Búið að segja upp á 3. hundrað manns í
S.R. og Rauðku
Tryggingartímabilinu lauk í gær, og er nú búið að segja
upp flestum verkamönnum síldarverksmiðjanna. - Hvaða ráðstaf anir gerir
bæjarstjórn til að útvega þessum mönnum atvinnu?
Tryggingartíma verkamanna hjá síldarverksmiðjunum lauk í
gær, og var flestum þeirra sagt upp vinnu frá og með deginum í dag. -
Mun það alls vera á þriðja hundrað verkamanna, sem þar hefur misst
atvinnu sína og hefur ekkert að gera eins og sakir standa.
Byggingavinna er nú sáralítil í bænum, þó fjöldi húsa
standi ófullgerð. Er það fyrst og fremst að kenna því kreppuástandi, sem
skapast hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar, skorts á byggingarefni,
hinum margvíslegu hömlum og höftum, en þó fyrst og fremst vegna
lánsfjárskorts.
Framkvæmdir á vegum bæjarins eru varla teljandi, og
líklega lítillar atvinnu að vænta hjá honum í haust, því eins og kunnugt
er, hefur hann átt fullt í fangi með að standa undir launagreiðslum til
fastra starfsmanna sinna í sumar, og verkamenn hafa oftast átt fjögurra
til fimm vikna kaup sitt inni hjá honum. Þó ætti að mega vænta þess, að
bærinn geti veitt nokkrum hóp verkamanna stöðuga atvinnu í haust og
vetur.
En eins og áður hefur verið vikið að hér í blaðinu,
getur bæjarstjórn ýmislegt gert til úrbáta úr atvinnuleysinu, án þess að
það kosti bæinn mikil útlát.
Hún getur t.d. greitt á ýmsan hátt fyrir bátunum, sem
áformað er að gera út á þorskveiðar í haust, t.d. samið við eigendur
frystihúsanna um að halda eftir nægilega miklu af beitu handa þeim
bátum, sem héðan róa, séð um að salt sé fyrir hendi, útvegað
bryggjupláss, húspláss og fleira þess háttar.
Þá hlýtur það að vera einróma krafa bæjarbúa, að
síldarverksmiðjurnar hafi nokkurn hóp manna í vinnu áfram, að haldið
verði áfram við byggingu nýju tunnuverksmiðjunnar, að hafin verði vinna
í tunnuverksmiðjunni gömlu eins fljótt og unnt er, því eitthvað mun
þurfa að framleiða af tunnum fyrir næsta sumar, þó lítil hafi verið
söltunin í samar, að Emil Jónsson samgöngumálaráðherra og vegamálastjóri
láti nú hefja vinnu við Skarðsveginn eins og þeir lofuðu í vor að gert
yrði í sumar, en ekki hefur verið byrjað á enn, og ýmislegt fleira.
Bæjarstjórn og nefndir hennar hafa haft fjármál bæjarins
til athugunar undanfarið. Má búast við, að bæjarstjórnarfundur verði
bráðlega haldinn um atvinnumál bæjarins og fleira. Ættu verkamenn og
aðrir bæjarbúar að fylgjast vel með því, hvaða tillögur bæjarstjórn
hefur fram að færa til að bæta úr atvinnuleysinu, og reyna að sjá svo
um, að ekki verði látið sitja við orðin tóm, heldur eitthvað raunhæft
aðhafst.
Fyrir viku var á það bent hér í blaðinu, að vegna þess
sérstaka hlutverks, er Siglufjörður gegnir fyrir þjóðarheildina sem
miðstöð síldveiðanna, ætti hann heimtingu á því, að þegar sá
atvinnuvegur bregst, eins og hann hefur brugðist undanfarin ár, hlaupi
hið opinbera undir bagga með bænum og hjálpi honum til að
endurskipuleggja atvinnulíf sitt svo að hér verði lífvænlegt.
En ekki er að búast við því ,að ríkisstjórnin hlaupi til
og leggi honum upp í hendurnar atvinnutæki eða fjármagn til að útvega
atvinnutæki fyrir. Einnig í því máli verður bæjarstjórnin að hafa
forgöngu, og því fyrr, sem hún byrjar á að undirbúa það, því betra.
En það sem mest ríður á nú í svipinn, er að finna
lífvænlega atvinnu handa sem flestum bæjarbúum. Það mál þolir enga bið,
heldur verður að hefjast handa um úrbætur næstu daga. |