Tunnuverksmiðjan í Tjarnargötu 16 brennur til kaldra kola með öllu sem í
henni er. Menn bjargast naumlega undan eldinum.
Aðfaranótt mánudag 18. þ.m. kl. að ganga 3 um nóttina, gullu við
brunalúðrar bæjarins, svo flestir munu hafa vaknað við. Þegar út kom
leyndi það sér ekki, að hér var um stórbruna að ræða, því dimmt var af
nóttu, en björtu logaskini sló yfir alla eyrina, enda stóð þá
tunnuverksmiðja H. Guðm. þar sem bærinn hefir í vetur verið að láta
smíða tunnur, í björtu báli og var þetta bæði ógnarleg og
tignarleg sjón að sjá þetta feiknar bál í myrkrinu og næturkyrrðinni.
Eldsins varð fyrst vart á efri hæð verksmiðjunnar, þar sem 13 menn voru
við vinnu og þá með þeim hætti, að alt í einu heyrðu Þeir eitthvert
hljóð frá vélahúsinu og samstundis kom eldblossinn út um dyrnar og
læsti sig um allt loftið á svipstundu, svo að menn þeir, er þarna voru
að verki, gátu hvorki tekið með sér tæki sín, eða yfirhafnir, þó
hvorutveggja væri rétt við höndina.
Slökkviliðið mætti fljótt á brunastaðnum og eftir að Það hafði komið
fyrir sig véldælunni með þrem slöngum, hafði Það fullt vald á eldinum
og varði næstu hús og palla af mikilli prýði. Húsið var að mestu fallið
eftir 3 tíma, en í rústunum lifði hátt á annan sólarhring, þrátt fyrir
það þó stöðugt væri unnið að því að kæfa í þeim eldinn.
Efni, vélar og byggingarnar var Allt vátryggt fyrir 137 þúsund hjá
Sjóvátryggingarfélagi Íslands h.f. og Brunabótafélagi Íslands. Meðan
aðaleldurinn var uppi, var sunnan andvari, en er á daginn leið hvessti á
norðan og um kvöldið kl. 11.30 þegar veðurhæðin var orðin 6-7 magnaðist
eldurinn svo að kalla varð,út brunaliðið í annað sinni og vann það
langt fram á næsta dag að því að slökkva í rústunum.
Einherji, 15. júní 1932
Húsbruni.
Kl. 1 á fimmtudagsnóttina 9. þ.m. varð eldur laus í íbúðar og fiskihúsi
Ólaf Henriksen. Eldsins varð fljótlega vart af fiskaðgerðarmönnum er
unnu í grennd við húsið.
Slökkviliðið kom að vanda fljótt á vettvang og slökkti eldinn á
svipstunda með hinni ágætu mótordælu. Húsið skemmdist mikið af vatni og
eldi og ýmislegt er þarna var geymt, svo sem síldarnet og snurpunætur.
Húsmunum Henriksen var bjargað að mestu af brunaliðinu því enginn bjó í
húsinu, en talsverðar skemmdir munu hafa orðið á mununum.
Húsið var vátryggt í Brunabótafélagi Íslands, fyrir 6.700 krónur, og
matvæli og húsmunir að einhverju leyti hjá “Nye Danske" og
Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Kviknað hafði í húsinu frá
rafmagnsleiðslum
Einherji 28. september 1932
Húsbruni.
Á mánudagsmorguninn kom upp eldur í húsi því er Oddur Oddsson frá
Siglunesi á í Engidal. Bjó Oddur þarna um tíma með konu sinni og barni.
En þennan morgun hafði Oddur búist á stað til fjallskila árla mjög. Kl.
að ganga níu fór kona Odds og barnið með henni til úthýsis til einhverra
verka og dvaldi þar um stund.
En er hún kom aftur til íbúðarhússins, var reykjarsvælan orðin svo megn
inni, að hún gat sama og ekkert að hafst og fékk aðeins bjargað tveim
sængum.
Húsið var vátryggt hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands fyrir 6000 krónur.
Einherji, 31 maí 1933
Skip brennur.
Síðastliðna laugardagsnótt strandaði frakkneska fiskiskipið "Fleur de
France" hér við Sauðanesið vestan Siglufjarðar. Þoka var á, en skömmu
síða bar þar að ms “Kolbein unga" frá Akureyri og tókst honum að draga
skipið á flot kl. 8½ á laugardagsmorguninn.
Fréttir höfðu borist hingað inn í bæinn um strandið snemma um morguninn.
