Rauðkumálið
I.
Þegar Alþýðuflokkurinn og Kommúnistar stilltu upp sameiginlega til bæjarstjórnakosninga 1938 – Á listanum var eitt af stefnu skráratriðum þeirra að reka síldarverksmiðjuna „Rauðku" og stækka hana eða endurbæta strax og möguleikar yrðu til þess. Þeir Steindór Hjaltalín og Snorri Stefánsson höfðu haft verksmiðjuna á leigu nokkur undanfarin ár og rekstur hennar gengið all sæmilega.
Flestir okkar, sem tóku við störfum að afloknum kosningum 1938, höfðu litla reynslu í mörgum þessum málum, og sumir voru ekki alltof djarfhuga þegar á reyndi. Talað var um í bæjarstjórn að leigja þeim Snorra og Steindóri verksmiðjuna áfram. Til þess kom þó ekki, og að nokkru leyti vegna þess að þeir kröfðust það mikilla viðgerða á verksmiðjunni, að langan tíma hefði tekið að greiða þær af leigutekjunum.
Þá mun það hafa verið að til mála kom að selja þeim verksmiðjuna, og var þeim gert ákveðið tilboð í hana. Sem betur fór höfnuðu þeir því tilboði og kröfðust að fá stærri lóðarréttindi. Taldi a.m.k. Steindór Hjaltalín að möguleikar mundu vera fyrir því að bæjarstjórn gengi að þeim kröfum. Er jafnvel vafasamt að jafnglöggur fjármálamaður sem og Steindór Hjaltalín, hefði ekki strax gengið að tilboðinu, ef hann hefði ekki haft ástæðu til þess að halda að betra næðist.
Mér er sagt að Þóroddur Guðmundsson hafi haldið því fram að ég hafi verið þessu tilboði til Steindórs fylgjandi. Þetta eru tilhæfulaus ósannindi. Ég var þeim mjög andstæður og get sannað mótmæli mín gegn þeim ef við þarf. Ég vissi ekki fyrr en búið var að gera þetta tilboð, og vann þá einmitt hér syðra að útvegun lána til nauðsynlegrar viðgerða og reksturs fyrir bæjarins reikning það sumar. Mér tókst að fá þau lán, þó erfitt væri þá um lánsútveganir og verksmiðjan var rekin sumarið 1938.
Snorri Stefánsson var þegar ráðinn verksmiðjustjóri. Samkvæmt hans ráðum, sem ætíð hafa reynst hið besta, var horfið frá því að gera nokkuð verulega við verksmiðjuna, heldur aðeins þannig að hún gæti gengið skammlaust. Mér var það strax ljóst að engar líkur væru til þess að hægt yrði í framtíðinni að reka þessa mannfreku litlu verksmiðju í samkeppni við stórar nýtísku verksmiðjur. Má það reyndar kallast mesta furða að þessi verksmiðja skuli hafa verið rekin öll þessi ár með tiltölulega góðum árangri.
Rekstursafkoma var sæmileg og miklu betri en töluleg útkoma ber vott um, Þar sem ágóðinn var jafnan notaður til þess að undirbúa endurbyggingu verksmiðjunnar, og keyptar vélar og löndunartæki, byggt mjölgeymsluhús og fleira, sem nú er mörg hundruð þúsund króna virði. Þessi undirbúningsverk eru ábyggilega meira virði en margir vilja nú vera láta. Má í sem stystu máli segja að reksturinn hafi gengið gæfusamlega, enda var samstarf stjórnarinnar yfirleitt í besta lagi, sérstaklega eftir að pólitískur hiti, sem nokkuð bar á eftir kosningarnar 1938, smá kulnaði eftir því sem frá leið.
