Rauðku mál
S.l. miðvikudag 4. apríl var haldinn bæjarstjórnarfundur og lá fyrir kosning nefnda. Flestar nefndirnar voru endurkosnar óbreyttar og mun Mjölnir skýra frá þeim sérstaklega. Þá var, einnig kosið í Rauðkustjórn, þar eð kosning sú, sem fram fór í janúar s.l, var úrskurðuð ólögleg. Kosnir voru í stjórnina:
Gunnar Jóhannsson, Ottó Jörgensen, Ragnar Guðjónsson, Aage Schiöth og Sveinn Þorsteinsson. Til vara, Kristmar Ólafason, Óskar Garibaldarson, Skafti Stefánsson. Egill Stefánsson og Axel Jóhannsson.
Vegna þess að kosning Rauðkustjórnar á þessum fundi hefur verið mjög umtalað mál og á margan hátt rangfært manna á milli, vill Mjölnir hér með birta þau plögg, sem snerta þetta mál. Fyrst birtist hér úrskurður forseta um kosninguna:
Þann 6. júlí 1944 var staðfest af félagsmálaráðuneytinu, reglugerð um rekstur síldarverksmiðjunnar “Rauðku,” eign Siglufjarðarkaupstaðar, en í þeirri reglugerð er svo kveðið á í 1. grein að stjórn verksmiðjunnar sé skipuð fimm mönnum árlega tilnefndum af fulltrúaráði hvers flokks er tilnefni einn mann og annan til vara. Þegar ríkisábyrgð fyrir byggingarláni til “Rauðku” var samþykkt á alþingi - haustþinginu 1944 - var það gert að skilyrði fyrir ábyrgðinni að stjórn síldarverksmiðjunnar “Rauðku” skuli kosin hlutfallskosningu af bæjarstjórn.
Á fundi bæjarstjórnar þ.3. janúar s.l. var rætt um að breyta reglugerð “Rauðku” til samræmis við áðurgreint skilyrði Alþingis fyrir ábyrgð á byggingarláninu. Á fundinum var mættur formaður Rauðkustjórnar, Guðmundur Hannesson og mæltist hann til þess, eftir nokkrar umræður, að reglugerðinni yrði ekki breytt á þeim fundi, en stjórn “Rauðku” gefinn kostur á að ræða málið og gera um það tillögur.
Undir umræðunum um málið kom það skýrt fram, að allir bæjarfulltrúarnir voru óánægðir með það ákvæði reglugerðarinnar að fjármálaráðuneytinu væri heimilt hvenær sem því kynni að þykja ástæða til að skipa einn mann stjórn “Rauðku” meðan ríkissjóður er í ábyrgð fyrir verulegum fjárhæðum vegna Siglufjarðarkaupsataðar.
Þar sem svo stóð á, að þrír bæjarfulltrúar (einn úr hverjum flokki) voru þegar kominn til Reykjavikur, varð það að samkomulagi meðal allra bæjarfulltrúanna, að fela áðurnefndum bæjarfulltrúum, sem fóru til Reykjavikur, að ræða við ríkisstjórnina, hvort hún gæti ekki fallist á, að framangreind ákvæði yrði niðurfellt, og jafnframt var samkomulag um að fresta öllum breytingum á reglugerðinni, þar til vitað væri um afstöðu ríkisstjórnarinnar um þetta atriði, og að þær breytingar, sem kynnu að verða gerðar, gætu farið fram samtímis enda gæfist þá Rauðkustjórn, eins og formaðurinn óskaði eftir - tími til að koma fram með tillögur til bæjarstjórnar um breytingar á reglugerðinni.
Þann 13. janúar s.l. hélt Rauðkustjórnin fund, þar sem gerð er svohljóðandi tillaga til bæjarstjórnar:
“Fimm fyrstu málsgreinar 1. greinar reglugerðar um rekstur verksmiðjunnar “Rauðku” falli niður, en í stað þeirra komi svohljóðandi málsgrein:
Stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku skal skipuð fimm mönnum árlega, kosnum hlutfallakosningu af bæjarstjórn.
Svo flausturslega er þá frá þessari tillögu gengið, að láðst hefir að ákveða um kosningu á varamönnum.
Þann 17. janúar s.l. tók bæjarstjórn á fundi sínum fyrir þessa tillögu og samþykkti hana óbreytta. Á þeim sama fundi var svo kosin fimm manna stjórn í síldarverksmiðjuna “Rauðku” og fimm menn til vara, þó að þau ákvæði vantaði í reglugerðina að varamenn skuli kosnir.