Fór þá hafnarvörður strax á vettvang og fleiri á mótorbátum.
Um það leyti er "Kolbeinn" kom skipinu á flot varð elds vart fram í
skipinu, og voru hásetar eitthvað að reyna að slökkva.
Ekki vildi skipstjóri láta draga sig til hafnar, en leysti togvír
Kolbeins og lagðist við akkeri á 10-11 faðma dýpi, en það er á miðri
skipaleið vestan, að.
Nokkru síðar gaus upp eldur i mótorhúsi skipsins og magnaðist fljótt,
svo og eldurinn fram í. Fóru þá skipverjar að tygja sig til að yfirgefa
skipið, og bjarga föggum sinum.
Fóru þeir í fiskibáta skipsins, en skipið hafði stundað lóðarveiði á
bátum (doríum) frá skipinu. Um hádegisbilið komu mótorbátar með
fiskibátana í togi, 14 að tölu og var skipshöfnin í þeim, 36 manns.
Þá fóru skipin Valbjörn og Ármann út að hinu brennandi skipi, sem
vitanlega var stórhættulegt að láta sökkva þarna á svo grunnri og
fjölfarinni skipaleið.
Tókst þeim, þrátt fyrir eldinn, að saga sundur keðju skipsins og koma
því eftir leiðsögn hafnarvarðar uppundir fjöru við svonefndan Vindbelg
undir Nesskriðum.
Héldu skip þessi áfram slökkvitilraunum uns þeim tókst loks að kæfa
eldinn með aðstoð véldælu slökkviliðsins, undir forustu
slökkviliðsstjórans.
Allmiklu hefur verið bjargað af veiðarfærum, dragreipum úr reiða o.fl.
Nú hefur þeim skipshöfnunum á Ármanni og Valbirni tekist að þurrdæla
skipið að mestu. Hefur áhöfn þessara skipa unnið sleitulaust að
björgunarstarfinu.
Um 100 smálestir af saltfiski er í skipinu og verður honum sennilega
öllum bjargað, hvað sem nýtilegt kann að reynast af honum til verkunar.
Eigi er enn kunnugt með hverjum hætti kviknað hefur í skipinu, en
sjópróf fara nú fram í Reykjavik þessu viðvíkjandi, því skipshöfnin fór
öll héðan með s.s. Gullfoss stranddaginn.
“Fleur de France" er stórt þrísiglt mótorskip um 700 brútósmálestir að
stærð. Allt er skipið brunnið að aftan og framan niður að sjó. en
lestarrúm að mestu óskemmt.
Einherji, 15. júní 1933 Auglýsing:
STRAND UPPBOÐ - frá Fleure de France.
(vegna strands og elds)
Á hafnarbryggjunni Siglufirði fer fram opinbert uppboð miðvikudaginn 21.
þ.m. á ýmsum strandmunum frá Fleure de France.
Uppboðið hefst kl. 3½ síðdegis. Ef viðunanlegt boð fæst, verður selt m.a:
saltskóflur, dufl, dregg, varpakkeri, keðjur, akkerislásar, skrúflyklar,
körfur, lóðir, manilla, stengur, stýri, árar, ámur. járnfat, segl,
saltfiskur, bátar (14 “doríur"), skipsflakið Fleure de France með
keðjum, siglum o. fl.
Gjaldfrestur verður veittur til 10. júlí n.k. en aðeins áreið¬anlegum
kaupendum, sem uppboðshaldari þekkir.
Uppboðsskilmálar lesnir upp á uppboðsstaðnum.
Ef veður leyfir má búast við, að uppboðið á Fleure de France fari fram
við skipið og verður það nánar tilkynnt í upphafi uppboðsins. --
Skrifstofu Siglufjarðar 3. júní 1933. -- G. Hannesson.
Einherji, 7. september 1933
Eldur kom upp í morgun, laust fyrir
fótaferðatíma, í húsi Benedikts Einarssonar vélstjóra hér. Fólk allt
komst úr húsinu en nær því engu varð bjargað af innanstokksmunum.
Slökkviliðið kom á vettvang og kæfði eldinn á stuttum tíma. Húsið er
mikið skemmt innan af vatni, eldi og reyk og húsgögn sömuleiðis.
Húsmunir eigandans, Benedikts Einarssonar, voru óvátryggðar, en Jón
Þórðarson, umboðsmaður h.f. Kveldúlfs, sem bjó í húsinu, hafði sína
búshluti vátryggða. Eldurinn kom upp í kjallara hússins, en óvíst er enn
á hvern hátt.