II. TILRAUNIN UM STÆKKUN ,,RAUÐKU" 1939
Eins og fyrr getur var verksmiðjustjóra, Snorra Stefánssyni, og okkur, sem í stjórninni voru, fullljóst að fjárhagslegur ávinningur að nokkru ráði, væri ekki fyrr hendi af rekstri verksmiðjunnar, nema hún fengist stækkuð og endurbætt að miklum mun.
Á þessum árum var ekki auðvelt að fá lánsfé, jafnvel þó um byggingu arðvænlegra fyrirtækja væri að ræða. Samþykkt hafði verið að Síldarverksmiðjur ríkisins skyldu byggja nýja verksmiðju á Raufarhöfn, en sú bygging hafði dregist um árabil vegna þess að lán fékkst ekki til framkvæmda. Mátti því segja, að ekki horfði vænlega um stækkun „Rauðku."
Um haustið 1938 benti kunningi minn mér á það, að e.t.v. væri möguleikar að fá vélar frá ákveðnu firma í Noregi gegn svokallaðri ,,exportkredit" ef bankaábyrgð fengist hér heima og nauðsynleg lán til bygginga, og gjaldeyrisleyfi síðar eftir því sem þurfa mundi. Verkfræðingur frá firmanu var hér á ferðinni um þetta leyti og ræddi ég nokkuð við hann þessa möguleika. Tók hann máli mínu vel og kvaðst mundi athuga þessi má1 er heim kæmi.
Nokkru síðan barst mér bréf frá þessum verkfræðingi, þar sem hann tilkynnir að firma hans sé reiðubúið að láta okkur í té nauðsynlegar vélar með þessum skilyrðum. Svavar bankastjóri á Akureyri, sem fór utan nokkru síðar tók að sér að ræða nánar skilyrði fyrir “exportkredit” þeirri, sem þurfti, og ganga frá nauðsynlegum undirbúningi við norska banka. Þegar Svavar kom heim skýrði hann frá að þessi atriði væru í lagi. Jafnframt barst okkur bréf frá Útvegsbankanum, undirritað af Svavari og Hafliða Helgasyni núverandi bankastjóra á Siglufirði, þar sem Siglufjarðarbæ er heitið nægilegum ábyrgðum og fjárhagslegum stuðningi til byggingar verksmiðjunnar.
Um þetta leyti var stofnað til „Þjóðstjórnarinnar" er svo var nefnd, en einu stjórnarandstæðingar voru Kommúnistar, er nú höfðu breytt um nafn og tekið upp það flokksheiti er þeir nú ganga undir. Stjórnarandstaða þeirra var hörð og allra bragða beitt til þess að ófrægja þáverandi ríkisstjórn. Áður en mér gafst tækifæri til þess að ræða þetta byggingarmál „Rauðku" við ríkisstjórnina og leita stuðnings hennar, birti blað þeirra í Reykjavík „Þjóðviljinn" gleiðletraða grein um þessa lánsmöguleika okkar og notaði tækifærið til þess að svívirða þáverandi fjármálaráðherra Eystein Jónsson, fyrir getuleysi hans að útvega lán til framkvæmda fyrir ríkissjóð. Það er enginn vafi á því að þessi skrif Kommúnista spilltu mjög fyrir framgangi málsins og ollu byrjunarerfiðleikum á samkomulagi við ríkisstjórnina um þetta nauðsynjamál Siglufjarðar.
Í þetta skipti mátu Kommúnistar þeir sem réðu þessum skrifum, meir ímyndaða flokkshagsmuni fram yfir hagsmuni Siglufjarðar að koma verksmiðjunni upp. Strax varð vart við ákveðna andstöðu, sérstaklega frá Framsóknarflokknum, en frá Siglufirði aðallega frá Þormóði Eyjólfssyni, sem þá virtist ráða lögum og lofum í Framsóknarfélagi Siglufjarðar. Fékk hann strax „Rauðku" á heilann, og hefur ekki losnað við þann sjúkdóm síðan. Ekki hefur honum þó tekist, sem betur fer, að ráða niðurlögum „Rauðku" en þessi sjúkdómur hefur nú þegar orðið honum að pólitískum aldurtila, og munu fáir gráta. Endalok þessa máls urðu þau eins og allir vita að andstæðingum „Rauðku" tókst að sigra. Verksmiðjan fékkst ekki byggð, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir nær allra útgerðarmanna og fullan stuðning ýmissa góðra manna.
Tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu af sér í mótmælaskyni, þar sem þeir töldu að forráðamenn flokksins í Reykjavík hefðu ekki efnt þau loforð er þeir töldu þá hafa gefið. Enginn mundi svo fávís nú að neita því fjárhagslega tjóni,sem Siglufjarðarkaupstaður og landið í heild hefur beðið við þetta. Siglfirðingar geta að mestu skrifað þetta á skuldareikning Þormóðs Eyjólfssonar. Er þó sá reikningur ærið ófrýnn fyrir.
Ekki hryllti Þormóð Eyjólfsson, sem þá var formaður stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, við því að senda framkvæmdarstjóra þeirra, ásamt einum bankastjóra Útvegsbankans til Noregs, til þess að notfæra fyrir Ríkisverksmiðjurnar þá möguleika, sem Rauðka hafði til endurbyggingar fyrir verksmiðjuna á Raufarhöfn, enda þótt honum hefði aldrei hugkvæmst þessi leið til framkvæmda. Jón Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdarstjóri, hefur verið svo hreinlyndur að skýra frá því í einni af ársskýrslum sínum, að einmitt “Rauðkumálið” hafi orðið til þess að Raufarhafnarverksmiðjan var byggð. Skömm Þormóðs er hin sama, og aðferð hans minnir óþægilega á söguna um ríka manninn, sem tók eina lamb fátæka mannsins til slátrunar í veislu sína.
III.
STÆKKUN “RAUÐKU” 1944 - 1945
Rekstur „Rauðku" hélt áfram, um annað var ekki að gera. Forráðamenn hennar slepptu þó aldrei hugmyndinni um stækkun hennar. Verksmiðjustjóri, Snorri Stefánsson var vakinn og sofinn yfir þeim möguleikum sem t1 mála gætu komið. Alistinn beið ósigur 1942, en verksmiðjustjórnin var þó óbreytt um skeið. Seint á árinu 1943 hreyfði verksmiðjustjóri þeirri hugmynd að möguleikar mundu vera á stækkun með því að láta smíða meginhluta allra véla hér heima.
Hafði hann að vísu bent á það áður, en ýmislegt varð þess valdandi að ekki var verulega athugað um þetta fyrr. Verksmiðjan var mjög úr sér gengin og varla um annað að ræða en að endurbyggja hana eða stækka. Þegar rætt var nokkuð nánar um þessi mál kom í ljós að Framsóknarflokkurinn og Kommúnistar kröfðust þess að fá menn í stjórnina, en þar voru aðeins þrír fyrir, en frá hvorugum þessum flokki. Var það raunar ekki óeðlilegt, þar sem stækkunarmöguleikar virtust fyrir hendi. Ekki var þó beðið eftir því að kjörtímabil þáverandi Rauðkustjórnar rynni út, heldur bætt við 2 mönnum fyrir áramót. Þeim Guðmundi Hannessyni, bæjarfógeta af hálfu Framsóknarflokksins og Gunnari Jóhannssyni frá Kommúnistum.
Eftir því sem bæjarstjóri hefur tjáð mér var það ákveðið af 15 manna ráðinu að bæjarfógeti skyldi fara í stjórnina, og aðallega settur þangað til höfuðs mér. Það kom líka fljótt í ljós að meiningin var að beita mig pólitískum bellibrögðum, sem þó ekki tókst. Hinsvegar bauð ég bæjarstjóra, en milli hans og mín (og okkar allra 3ja sem í gömlu stjórninni voru) var hin besta samvinna, að gera tilraun til þess að útvega bænum lán til þess að greiða upp kreppulánasjóðslán sem á verksmiðjunni hvíldu, og sem hafði hindrað endurbyggingu hennar. Þetta tókst og var lánið greitt að fullu.
