Ógeðsleg skrif.
Í síðasta Neista er í grein, sem heitir "Nartað í Finn", m.a. eftirfarandi klausa: "Annars er aðstaða Mjölnis og Kommúnistanna sem að honum standa, til þeirra Finns og Sveins vel skiljanlegt þeim, er til þekkja.
Kommúnistarnir telja Svein Benediktsson hafa gert sér pólitískan greiða hér á Siglufirði fyrir nokkrum árum, sem þeir telja seint oflaunaðan".
Hvað meinar blaðið? Hafa menn spurt hver annan og brotið heilann og flestir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hér sé átt við það, að "kommúnistunum" finnist þeir standa í þakkarskuld við Svein Ben. fyrir þann þátt, sem hann var á sínum tíma talinn eiga, í því, að Siglfirskur verkalýður missti einn af forystumönnum sínum, Guðmund heitinn Skarphéðinsson.
Er Neisti hér með að drótta því að okkur sósíalistum, að við höfum fagnað dauða þessa manns.
Þessi aðdróttun er svo ljót, að það er á takmörkunum, að hægt sé að trúa slíkri lítilmennsku og lubbahætti á nokkurn mann, að hann komi með slíkar ásakanir. En því miður eru aðstandendur Neista komnir á svo lágt stig, að þeir nota svona baráttuaðferðir.
Halda þessir menn virkilega, að svona aðferðir gagni þeim eitthvað? Og er það kannski af hlífð við þá, sem áttu um sárt að binda vegna þessara atburða á sínum tíma, að farið er að rifja þetta upp og draga inn í pólitískar erjur?
Það hefir hver sinn smekk. |