirtækisins skal það tekið fram hér, að stjórn Þróttar er ákveðin í að
knýja fram endanleg úrslit í þessu máli. Það er vitanlega hin mesta
ósvífni hjá stjórn SR að liggja á slíku sem þessu, og draga svona að
svara bréfi verkamannafélagsins.
Það er engin afsökun þó herra Sveinn Benediktsson þurft að fara suður
til Reykjavíkur. Það eru fjórir stjórnarmeðlimir hér á staðnum, sem
hefðu verið einfærir um það að afgreiða þetta mál strax og bréfið barst
framkvæmdastjóranum í hendur.
Maður sem virðist vilja illdeilur.
Ég hef hér að framan minnst á nokkur atriði, sem snúa beint að
verkamönnum, sem vinna hjá SR, atriði, sem sýna allvel þann hug, sem
ýmsir ráðamenn þessa fyrirtækis bera til verkamannanna.
Getur verið, að síðar gefist tækifæri til að ræða frekar ýmislegt annað
viðvíkjandi rekstri SR og framkomu ýmissa ráðamanna gagnvart
starfsmönnum verksmiðjanna. Það er öllum ljóst, að samvinna milli
verkamanna og verksmiðjustjórans er allt annað en góð, og er það fyrst
og fremst vegna framkomu verksmiðjustjórans gagnvart verkamönnunum, sem
við fyrirtækið vinna. Hefur þessi maður, Guðfinnur Þorbjörnsson, gert
ítrekaðar tilraunir til að fara í kring um gildandi kaupgjaldssamninga
Verkamannafélagsins Þróttar og fá út úr þeim allt annan skilning en þann
rétta, og ekki í einu einasta tilfelli spurt um álit stjórnar Þróttar á
viðkomandi atriðum.
Það hefur sannarlega ekki verið herra Guðfinni Þorbjörnssyni að þakka,
að ekki hafa orðið stórárekstrar milli Þróttar og SR. Þar hafa aðrir en
hann lagt sig fram um að miðla málum og jafna ágreininga, sem upp hafa
komið.
Gott samkomulag SR. og Þróttar er báðum fyrir bestu.
Að lokum vil ég óska þess, að stjórn S. R. sjái sóma sinn i því að bæta
úr því ranglæti, sem þeir verkamenn voru beittir, sem reknir voru úr SR
í sumar, annaðhvort með því að bjóða þeim að vinna áfram í verksmiðjunum
það sem eftir er í sumar, og greiða þeim fullt kaup fyrir þann tíma sem
liðinn er síðan að voru reknir, eða greiða þeim fulla tryggingu í tvo
mánuði, ef stjórnin telur sig ekki þurfa á vinnu þeirra að halda. Þetta
eru þær minnstu kröfur, sem Verkamannafélagið Þróttur mun sætta sig við.
Það er ábyggilega best fyrir báða aðila, að þetta má1 verði leist með
góðu samkomulagi þeirra. Með því sýndi stjórn SR að hún vilji gott
samstarf við Verkamannafélagið Þrótt, það er áreiðanlega báðum fyrir
bestu. |