|
Fullyrðingar Mjölnis um að ríkisstjórnin eða einstaka
fulltrúar í stjórn S. R. hafi “stöðvað allar framkvæmdir” í byggingu
lýsishersluverksmiðju, er uppspuni frá rótum.
Mjölnir gerir að umtalsefni í síðasta tölublaði sínu,
hina fyrirhuguðu lýsishersluverksmiðju.
Fyrirsögn greinarinnar er fremur sakleysisleg spurning – “Ætlar
ríkisstjórnin að svíkja Siglfirðinga um lýsishersluverksmiðjuna?”
Þegar hálfnaður er lesturinn á þeim blekkingavaðli, sem grein þessi er,
sést, að ekki er lengur spurt um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og
stjórnar S.R. í þessu máli, heldar fullyrt, að ríkisstjórnin og
fulltrúar stjórnarflokkanna í stjórn S.R. hafi stöðvað allar framkvæmdir
varðandi byggingu lýsishersluverksmiðjunnar.
Gætir því nokkurs ósamræmis milli yfirskriftar og niðurlags. Mun það
sennilega stafa af því, að einhver af hinum sárafáu, hógværari
kommúnistum hefur skrifað yfirskriftina, en Moskvukommúnisti
aðalinnihald greinarinnar.
Þó að Mjölnismenn hafi ekki fengið orð fyrir að fara með það, sem
sannast er í hverju máli, skal þeim því með fáum orðum bent á hið sanna
varðandi byggingu og rekstur lýsishersluverksmiðjunnar.
Mjölnir heldur því fram, að engum hafi dottið í hug bygging og rekstur
lýsishersluverksmiðju, nema fyrrverandi nýsköpunarstjórn.
Þetta er hin mesta fjarstæða. Löngu áður en allt nýsköpunartalið kom til
sögunnar, hafði stjórn S.R. falið hinum alkunna dugnaðarmanni Jóni
Gunnarssyni framkvæmdastjóra S.R. að kynna sér rekstur
lýsishersluverksmiðju og athuga, hvort tiltækilegt þætti að byggja slíka
verksmiðju hér.
Þessa rannsókn framkvæmdi Jón Gunnarsson á þeim árum, sem hann var
framkvæmdastjóri. S.R. Leiddi sú rannsókn í ljós, að ekki þótti rétt að
fara út í þessar framkvæmdir þá, í stuttu máli sagt, háir tollmúrar á
Ameríkumarkaði og of lágt verð á herta lýsinu torvelduðu framkvæmdir.
Það álasar enginn fyrrverandi verksmiðjustjórn, þó hún legði ekki til
við þáverandi ríkisstjórn, að byggð yrði og rekin lýsishersluverksmiðja
með fyrirsjáanlegu tapi.
Mjölnir segir, að það hafi verið eitt af fyrstu verkum Áka Jakobssonar
að hefja undirbúning að byggingu lýsishersluverksmiðju, og hann hafi
sent mann utan til að kynna sér málið og skipað byggingarnefnd.
Satt er það, að byggingarnefnd var skipuð, það vantaði ekki nefndirnar
hjá Áka - en störf þessarar nefndar urðu sáralítil.
Hún komst að vísu að þeirri niðurstöðu, að lýsisherslu verksmiðjan væri
best sett á Siglufirði, að slíkri niðurstöðu hefði hver einasta nefnd
komist, sem skipuð hefði verið til að rannsaka staðsetningu
lýsishersluverksmiðju, hefði hún litið á málið frá þjóðhagslegu
sjónarmiði, því Siglufjörður er sjálfkjörinn staður fyrir lýsishersluna.
Hér eru flestar og stærstar síldarverksmiðjur landsins. Mjölnir þarf því
ekki að vera að eyða rúmi til þess að læða því inn hjá Siglfirðingum að
það hafi verið af einskærri náð fyrrverandi atvinnumálaráðherra, að hér
hefur verið ákveðinn staður fyrir fyrirhugaða lýsishersluverksmiðju.
Eftir að núverandi ríkisstjórn ákvað, að stjórn S.R. færi með
byggingarmál lýsishersluverksmiðjunnar, hefir þetta gerst.