Eftir áramót eða um áramót skiptu Sjálfstæðismenn um mann í stjórninni, kusu Schiöth í stað Hertervigs. (Bæjarstjóri hefur getið þess að þessi mannaskipti hafi verið hegning 15 manna ráðsins fyrir það, að hann hafði 2 undanfarin ár endurkosið mig fyrir formann stjórnarinnar). Schiöth var fyrst kosin formaður, en sagði af sér eftir skamma hríð, vegna þess að hann fékk ekki samþykki fyrir því að fógetinn færi með honum til Reykjavíkur.
Bæjarfógetinn var síðan kosinn formaður og fór til Reykjavíkur skömmu síðar ásamt bæjarstjóra og verksmiðjustjóra til undirbúnings lántöku og samningagerðar um smíði vélanna. Skal að sinni fljótt yfir sögu farið, en síðar verður það mál e.t.v. rakið nánar, ef sérstakt tækifæri gefst til. Það kom þó fljótlega í ljós að bæjarfógeti var ákveðinn í því að reyna að koma verksmiðjunni upp, enda naut hann til þess óskoraðs fylgi annarra stjórnarmeðlima og verksmiðjustjóra.
Nokkur ágreiningur varð aðallega milli mín og bæjarfógeta um nokkur atriði, en ákveðið var af stjórninni yfirleitt, að vinna einhuga að byggingu verksmiðjunnar og leggja deiluatriði til hliðar að sinni. Aðalfjandmaður verksmiðjubyggingarinnar, Þormóður Eyjólfsson, virtist í fyrstu allánægður með skipan bæjarfógeta. Ekki veit ég hvað valdið hefur vinslitum þeirra, en vitað er að Þormóður hefur lagt fæð og allt að því hatur á þá menn sem viljað hafa endurbyggja „Rauðku." Það er a.m.k. víst að strax er fullvíst var um að Rauðka yrði endurbyggð kólnaði vináttan, uns varð að fullum fjandskap. Þormóður hafði þó þegar orðið undir í viðureigninni um endurbyggingu „Rauðku." Hann getur ekki héðan af komið í veg fyrir hana.
Hinn góði málstaður hefur þegar sigrað í því máli. Eftir var þá aðeins það næstbesta, að áliti Þormóðs, en það var að vekja sem hatrammastar deilur um fyrirtækið, og ef unnt væri koma því úr höndum bæjarfélagsins og þá helst til Síldarverksmiðja ríkisins. Virðist honum hafa borist óvæntur liðstyrkur í þeim málum, og það frá þeim er síst mátti vænta.
IV.
DEILURNAR UM STJÓRN ,,RAUÐKU"
Í reglugerð, sem samin var um stjórn „Rauðku" var ákveðið að fulltrúar í stjórn hennar skyldu tilnefndir af fulltrúaráðum flokkanna, en ekki kosnir af bæjarstjórn. Ég var ekki heima þegar þetta ákvæði var sett, en tel það óheppilegt og enda vafasamt hvort lögum samkvæmt, þar sem allstaðar í bæjarstjórnarlögum er gert ráð fyrir hlutfallskosningum, þannig að styrkur kosinna bæjarfulltrúa ráði úrslitum. En vel gat farið svo að samkvæmt þessu ákvæði yrði það ekki, ef flokksskipan hefði breyst. Ég hefi því allaf verið andvígur þessu ákvæði og ekki farið dult með það.
