| Neisti 1. mars 1948
Þórður Þögli
Æði langt er síðan að mér barst í hendur bréf
verksmiðjumannsins, sem er mjög athyglisvert, en það hefur ekki getað
birst fyrr vegna rúmleysis í blaðinu og verð ég að biðja hann afsökunar
á því. Bréf verksmiðjumannsins er á þessa leið : .
Þórður minn !
Ég hefi fylgst með því, að þú tekur mörg mál til
meðferðar og veitir þeim afgreiðslu í dálkum þínum. Nú er eitt mál, sem
mig langar til að hreyfa og vona ég, að fleiri leggi orð í belg um það
málefni: þetta er um vaktatíma verkamanna í ríkisverksmiðjunum.
Ég vil sem sé að breytt verði til, þannig að teknar
verði upp 12 tíma vaktir við alla verksmiðjuvinnu í stað þeirra tveggja
6 tíma vakta, sem nú eru.
Skal ég reyna að rökstyðja mál mitt nokkru nánar, en
áður en að því kemur vil ég láta þá skoðun í ljós, að ég teldi
eðlilegast að aðeins væri um 8 tíma vaktir að ræða, enda hefur það verið
baráttumál okkar verkamanna um langt skeið að fá viðurkenndan átta tíma
vinnudag.
Hitt skal ég viðurkenna, að með jafnstuttum vinnslutíma
eins og oftast er á hverju ári mun ekki hægt fyrir verkamenn að
framfleyta fjölskyldum sínum með átta tíma vinnu.
Þetta var nú útúrdúr og skal ég nú koma að
vaktabreytingunni. Það sem mér finnst sérstaklega mæla með
vaktabreytingunni er þetta.
Verkamennirnir fá miklu lengri samfelldan tíma til
hvíldar og nauðsynlegra heimilisstarfa, sem óhjákvæmilega hvíla á hverjum
fjölskylduföður, sem stundar algenga verkamannavinnu.
Verkamenn þurfa ekki að skipta um klæðnað nema einu
sinni á sólarhring í stað tvisvar nú. Verkamenn þurfa ekki að eyða nema
hálfum þeim tíma, er þeir nú þurfa til gangs í vinnu og úr.
En allt þetta gefur verkamanninum lengri og betri tíma
til hvíldar og heimilisstarfa. Ég held, að 6 tíma vaktirnar séu gömul
arfleið frá þeim tíma þegar öll störf eða flest, voru miklu erfiðari en
þau er nú.
En það hljóta allir að viðurkenna, að með aukinni tækni
og vélanotkun hefur erfiði verkamanna minnkað. Er það ekki sambærilegt
við það, sem áður var. Ég veit, að nokkrir örðugleikar kunna að skapast
vegna matartíma, en ég held, að það megi lagast ef verkamenn hafa með
sér smurt brauð eða kaldan mat. Ég vil að minnsta kosti heldur fá eina
góða heita máltíð á sólarhring og njóta hennar, en borða tvær og njóta
hvorugrar vegna þreytu.
Verksmiðjumaður.
Ég skora eindregið á verkamenn síldarverksmiðjanna að
skrifa mér nokkrar línur um þessa tillögu verksmiðjumannsins, því að
mínu áliti er núverandi vaktarskipting í síldarverksmiðjunum
óviðunnandi.
Neisti 13. mars 1948
Þórður þögli
Bréf verksmiðjumannsins, er ég birti síðast í dálkum
mínum hefur komið af stað miklum umræðum meðal verkamanna í SR. Það
virðast flestir sammála því, að núverandi vaktarfyrirkomulag sé
óviðunnandi og þurfi að breytast. Hinsvegar eru ekki allir á eitt sáttir
um það, hvort betra sé að koma á 8 eða 12 tíma vöktum.
Þeir, sem eru á móti 12 tíma vöktum benda alveg
réttilega á það, að kyndarar hafa það erfitt verk með höndum, að það sé
alveg nóg fyrir þá að standa í 8 tíma. En með bættum vinnuskilyrðum, svo
sem með olíukyndingu í stað kola, ætti að skapast skilyrði fyrir betri
vinnu. - Ennfremur eru vinnuskilyrði þorra þeirra manna, sem taka á móti
mjöli í SR, það slæm að 12 tíma vaktir væru of erfiðar fyrir þá.
En þessu gætu verksmiðjurnar hæglega kippt í lag með
betri útbúnaði til þess að taka á móti mjölinu, enda réttmæt krafa.
Á sumum vinnustöðvunum inni í verksmiðjum er svo mikill
hiti að það væri ekki gott fyrir mennina þar að standa í 12 tíma
samfleytt, en þessu gætu forráðamenn verksmiðjanna kippt í lag með því
að koma þar upp betri loftræstingu, enda ber þeim skylda til þess.
Um 8 tíma vaktirnar er það að segja, að það sem
verkamenn hafa helst við þær að athuga, er hinn breytilegi tími, sem
menn eru að fara af vakt og koma.
Hvort vakta fyrirkomulagið verður betra fyrir verkamenn,
skal ósagt látið að sinni, en ég skora á stjórn Verkamannafélagsins að
taka mál þetta til umræðu í Þrótti sem fyrst og helst að láta fara fram
almenna atkvæðagreiðslu um það, hvort teknar skuli upp 8 eða 12 tíma
vaktir. |