Nýtt Rauðkuhneyksli
Þormóður Eyólfsson og Þóroddar Guðmundsson fallast í faðma, sameinast um að stofna hinni nýju “Rauðku” í voða.
Í stjórnartíð núverandi bæjarstjóra, Ó. Hertervig hafa flestir bæjarstjórnarfundir verið haldnir í bæjarþingsalnum, þó vitað sé að þar er ekki rúm fyrir nema sárfáa áheyrendur, og því ógjörningur fyrir almenning að sækja bæjar stjórnarfundi og fylgjast með orðum og gerðum bæjarfulltrúanna, sem þó væru fullnauðsyn fyrir Siglfirskra kjósendur, ekki síst þegar þeirra stærstu áhugamál eru rædd og afgreidd.
Margir bæjarbúar hefðu gjarnan viljað sitja bæjarstjórnarfundinn, sem haldinn var 4. apríl s.l. ef forráðamenn bæjarstjórnar, bæjarstjóri og forseti, hefðu þorað að auglýsa fundinn með fullri dagskrá, og húsrúm hefði leyft fundarsetu.
Eitt af stærstu áhugamálum mikils meirihluta Siglfirðinga að undanförnu, hefur verið uppbygging “Rauðku.” Flestum mun í minni forsaga þess máls og einnig hvernig Þormóður Eyólfsson notaði þá aðstöðu sem hann hefði þá, til að bregða fæti fyrir það áhuga og nauðsynjamál bæjarins.
Verður seint í tölum talið það fjárhagstjón sem bænum var unnið með því að leyfa honum ekki að byggja “Rauðku” upp fyrir stríð, þegar tekin er til athugunar afkoma slíkra fyrirtækja á undanförnum árum.
Síðar, en þó seinna en skildi, sameinuðust þau öfl betur, sem vinna vildu að byggingu nýrrar nýtísku “Rauðku,” með þeim afleiðingum að nú er hún í smíðum og á að verða tilbúin til starfs á sumri komanda.
En nú er hafin nýr þáttur eða ný herferð í þessum málum. Þormóður Eyólfsson er enn kominn af stað til að skaða framtíð “Rauðku,” og hefur nú fengið mikinn liðsauka, svo sem Þórodd Guðmundsson, bæjarstjóra, Ó. Hertervig og fleiri. Nú eru Herodes og Pílatus orðnir vinir.
Samkvæmt fundarsköpum bæjar stjórnar, og reglugjörð um rekstur “Rauðku,” á að kjósa Rauðkustjórn og fastar nefndir bæjarstjórnar í janúar og febrúar, en eins og margt annað í stjórnartíð núverandi bæjarstjóra, hefur verið trassað að kjósa fastanefndir, Þar til nú 4. apríl.
En 15 janúar s.l. var kjörtímabil Rauðkustjórnar úti, en um það leyti þurfti Rauðkustjórn að inna af höndum ýmis mikilvæg stjórnarstörf, svo sem stórar lántökur og fl. Bæjarstjórn var þá öll sammála um, að nauðsynlegt og löglegt væri að kjósa þá þegar stjórn “Rauðku,” svo að óvéfengjanlegt væri umboð stjórnarinnar við lántökurnar. Stjórnin var kosin í sátt og samlyndi, og fengu sæti í henni sömu menn og voru þar áður, og sýndist mörgum það vel farið og það sýndi fullan vilja og eining um uppbyggingu “Rauðku” Slíkt þótti einnig sterkt útá við.
Sumir aðalbæjarfulltrúarnir voru ekki heima um þessar mundir og mættu þá varamenn eins og venja er til.
Þann 4. apríl er svo boðaður fundur, og dagskráin á fundarboðinu er kosning forseta og fastra nefnda o.fl.
Lesendum blaðsins til gamans og skemmtunar verða hér birtir úrdrættir af gjörðum fundarins:
Ár 1945 miðvikudaginn 4. apríl hélt bæjarstjórn Siglufjarðar 719. fund sinn í bæjarþingsalnum kl. 4,30 s.d.
1. Kosning forseta og fastra nefnda bæjarstjórnar.
Kristján Sigurðsson gerði fyrirspurn um það til forseta hvort ekki þyrfti afbrygði frá fundarsköpum með að kjósa nefndir, þar eð þær hafi átt að kjósa í febrúar s.l.
Forseti svaraði fyrirspurninni á þá leið að 4 bæjarfulltrúar hafi verið fjarverandi í erindum bæjarins einkum þó bæjarstjóri frá því í janúarbyrjun og þar til í marslok, og þess vegna hafi dregist að kjósa í nefndir þar til allir bæjarfulltrúar hafi verið mættir, þeir sem hægt var að búast við að mættu, en það hafi ekki verið fyrr en nú. Fyrir því úrskurðaðist: Fundurinn er löglega boðaður og skal því kjósa forseta og nefndir samkvæmt dagskrá hans án afbrigða frá fundarsköpum.