Alþingi setti sem skilyrði fyrir ríkisábyrgð að þessu yrði breytt, og gaf það útaf fyrir sig óverðskuldað tækifæri til deilna um þetta nauðsynjamál Siglfirðinga. Á fundi 17. janúar var kosið í verksmiðjustjórn, eftir að fallist hafði verið á þetta skilyrði Alþingis og breyting gerð á reglugerð. Var þetta gert með samþykki allra 9 bæjarfulltrúa, sem á fundinum voru. Hin pólitísku hlutföll í bæjarstjórninni voru óröskuð, enda mættu varafulltrúar frá sama pólitíska flokki, svo sem tilskilið er í sveitastjórnarlögum. Nokkrir bæjarfulltrúar voru fjarverandi þar á meðal ég.
En það var bæði pólitísk og siðferðisleg skylda þeirra, jafnvel þó þeir teldu sig hafa orðið undir, að efna til óþarfa deilna um þetta hagsmunamál bæjarins. Enda er enginn vafi á því að kosningin 17. janúar er fyllilega lögmæt. Engar athugasemdir eru gerðar við þessa kosningu fyrr en eftir hartnær þrjá mánuði eða 4. apríl, þegar hinn frægi endemisfundur er haldinn í bæjarstjórn, undir forsæti Þormóðs gervifulltrúa Framsóknarflokksins.
Það kemur þá í ljós, að “þríveldabandalag” er myndað milli Þormóðs, bæjarstjóra og Þóroddar, að vekja hatrammar deilur um skipan “Rauðkustjórnar” og efna þannig til deilumáls, sem þegar er orðið bæjarfélaginu til stórtjóns og öllum sem að því standa til athlægis. Þormóður tók kosninguna fyrir, enda þótt hún væri ekki á dagskrá, hvað upp úrskurð sem þegar er frægur að endemum um land allt. Ekki var þeim félögum þó nóg að halda þessum deilum innan takmarka Siglufjarðar, heldur var Sveinn Benediktsson jafnóóum látinn rita um málið í Morgunblaðið, til þess að auglýsa missættina á Siglufirði og ábyrgðarleysi bæjarstjórnar í framkvæmdarmáli, sem nemur miljónum króna. Þessum úrskurði van áfrýjað.
Allan aðgerðir „þríveldabandalagsins" voru dæmdar markleysa og vitleysa. En menn sem aldrei vita hvenær þeir eru sigraðir og aldrei skirrast við að halda vitleysunni áfram, enda þótt hún skaði bæjarfélag þeirra eða þjóðarhagsmuni, ef svo ber undir, gefast ekki upp. Þeir fóru af stað á nýjan leik, en nú sviptu þeir alla „Rauðkustjórn" umboði, en kusu svo sömu mennina aftur nema bæjarfógetann. Auðvitað spyrja allir ókunnugir hverskonar vitleysa sé á ferð inni? Hvaða hell brú er í því að svipta menn umboði (fyrir vanrækslu eða vitavert athæfi, því varla getur það verið gert á öðrum á forsemdum) en kjósa þá síðan að nýju. Hvað á svona skrípaleikur að þýða?
Ef þeir hafa sakir á einn mann, því þá ekki að svipta hann umboði og kjósa mann í hans stað? Það lítur helst út fyrir að sumir menn hafi beinlínis ánægju af því að láta á sér bera, hvort sem það er til skammar eða heiðurs.
Ekki verður hjá því komist að minnast á, einn frægasta úrskurð Þormóðs að endemum. Framsóknarflokkurinn rak hann og krafðist að hann viki úr bæjarstjórn. Flestir menn með snefil af sómatilfinningu hefðu látið ógert að kveða upp úrskurð í sjálf sín sök, en Þormóður var nú ekki á því. Hann úrskurðaði sjálfan sig kyrran, og situr nú i bæjarstjórn á eigin einuatkvæði.
