| 
															Mjölnir 21 mars 1958  (frétt) 
                                                            Hörmulegt Slys  Gísli Þ. Stefánsson, hótelstjóri, og sex ára sonur hans, Stefán, biðu bana af völdum eldsvoða, er Hótel Höfn brann í fyrradag.  Um áttaleytið á miðvikudagsmorgun varð elds vart á miðhæð  Hótel Hafnar. Magnaðist eldurinn  svo skjótt, að húsið varð alelda á  fáeinum mínútum. Í húsinu bjó  Gísli Þ. Stefánsson, kona hans og  4 börn. Einnig Magnús Þórarinsson, kennari, sem bjó á efstu hæð.  Engir gestir voru í hótelinu.  Fólk mun hafa vaknað og þá, orðið eldsins vart og komst konan og  börnin tvö naumlega út og  Magnús einnig, öll á nærklæðum  einum.  Stefán sonur þeirra hjóna  mun ekki hafa náð út, en faðir  hans ætlaði að finna hann og  bjarga honum. Það tókst ekki og  stökk Gísli út um glugga á miðhæð hússins. Var hann þá orðinn  skaðbrenndur og slasaður. Var  hann fluttur í Sjúkrahús Siglufjarðar og lést þar eftir skamma  stund.  Elsti sonur hjónanna var  fyrir nokkru farinn í skóla, og  varð þá einskis var. Um kl. 10 var allt brunnið, sem  brunnið gat á efri hæðum hússins, sem var steinhús, með steinlofti milli 1. og 2. hæðar en klæðning öll og innviðir úr timbri og  öðrum eldfimum efnum á hinum  hæðunum. Ekki varð neitt við  eldinn ráðið því húsið var alelda,  þegar slökkviliðið kom á vettvang, og lélegur vatnsþrýstingur  fyrst. Slökkviliðinu tókst þó að  verja næstu hús, en mjóu munaði, að eldur læsti sig í húsið  Eyrargötu 17. Rúður brotnuðu í  því húsi og einnig allar rúður á  götuhlið hússins  Lækjargata. 9  sviðnaði nokkuð þrátt fyrir,  að vatni væri á það dælt og segl  þanin yfir, eftir því sem hægt var. Það var blæjalogn og sólskin og  reykurinn steig beint upp í loftið.  Menn hugsa með hryllingi til þess  ef vindur hefði staðið t.d. af norðaustri, því allar líkur benda til, að  þá hefði ekki tekist að verja tvö  e.t.v. þrjú hús, öll timburhús að  mestu, sem vestan Lækjargötu  standa. Ekkert er vitað um eldsupptök.    Hótel Höfn var nú helsta samkomuhús bæjarins auk þess að  vera, gistihús. Gísli Þ. Stefánsson  hafði byggt stóran og velbúinn  samkomusal við húsið austanvert  og var neðsta hæð hússins tengd  þeim sal, anddyri, fatageymsla og  fleira.  Voru húsakynni þessi tekin í   notkun nú um áramótin sl. Samkomusalurinn varð fyrir litlum  skemmdum af eldi, en allmiklum  af reyk og vatni, svo og innanstokksmunir.   Þessi bruni og manntjónið, sem  af honum hlaust, er einn hörmulegasti atburður, sem hér hefur  gert í langa tíð. |