Mjölnir 28.
maí 1947
Íbúðarhús brennur
Íbúðarhúsið Hlíðarvegur 3c hér í bænum brann til kaldra kola í
fyrrinótt. Eigandinn, Björgvin Bjarnason, bjargaðist nauðlega út ásamt
konu sinni og tveim ungum dætrum. Tjónið er mjög tilfinnanlegt.
Sennilegt er, að kviknað hafi út frá rafmagni.
Í fyrrinótt klukkan tæplega 3 varð elds vart í húsinu númer 3c við
Hlíðarveg, sem er eign Björgvins Bjarnasonar lögfræðings.
Dóttir hans, tveggja ára gömul, vaknaði við reykinn og vakti þegar
foreldra sína. Var þá þykkt reykjarkaf í herberginu.
Fór Björgvin þegar fram úr rúminu og fram til útidyra, til þess að
athuga, hvort hægt mundi að bjarga konunni og börnunum þá leið.
Var húsið þá alelda. Er hann kom út, var maður, sem staddur hafði verið
í húsi skammt frá, kominn að húsinu, og fór hann tafarlaust til þess að
gera slökkviliðinu aðvart. -
Þegar Björgvin ætlaði inn aftur til þess að bjarga konu sinni og börnun,
hafði útihurðin skellst í lás, og varð hann að brjóta glugga til þess að
komast inn.
Skarst hann nokkuð á höndum og víðar við það, en þó ekki alvarlega.
Tókst honum að koma konunni og börnunum klakklaust út. Er því var lokið,
fór hann enn á ný inn til þess að bjarga innanstokksmunum, ef unnt
reyndist, en tókst engu að bjarga nema örfáum bókum úr skáp, sem stóð út
við glugga, og hann fleygði út. Hélst hann ekki við inni nema örskamma
stund, sökum hita og reykjar.
Slökkviliðið kom á vettvang rúmlega 3, en þá var eldurinn svo magnaður,
að lítið varð að gert. Tókst því með naumindum að verja næsta hús fyrir
sunnan, sem var eign Kjartans, bróður Björgvins, fyrir eldinum.
Húsið brann að heita má til ösku ásamt öllu innanstokks, en fólkið
bjargaðist fáklætt. Húsið var úr timbri og ekki fullgert. Það var
vátryggt fyrir 67 þúsund krónur, sem er mjög lágt, og innanstokksmunir
aðeins á 30 þúsund krónur, sem einnig er mjög lágt.
Meðal þess, sem brann, voru mörg hundruð bindi af bókum, flest fágætar
bækur og mjög dýrar, svo vátryggingarféð mundi vart nægja til að bæta
það tjón eitt. Má m.a. af því marka, hve mikið tjónið er. |