Mjölnir 21 júlí
1955 (frétt)
HÚSBRUNI
Verkamannafjölskylda missti
heimili sitt.
Um kl. 3 e.h. mánudaginn 11. þ.m.
kom upp eldur í húsi Ólafs B. Gíslasonar, Túngötu 9. Voru bæði hjónin og elsta
dóttir þeirra við vinnu úti, en heima var ungbarn og litlar systur þess, sem
gættu þess. Húsið varð fljótt alelda, en slökkviliðinu, sem kom fljótt á
vettvang tókst eftir h.u.b. hálfa klukkustund að ráða niðurlögum eldsins.
Húsið er einlyft timburhús á
steinkjallara. Brann það að mestu leyti að innan, svo og allir innanstokksmunir
fjölskyldunnar, fatnaður og áhöld.
Engum blandast hugur um, að tjón
þessarar fjölskyldu er mikið. Þótt eigur fátækrar verkamanns fjölskyldu leggi
sig ekki á upphæðir, sem um þyki talandi á fjármálasviði dagsins í dag, þá eru
þær þó það verðmætasta og besta, sem hún á. Missir þessara eigna er því þyngri
en tölum taki, þótt þær að einhverju leyti fáist bættar.
Fyrir nokkrum árum átti þessi
fjölskylda heima í nýrri íbúð í verkamannabústöðunum við Hvanneyrarbraut, þar
sem hún undi vel og vildi búa áfram. En hin óöruggu lífskjör verkamannsins hafa
bitnað hvað harðast á henni. Vanheilsa húsbóndans um tíma og langvarandi
atvinnuleysi urðu þess valdandi, að hann gat ekki staðið í skilum með greiðslur
vegna íbúðar sinnar og neyddist til að láta hana af hendi og fluttist þá í
þetta hús, sem nú varð eldinum að bráð.
Þegar svona vill til, er það skylda
samborgaranna að rétta hjálparhönd, enda munu margir hafa gert það þá strax og
bruninn hafði skeð. Þá er einnig vitað, að á nokkrum söltunarstöðvum tóku konur
sig saman um að láta eitt merki af söltun eins dags frá hverri renna til konu
Ólafs. Er þetta til fyrirmyndar og ættu konur á öllum söltunarstöðvum að gera
slíkt hið sama. Þá hefur skrifstofa Þróttar sent söfnunarlista á öll plön og
stærri vinnustaði, og er þess vænst, að verkamenn sýni bróðurhug sinn með
framlögum til styrktar Ólafi og fjölskyldu hans. |