Í þessum úrskurði uppgötvaði hann þann vísdóm, að það væri ekki skilyrði fyrir kjörgengi til bæjarstjórnar að vera í Framsóknarflokknum!! Það er ekki að furða þó að maður með slíku hugarfari hafi hingað til talið sig sjálfkjörinn í bæjarstjórn. Mogginn, sem ekki er nú alltaf talinn stiga í vitið, að því er málsnilld og hugkvæmni snertir, birti þessa setningu, sem stóra fyrirsögn, fyrir úrskurði Þormóðs. Almennt er svo litið á, að hann hafi verið með þessu að gera grín að Þormóði, en þó er það ekki vist, því að hvað elskar sérlíkt.
ÁBYRGÐARLEYSI MEIRIHLUTANS
Hvað sem segja má um þessar deilur, þá er þó víst, að þær sýna dæmafátt ábyrgðarleysi þeirra sem að þeim standa um hagsmuni bæjarfélagsins. Hér er um að ræða deilur um stjórn miljónafyrirtækis sem bærinn auk þess hefur fengið ábyrgð ríkisins til þess að koma á laggirnar. Lánsstofnanir hafa lánað fé í þetta. Samt er eins og þessir menn haldi að enginn veiti þessu eftirtekt. Þeir halda að þeir geti leikið sér með þetta fjöregg bæjarins, eins og meinlausar tillögur um lengingu götuspotta eða byggingu fjárhúskofa eða annað slíkt.
Dæmalausast er þó ábyrgðar leysi bæjarstjórans, sem hefur dvalið langdvölum í Reykjavík við útvegum lánsfjár, og veit það, að andstæðingar Siglfirðinga nota hvert tækifæri, sem þeir geta til þess að óvirða þá og telja öðrum landsmönnum trú um, að þeir kunni ekki fótum sínum forráð í fjármálum eða stjórn fyrirtækja. Svo þegar bæjarstjórinn veit þetta þá stofnar hann til ábyrgðarlausra deilna um annað stærsta fyrirtækið sem Siglufjörður hefur nú með höndum. Gerir hann þetta til þess að gefa andstæðingum Siglufjarðar byr undir báða vængi? Eða hefur hann látið Þormóð Eyjólfsson fleka sig til deilna um þetta mál, sem hann veit þó að Þormóður vill allt illt og ekkert gott?
Bæjarstjóri skyldi minnast þess, að þó hann geti kannski skipt um meirihluta í bæjarstjórn Siglufjarðar, þá ber honum þó alltaf skylda til þess eftir megni að lægja deilur en ekki vekja þær, um hagsmunamál bæjarins. Þessu virðist hann hafa gleymt í bili. Annar fulltrúi kommúnista hefur skýrt afstöðu þeirra og snúning sinn. Hann hefur skýrt frá því, að þeir hafi tekið þessa afstöðu til þess að kljúfa Framsóknarflokkinn, og ætli sér síðan að fiska í gruggugu vatni.
Með öðrum orðum, ekkert hagsmunamál er þeim svo mikils virði, að þeir vilji ekki fórna því, ef þeir telja flokkshagsmunum borgið. Hagsmunamálum bæjarfélagsins eða þjóðarheildarinnar má fórna, ef flokkurinn græðir eitt eða tvö atkvæði. Hvernig geta svona menn búist við trausti fólksins? Hvenær er hægt að treysta þeim? Aldrei. Sjálfir hafa þeir kveðið upp sinn eigin dóm.
AFSTAÐA ALÞÝÐUFLOKKSINS
Alþýðuflokkurinn hefur frá byrjun stutt endurbyggingu „Rauðku" af fremsta megni. Hann hefur forðast eftir fremsta megni að vekja deilur um málið. Hann hefur heldur kosið að þegja um sinn, en vekja deilur um ýmis atriði, sem hefðu getað orðið honum til pólitísks ávinnings og andstæðingunum til tjóns, ef hann hefur talið það mundu skapa óþarfa deilur um fyrirtækið og valda því tjóni. Vel má vera að þetta sé ekki hyggilegt pólitískt, en Alþýðuflokkurinn telur að honum beri að taka tillit til hagsmuna bæjarheildarinnar, líka þeirra, sem ekki hafa fylgt honum að máli pólitískt.
