Burtrekstrarnir úr SR
Fyrir stuttu var sex verkamönnum sagt fyrirvaralaust upp
vinnu hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og gefið að sök “léleg” vinnubrögð
við grunngröft tunnuverksmiðjunnar nýju.
Í stað þess að tilkynna trúnaðarmanni
verðamannafélagsins á vinnustaðnum, að ef þessir menn bættu ekki
vinnubrögð þá, yrðu þeir reknir, eru þessir menn reknir fyrirvaralaust
frá fyrirtækinu.
Allur málstilbúningur forráðamanna SR, sem standa að
þessum burtrekstrum, er með eindæmum og virðist tilgangur þeirra sá einn
að fá verkamenn upp á móti sér.
Nú er ekkert að því að finna, þótt þeir, sem stjórna
vinnunni hjá SR, vilji að unnið sé vel. Verkamenn eiga að kappkosta að
afreka jafn mikið yfir daginn og mögulegt er, og sjálfsagt er að taka
hart á öllum meiriháttar vinnusvikum.
En verkamenn geta alls ekki látið það viðgangast, að
mönnum sé sagt upp vinnu sökum “lélegra” vinnubragða, nema þessi þunga
sök sé sönnuð á þá, sem reknir eru fyrir þessar sakir.
Hafa þeir, sem stóðu fyrir brottrekstri þessum gert það.
Við skulum athuga það nokkuð nánar. - Flokksstjóri S.R. við
grunngröftinn á nýju tunnuverksmiðjunni hefur gefið fjórum hinna
burtreknu eftirfarandi vottorð:
"Það vottast hér með, að Andrés Davíðsson, Skúli
Benediktsson, Aðalbjörn Þorsteinsson og Gísli Þórðarson, hafa ekki
unnið ver en aðrir í grunngreftri tunnuverksmiðjunnar nýju".
Siglufirði 16. ágúst 1949
Hallur Garibaldarson
(sign.)
Guðfinnur Þorbjörnsson virðist ekki hafa upplýsingar
sínar um “léleg” vinnubrögð þessara manna frá flokksstjóra sínum.
Guðfinnur Þorbjörnsson getur ekki haft upplýsingar sínar
frá Sveini Ásmundssyni verkstjóra, er kemur aðeins endrum og eins á
þennan vinnustað, enda hefur Sveinn upplýst í viðurvist hinna burtreknu,
að hann hafi ekki borið fram kæru um það, að þeir yrðu reknir úr
verksmiðjunum. -
Hvaðan hefur Guðfinnur Þorbjörnsson þá upplýsingar sínar
um “léleg” vinnubrögð þessara manna?
Þeir sem stóðu fyrir þessum burtrekstri virðast nú vera
staðnir að þeirri sök, að hafa rekið þessa menn saklausa.
Þessir sömu menn hafa ekki viljað viðurkenna yfirsjón
sína og taka verkamennina í vinnu að nýju.
Nú er komið að því, að Siglfirskir verkamenn krefjast
þess, að hlutur þessara verkamanna sé tafarlaust réttur, og ekki verði
skilið við þetta mál, án þess að hinir burtreknu verkamenn fái fulla
uppreisn.
Þeir, sem stóðu fyrir þessum burtrekstrum munu framvegis
verða undir sterkri gagnrýni frá verkamönnum og þarf þá ekki að undra,
þótt slíkt verði til þess, að framvegis verði, því miður, miklu verra að
semja um þau ágreiningsmál, sem upp kunna að koma á milli þeirra og
verkamanna.
Getur þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir þá sjálfa.
Nú er þess að vænta, að stjórn S.R. veiti hinum burtreknu verkamönnum
fulla uppreisn, og bæti þannig fyrir óréttlæti verkstjóra síns.
Jóhann G. Möller |