Mjölnir 15. júní 1949 (Bæjarpósturinn)
Sagan af Hæringi.
Táknræn, fyrir afrek núverandi ríkisstjórnar á nýsköpunarsviðinu, eru kaup hennar á síldarbræðsluskipi.
Gæðingur hennar einn, vestur í Ameríku “hafði á hendinni” gamlan skipsskrokk. - Þennan skipsskrokk keypti ríkisstjórnin að óathuguðum möguleikum á að fá heppilegra skip, og lét með ærnum kostnaði koma fyrir í honum síldarbræðsluvélum.
Var þessi farkostur síðan vatni ausinn og nefndur Hæringur. Sögðu gárungar, að nafngiftin hefði verið ákveðin með hliðsjón af aldri fleytunnar, en aðrir uppnefndu skipið Hræring, með hliðsjón af efnisþéttleika þess.
Þetta skipsbákn hefur enn sem komið er reynst ónothæft til síldarbræðslu. Síldarslatti, sem var látinn í bræðsluvélar þess í vetur, kvað ekki hafa sést síðan i neinni mynd.
Og nú liggur þetta rándýra, grautfúna og kolryðgaða hró, sem aldursins vegna gæti verið amma Jóns Gunnarssonar, til þrengsla í Reykjavíkurhöfn, rammlega bundið við hafnarbakka, svo að því hvolfi ekki.
Kostar dvöl þess þar, að sögn kunnugra, hundrað þúsund krónur á mánuði hverjum.
Siglfirskur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar hefur stungið upp á því, að skipið yrði dregið upp á land og steypt utan um það.
Aðrir leggja til, að Jóni Gunnarssyni verði gefið skipið aftur, að því tilskildu, að hann komi því slysalaust og á sinn kostnað út úr Reykjavíkurhöfn.
Þetta var útúrdúr; fjallaði um helstu nýsköpunarframa “fyrstu ríkisstjórnar Alþýðuflokksins á Íslandi.” |