Alþýðuflokkurinn telur það meira virði og vænlegra til árangurs, að koma fram með fullri ábyrgð, heldur en gaspra í tíma og. ótíma um óvirðingar andstæðinganna, eða vekja óþarfa opinberar deilur um hagsmunamál bæjarins, eða þjóðarheildarinnar, ef svo ber undir. Hann hefur látið deilumál Þormóðs og bæjarfógetans afskiptalaust og í þessu máli fylgt því einu, sem löglega hefur verið gert og í sem mestri einingu og áhuga fyrir framgangi endurbyggingar síldarverksmiðjunnar Rauðku. Kommúnistar hafa kallað bæjarfulltrúa Alþýðuflokksins “Þjóna bæjarfógetans.”
Hvers þjónar eru þeir þá, þjónar Þormóðs? Eða þess, sem Þóroddur vildi gera bandalag við? Þeir svara því. Hitt er fullvíst að fulltrúar Alþýðuflokksins eru einskis þjónar í þessu máli, nema þeirra sem kusu þá til a6 starfa í bæjarstjórn að hagsmunamálum bæjarins. Þeirri þjónustu hafa Þeir reynt að gegna í þessu máli, og Kommúnistar geta verið vissir um það, að þeir hafa jafnframt gegnt þjónustu megin þorra allra bæjarbúa, sem hafa andstyggð á brölti Þormóðs og hinu óskiljanlega undarlega fylgi Þóroddar við þann málstaó, sem ávalt hefur verið verstur í garð „Rauðku."
Fjórmenningarnir í bæjarstjórn lögðu fram tillögu um að vísa þessum ágreiningi til dómstólanna. Undir forsæti Þormóðs var tillaga þessi slitin í sundur við atkvæðagreiðslu svo að hún er hreinasta skrípi á eftir. Þormóður er laginn á það að verða sér til skammar, og virðist ekki lengur geta borið upp tillögu til samþykktar eða synjunar svo í lagi sé. Afskipti hans af “Rauðkumálinu” hafa öll stefnt að því að vinna bænum sem mest til miska. Enn virðist stefna í sömu átt.
Bót er þó í máli að því meiri afskipti sem hann hefur af því þeim mun meir verður hann sér til athlægis og það svo mjög að Spegillinn getur ekki látið það fram hjá sér fara. Ég hefi rætt gang Rauðkumálanna frá byrjun, þó að vitanlega sé ekki hægt að gera öllu málinu full skil í stuttri grein. Heildaryfirlit fæst þó, og má sjá hverjir hafa af heilum hug fylgt þessu máli fram að bestu getu.
Hagsmunamál bæjarins fást ekki framkvæmd með gaspri og látalátum, og heldur ekki með offorsi og oflátungshætti. Að þeim þarf að vinna með festu og djörfung en þó lipurð. Þeir sem á oddinum standa, verða að gera greinarmun á stórmáli og smámáli. Þeir verða að láta sér skiljast að landsmenn fylgjast með aðgerðum Siglfirðinga og ekki síst í stórmáli, sem byggingu heillar síldarverksmiðju af fullkomnustu gerð. Slíkar framkvæmdir eru engin flysjungsmál.
Bæjarbúar eiga heimtingu á því að um þau sé fjallað á siðaðra manna hátt og á lýðræðislegum grundvelli. Persónulegar deilur einstaklinga mega ekki blandast inn í framfaramál bæjarins. Með þetta í huga skyldu sem flestir starfa að framtíðarmálum Siglufjarðar. Mætti þá svo fara að komist yrði hjá því í framtíðinni, að verða landslýðnum til skemmtunar með fávíslegum úrskurðum og deilum um mestu og viðkvæmustu hagsmunamál bæjarfélagsins.
Erlendur Þorsteinsson
|