Ný “Rauðka" risin -- af grunni -
Um fátt hefir meiri styr staðið, en hið svonefnda Rauðkumál. Það er og hefir verið eitt af þeim réttlætismálum, sem hafin hafa verið yfir alla pólitík. En þó hafa til þess gerst menn að ganga berserksgang máli þessu til óþurftar, og hafa þeir þó allir, og hver um sig haft ærinn starfa annan og í nógu öðru að vasast.
En þessi spaugilega afstaða þessara manna, og andstaða gegn góðu og þörfu máli hefir gert þá að viðundrum í augum almennings. Og afstaða þeirra til Rauðkumálsins hefir fært almenningi heim sannir um það að slíkum mönnum sé ekki trúandi til forystu góðum málum til framgangs.
Menn geta átt von á því. að í þá hlaupi dyntir og luntar, svo að allt í einu snúi það út á þeim, er áður sneri inn, og allt í einu fari þeir að vega aftan að þeim, er þeir áður veittu brautargengi. Slíkir menn ættu sem minnst afskipti að hafa af opinberum málum.
Nú er svo komið um Rauðku, að hennar málstað er borgið, og þau högg er fjandmenn hennar greiða henni nú, reynast klámhögg ein, og vopn þeirra snúast gegn sjálfum þeim.
Lengi mun í minnum haft þingskjal 334 undirritað af tveimur Framsóknarmönnum, og er annar þeirra forfaðir flokksins. Hann hefir alla tíð verið nokkurskonar Lenín Framsóknarmanna og patríarki, og orð hans óskeikul, sérstaklega um ritun ævisagna þeirra, er hlaupið hafa í hans viðkvæmu taugar.
Nú ritar Jónas í þingskjal þetta þátt úr ævisögu bæjarfógetans hér, og kynnast Siglfirðingar Þar alveg nýrri persónu, er menn skoða fógetann í ljósi persónukynningar Jónasar.
Jónas er orðinn nokkurskonar Sweig Íslendinga, nema það skortir á, að Jónas er bara dálítið “minni” og skrifar ævisögur sinar af gagnöfugum hvötum, því Sweig þótti jafnan halda sig á vegum sannleikans, og vilja fremur draga það fram er gott var í fari manna en hitt, og þó því aðeins að satt væri.
Árásir sem þessar í þingskjali 334 eru vindhögg ein og vitleysa, sem enginn maður tekur mark á, enda er nú sagnaritarinn frá Hriflu einn á báti við andúð sinna fyrri áhangenda, og “undirdánugra" þegna.
Nú skrifar “besti penni" Íslands sinn “Ófeig” einn og óstuddur og telja menn það fyrirboða þess, að hinn pólitíski Hriflu-Jónas sé bráðfeigur, enda eru nú komin á hann dauðamörkin.
Föstudaginn 20. þ.m. voru haldin risgjöld hins mikla og myndarlega verksmiðjuhúss. Bauð stjórn fyrirtækisins verkamönum þess og ýmsum bæjarbúum, ritstjórum blaða, skipstjórum o.fl.
Skýrði formaður stjórnarinnar Guðmundur Hannesson bæjarfógeti, frá sögu byggingarinnar.
Er nú þarna svo frá öllu gengið, að eftir stríð mun auðvelt að stækka verksmiðjuna upp í 15 þúsund mála sólarhringsafköst.
Helstu rök mótstöðumanna Rauðkumálsins eru svo aumingjaleg, að ekki tekur því að svara þeim, en þau eru sú, að ekki megi bærinn byggja síldarverksmiðju sakir þess, að hún setji bæjarfélagið á höfuðið, vegna offramleiðslu síldarbræðsluafurða. En á sama tíma hamast þessir sömu menn við að agitera fyrir því með þjóðinni og á þingi, að ríkinu og einstaklingum líka sé nú mikil nauðsyn á að efla og auka bræðslu síldarverksmiðjur sínar.
Eru þeir að þessu til þess at stuðla að því, að ríki og einstaklingar fari á hausinn? Nei, öðru mær. Sú er ekki ástæðan. Hitt er heldur, að þeir óttast þarna skæðan keppinaut undir fyrirmyndarstjórn ágætasta síldarverksmiðjustjóra landsins, og það, að þessi bæjarverksmiðja er byggð á ágætasta stað til þeirra hluta, sem til er í landinu. Þetta er ástæðan! Þeir eru hræddir við hættulegan keppinaut, sem líklegur er til að verða fyrirmynd en ekki afturúrstand þess, sem tækni nútímans krefur, en ríkisverksmiðjurnar t.d. eru ekki samkeppnisfærar við slík fyrirtæki.
Það skal eigi meira um Rauðku rætt að þessu sinni, en einhvern tíma mun saga þessa merkilega fyrirtækis rituð og þeirra þar getið, sem stutt hafa mest og best að framgangi málsins, og hinum mun heldur ekki gleymt, sem reynt hafa að beita áhrifum sínum fjárhagslega og pólitískt málinu til bölvunar.
En allir, sem vel vilja Siglufirði, óska bænum til hamingju með hið myndarlega fyrirtæki, og vona, að það verði síldarbænum hin öflugasta lyftistöng til efnalegs sjálfstæðis. |