Nú ber þess að gæta, að þó breyting hafi verið gerð af bæjarstjórninni á reglugerðinni, þá hefur hún ekki öðlast lagalegt gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af stjórnarráðinu.
Á fundinum bar forseta skylda til að upplýsa bæjarfulltrúana um þetta og fresta kosningu í stjórn “Rauðku.” þar til reglugerðin hafði öðlast gildi.
En úr því að forseta láðist að gera þetta, þá bar bæjarstjóra, sem ber ábyrgð á, að bæjarstjórn fari að lögum og settum reglum, að sjá um, að ekki yrði kosið nema á löglegan hátt. Hvorki forseti bæjarstjórnar né bæjarstjóri gættu þessa og fór kosningin fram ólöglega.
Svo virðist sem formaður Rauðkustjórnar, hafi fært þá röksemd fram fyrir því, að stjórnin yrði að kjósa strax, að umboð Rauðkustjórnar væri útrunnið 15. janúar, og af þeim ástæðum bæri að kjósa strax, því ella hefði fyrirtækið enga stjórn. -
Í þessari röksemd er þó ekkert hald, því auðvitað var hin gamla stjórn lögleg stjórn fyrirtækisins, þar til bæjarstjórn hefði kosið aðra og gildir hið sama um allar nefndir bæjarstjórnar.
Ef hinsvegar væri talið að nauðsyn væri til að kjósa Rauðkustjórn þá þegar, bar tvímælalaust skylda til að skipa hana samkvæmt reglugerð þeirri, sem þá var í gildi.
Fyrir því úrskurðast:
Þar sem kosning í stjórn síldarverkamiðjunnar “Rauðku” á bæjarstjórnarfundi þann 17. janúar, fór ekki fram samkvæmt þágildandi reglugerð, ber að kjósa á þessum fundi fimm aðalmenn og fimm til vara í stjórn síldarverksmiðjunnar “Rauðka” samkvæmt reglugerð um rekstur verksmiðjunnar, staðfestri af félagsmálaráðuneytinu dags 7, febrúar 1945.
Þormóður Eyjólfsson
(sign.)
forseti bæjarstjórnar.
Minnihlutinn í þessu máli áfrýjaði síðan málinu til félagsmálaráðuneytisins, og 6.þ.m. barst bæjarstjórn eftirfarandi skeyti:
“Bæjarfulltrúarnir Egill Stefánsson, Kristján Sigurðsson, Ólafur Guðmundsson og Axel Jóhannsson hafa óskað úrskurðar ráðuneytisins um nýja kosningu stjórnarnefndar síldarverksmiðjunnar “Rauðku.” Þangað til sá úrskurður er fallinn, gildir kosning sú á Rauðkustjórn, sem fram fór í janúar síðastliðnum. Ráðuneytið væntir greinargerðar bæjarstjórnar fyrir hinu nýju kosningu, sem kærendur telja ólöglega.”
Félagsmálaráðuneytið
Á fundi bæjarstjórnar s.l. mánudag var þetta mál til umræðu og lögðu þá bæjarfulltrúar sósíalista fram eftirfarandi tillögu:
Svohljóðandi tillaga ham frá Þ.G. og O.Jörgensen:
“Í tilefni af símskeyti Félagsmálaráðuneytisins dagsett 6. apríl s.l. lýsir bæjarstjórn Siglufjarðar því yfir hér með, að hún svipti fyrrverandi Rauðkustjórnarnefnd umboði sínu, er hún kaus nýju Rauðkustjórnarnefnd á fundi sínum 4. apríl s.l.
Þessar ráðstafanir voru gerðar með samþykki meirihluta atkvæða á löglegum fundi í bæjarstjórn Siglufjarðar og heyra á engan hátt undir úrskurð Félagsmálaráðuneytisins. Bæjarstjórnin sér því ekki fært, að verða við fyrirmælum Félagsmálaráðuneytisins um, að hin fráfarna Rauðkustjórnarnefnd skuli gegna störfum. Þetta tilkynnist hinu háa Félagsmálaráðuneyti hér með.”
Á þessum fundi var málinu frestað til föstudags. Hefur því bæjarstjórn það ennþá til umræðu og lætur Mjölnir því nægja að sinni að birta þessi plögg. |