Kvikmyndahúsin
Við Siglfirðingar erum
miklir menn, og virðist svo, að við getum gert allt, sem okkur dettur í
hug á hvaða tíma sem er. Ein þeirra framfara, er hér hafa átt sér stað, er
að komið er annað kvikmyndahús. Erum við Siglfirðingar þar á undan öðrum
bæjum, því enginn bær á landinu mun hafa tvö kvikmyndahús að höfuðborginni
undanskyldri, nema Siglufjörður
Að mínu áliti er það framför
að kvikmyndahúsin eru tvö, því eins og allir skilja, munu þau keppast um
að vera hvort öðru betri, að því er snertir val mynda og aðbúnað. Eiga
bæði einstakir menn og félög þakkir skilið, sem að þessu standa. Það munu
flestir sammála um að fara í kvikmyndahús sé einhver ódýrasta skemmtunin,
sem völ sé á.
Um myndavalið og gæði
myndanna má sjálfsagt deila, en hverjum er í sjálfvald sett, hvort hann
sér myndina eða ekki. En reynsla mín er sú, að flestar myndir, sem eru
annað en meiningarlaust grín, sýni baráttu hins góða við hið illa. En
okkar er að velja eða hafna, hvort við förum í bíó eða ekki. Það virðist
svo, að hin lakari tegund mynda, og það sem miður er, hafi skjótari áhrif
til eftirbreytni heldur en þær betri.
Margir voru fljótir að læra
af setuliðinu þann ósóma að reykja meðan á sýningu stóð, einkum unglingar.
En reykingar í kvikmyndasal eru algerlega óþolandi. Vakti það því ánægju
mína er ég frétti, að Siglufjarðarbíó ætlaði að reyna að stöðva þennan
reykingafaraldur í sýningarsölum sínum og fannst mér það framför. Eitt
sinn var letrað á veggi kvikmyndahússins við Aðalgötu, að reykingar væru
bannaðar. En nú er búið að mála yfir það. Er það framför?! !
Einhverju sinni var það sagt,
að hættulegt gæti verið að reykja í kvikmyndahúsum og að fara með
óbirgðan eld, þar sem fólk væri samankomið, en nú er víst engin hætta á
því lengur. Það er víst framför ! !
Reykingar í kvikmyndahúsum
verða að hverfa, því að þær eru óþolandi og hættulegar, auk
íkveikjuhættunnar á maður á hættu að eyðileggja föt sín og ekki sæmir
sjálfstæðu fólki slíkt ósjálfstæði að geta ekki haft hemil á nautnum sínum
fáar mínútur.
Eigendur kvikmyndahúsanna
vilja ekki þessar reykingar, en þeir eru ekki í meirihluta í áhorfendahóp.
Það erum við, borgarar þessa bæjar og við getum ekki heimtað allt af öðrum.
Það erum við sjálfir, sem getum kippt þessu í lag.
Ekki getum við heimtað það
af eigendum "kvikmyndahúsanna, að við hegðum okkur eins og siðað fólk, eða
hvað finnst ykkur, Siglfirðingar góðir? Þeir, sem fylgst hafa með í þessum
efnum, vita, að það eru aðallega unglingar, sem eru valdir að þessum
reykingum, því flestum ef ekki öllum fullorðnum mun vera hægt að stilla
sig meðan á sýningu stendur. Ógleymt er reykingahléið, sem eingöngu er
haft fyrir þá, sem ekki þola við allan tímann án þess að reykja, svo fyrir
öllu er nú séð.
- Jæja, ég brá mér einn
góðan veðurdag á barnasýningu í Siglufjarðarbíó, alveg óbrynvarinn og átti
einskis ills von, en von bráðar fóru að koma blossar og eldglæringar
eftirfylgt af reykjarsvælu. Svo var nú á barnasýningunni.
Nei, Siglfirðingar góðir.
Það getur ekki gengið, að reykt sé í, bíósýningum
og munu flestir mér um það sammála. Því segi ég, og ég veit ég mæli fyrir
munn flestra, borgara þessa bæjar.
Bíó-eigendur stöðvið
reykingarnar strax.
Þ. J.
|