Siglfirðingur 7. ágúst 1942
Stórkostleg aukning á Síldarverksmiðjum ríkisins
Tillögur um afkastaaukningu um 30 þúsund mál á sólarhring.
Eftir ítarlegar umræður um aukningu á afköstum Síldarverksmiðja ríkisins og byggingu nýrra síldarverksmiðja, samþykkti stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og framkvæmdastjóri einróma á fundi sínum hinn 27. júlí. að bera fram eftirfarandi tillögu við ríkisstjórn og Alþingi:
Þar eð stjórn S.R. og framkvæmdastjóri eru samála um, að mikil þörf sé fyrir fleiri síldarverksmiðjur í landinu, þá samþykkir stjórnin að fara fram á við ríkistjórn og Alþingi eftirfarandi heimild til handa S.R.
Síldarverksmiðjur ríkisins byggi nýjar verksmiðjur, með 30 þúsund mála afköstum á sólarhring, svo fljótt. sem ástæður leifa og á eftirtöldum stöðum:
Á Siglufirði 10 þúsund mála verkmiðju.
Á Raufarhöfn 5 þúsund mála verkmiðju.
Á Húsavík 10 þúsund mála verkmiðju.
Á Skagaströnd 5 þúsund mála verkmiðju.
Um tvær hinar síðartöldu er bygging bundin því skilyrði, að hafnarbætur verði framkvæmdar og að nægilega stórar lóðir fáist með hagkvæmum kjörum. Jafnframt fer stjórn S.R. fram á að Alþingi heimili henni að taka lán með ríkisábyrgð, að upphæð allt að 25 miljónum króna, til bygginga hinna nýju verksmiðja.
Lánið, eða hluta þess, skal boðið út með samþykki ríkisstjórnarinnar, þegar fullnaðar kostnaðaráætlun um byggingu hinna einstöku verksmiðja er fyrir hendi.
Í lok júlímánaðar fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins og framkvæmdastjóri í þriggja daga ferðalag til Húsavíkur og Skagastrandar, til þess að kynna sér sameiginlega allar aðstæður fyrir byggingu hinna nýju verksmiðja á þessum stöðum og til þess að tryggja verksmiðjunum nægilegt landrými, ef Alþingi samþykkti tillögur verksmiðjustjórnarinnar.
Á Húsavík átti verksmiðjustjórnin fund með Júlíusi Hafstein, sýslumanni, oddvita hreppsnefndarinnar og hafnarnefnd kauptúnsins og á Skagaströnd við Jón Pálmason, alþingismann og Hafstein Pétursson, formann hafnarnefndarinnar.
Árangurinn af þessum viðræðum varð sá, að á báðum þessum stöðum hafa Síldarverksmiðjum ríkisins verið boðnar fram ókeypis þær stóru lóðarspildur, sem stjórn S.R. og framkvæmdastjóri töldu heppilegastar sem verksmiðjustæði.
Fulltrúar frá stjórn S.R. munu væntanlegir til Reykjavíkur nú um helgina til þess að fylgja fram tillögum stjórnarinnar við ríkisstjórn og Alþingi. |