Strax eftir að stjórn S.R. tók við þessum málum, óskaði hún eftir
skýrslu frá fyrrverandi byggingarnefnd lýsishersluverksmiðjunnar um
störf sín. Sú skýrsla kom frá henni síðara hluta s.l. sumars. -
Enginn asi virtist á nefndinni að skila af sér skilríkjum, og þegar
gögnin loksins komu, voru þau í alla staði ófullkomin.
Engin teikning var fyrir hendi, engin rekstraráætlun, ekkert yfirlit
yfir verðmismun á hertu lýsi, og því lýsi, sem við nú seljum.
Ekkert hafði verið gert til fjáröflunar, svo að hægt væri að hefjast
handa. Og ekki hafði þessi nefnd, sem Mjölnir er svo hrifin af, einu
sinni sinnu á því að rita bæjarstjórn og hvetja hana til úrbóta á
vatnskerfi bæjarins.
Aðspurðir skýrðu þessi menn frá, að vatnsveita bæjarins væri nægileg
fyrir hina fyrirhuguðu verksmiðju. Þó vita allir, sem kynnt sér hafa
þessi mál, að fyrsta skilyrði fyrir lýsishersluverksmiðju er nægilegi
vatn og rafmagn, og að vatnsveitan, eins og hún er nú, er hvergi
nægjanleg fyrir bæinn, þegar verksmiðjur S.R. eru í gangi.
Eftir að verksmiðjustjórn S.R. fékk fulla vitneskju um hvernig mál þetta
hafði verið lauslega. undirbúið, var sýnilegt, að það fyrsta, sem gera
þurfti í málinu var að láta sérfróðan mann semja kostnaðaráætlun yfir
byggingu fyrirhugaðrar lýsishersluverksmiðju, og einnig fá samda
rekstursáætlun fyrir verksmiðjuna. -
Þetta gerði stjórn S.R. Hún réði Jón Gunnarsson til þessa verks, og tók
hann við því starfi s.l. haust.
Unnið er nú að því af honum og sérfræðingum vestra að semja þessar
áætlanir. Það er einnig í sambandi við þessa rannsókn, sem Guðmundur
Marteinsson verkfræðingur kom hingað norður og rannsakaði vatns- og
rafmagnsmál hér.
Skýrsla frá honum hefur enn ekki borist, en hann hefur látið í ljósi þá
skoðun, að nægilegt vatn væri fyrir hendi í Siglufirði, með nokkrum
aðgerðum á vatnskerfinu. Um rafmagnsmál okkar þarf ekki að fjölyrða, það
vantar aðra samstæðu í Skeiðsfossvirkjunina, og hana þurfum við að fá,
það er bráð nauðsyn - án hennar fáum við sennilega aldrei
lýsishersluverksmiðju. Það er mál okkar Siglfirðinga sjálfra, og það
þurfum við að knýja fram sem fyrst.
Með hliðsjón af því háa verði, sem nú er á öllu feitmeti í heiminum, og
með tilliti til þess, að gætt verði meiri hagsýni við byggingu
lýsishersluverksmiðjunnar en byggingu S.R.'46 og
Skagastrandarverksmiðjunnar (sem kosta munu um 43 til 45 milljónir),
ætti að mega gera sér vonir um, að niðurstöður byggingar- og
rekstursáætlana verði á þá lund, að lýsishersluverksmiðja sé
framtíðarfyrirtæki.
Um öflun fjár til þessara framkvæmda hefir verið rætt í
verksmiðjustjórn, en ekki hefir þótt tiltækilegt að leita til bankanna,
fyrr en að fengnum þeim upplýsingum, sem Jón Gunnarsson er að afla.
En ég læt hér svo staðar numið að sinni um þetta mál. En vel má vera, að
fleiri staðir en Siglufjörður horfi löngunarfullum augum til
staðsetningu lýsishersluverksmiðjunnar, og þar er ég sammála höfundi
Mjölnisgreinarinnar um, að við Siglfirðingar þurfum að vera vel á verði
um þetta hagsmunamál sitt sem önnur, en hitt er annað, að slík skrif sem
Mjölnis um þetta mál eru síst fallin til þess að vinna málstað
Siglfirðinga gagn, heldur þvert á móti.
Jón Kjartansson |