Úrskurður forseta samþykktur með 5 atkvæðum gegn 4.
Kosning forseta.
Forseti var kosinn Þormóður Eyjólfsson með 4 atkvæðum, eftir þriðju atkvæðagreiðslu.
1. varaforseti var kosinn Egill Stefánsson með 5 atkvæðum.
2. varaforseti var kosinn Erlendur Þorsteinsson með 4 atkvæðum, við þriðju kosningu.
Kommúnistar sátu hjá við kosninguna, eins og á Þingvöllum 17. júní. Þeir geta og mega því þakka sér það, að Þormóður Eyjólfsson er nú forseti bæjarstjórnar.
Næst fóru fram kosningar í nefndir, en að því loknu lýsti forseti því yfir að fram færi kosning í stjórn “Rauðku,” þó var ekkert um það getið í fundarboðinu.
Egill Stefánsson og fleiri mótmæltu því að kosning færi fram, þar sem “Rauðka” hefði löglega stjórn, sem kosin var í janúar í vetur og fluttu þeir Kristján Sigurðsson, Ólafur H. Guðmundsson, Egill Stefánsson og Axel Jóhannsson tillögur um að skjóta málinu til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins, en forseti Þ.E. fékkst ekki til að taka þá tillögu til greina.
Þá var tekið fundarhlé, en kl. 8,30 hófst fundur aftur. Mætti þá Ottó Jörgensen í staðinn fyrir Gunnar Jóhannsson, og hefur Þóroddur upplýst síðan að Sósíalistaflokkurinn hafi samþykkt að Gunnar mæti ekki á bæjarstjórnarfundum í þessum málum.
Sömuleiðis sat fundinn Ragnar Guðjónsson, en í umboði hvaða flokks hann sat er ekki upplýst, sennilega þó einskis flokks, heldur aðeins í umboði Þormóðs og Þóroddar.
Gunnar Jóhannsson og Jóhann Þorvaldsson voru látnir sitja heima, sennilega af því að þeir munu mótfallnir þessum bolabrögðum gagnvart “Rauðku,” en dindilmenni Þormóðs og Þoroddar, eins og Jörgensen og Ragnar látnir mæta, til að tryggja illum málstað sigur.
Eins og sést á úrskurð forseta um dráttinn á kosningum nefnda, þá er höfuðþáttur raka hans sá, að ýmsir aðalbæjarfulltrúar hafi ekki verið heima í febrúar og mars og að þeim ástæðum ekki hægt að kjósa í fastar nefndir fyrr.
En á sama fundi, sem hann gefur þann úrskurð, eru aðalfulltrúar látnir sitja heima, en menn eins og Ragnar og Jörgensen, sem í sárafáum tilfellum sitja bæjarstjórnarfundi, látnir mæta, og kjósa sjálfa sig í ólöglega Rauðkustjórn, aðeins til þess að fullgjöra pólitískar skuggamyndir Þóroddar og Þormóðs og bæjarstjóra, ásamt því að krækja í fjárhagslegan bita handa sjálfum sér.
Úrdráttur úr fundargjörð er svo hljóðandi:
Forseti lýsti þá yfir að fram færi kosning í stjórn “Rauðku”, Egill Stefánsson mótmælti því að kosning færi fram í stjórn “Rauðku” þar eð hann telur kosningu í stjórn “Rauðku” hafa farið löglega fram 17. janúar s.l.
Svohljóðandi tillaga kom frá Kristjáni Sigurðssyni, Ó. H. G. E. Stef. A. Jóh.
“Bæjarstjórn samþykkir að skjóta til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins, hvort kosning í stjórn síldarverksmiðjunnar “Rauðku,” sem fram fór 17. og 27. janúar síðast liðinn, sé lögleg.”
Forseti telur það óformlegt að bera tillögu þessa fram til atkvæða áður en bæjarstjórnin sjálf hefur tekið afstöðu til málsins og vísar því tillögu þessari frá.
Þá kvað forseti upp svohljóðandi úrskurð:
Þann 6. júlí 1944 var staðfest af félagsmálaráðuneytinu, reglu gerð um rekstur síldarverksmiðjunnar “Rauðku,” eign Siglufjarðarkaupstaðar, en í þeirri reglugerð er svo kveðið á í 1. grein að stjórn verksmiðjunnar sé skipuð fimm mönnum árlega tilnefndum af fulltrúaráði hvers flokks er tilnefni einn mann og annan til vara.
Þegar ríkisábyrgð fyrir byggingarláni til “Rauðku” var samþykkt á alþingi - haustþinginu 1944 - var það gert að skilyrði fyrir ábyrgðinni að stjórn síldarverksmiðjurnar “Rauðku” skuli kosin hlutfallskosningu af bæjarstjórn.
Á fundi bæjarstjórnar þann 3. janúar s.l. var rætt um að breyta reglugerð “Rauðku” til samræmis við áðurgreint skilyrði Alþingis fyrir ábyrgð á byggingarláninu. - Á fundinum var mættur formaður Rauðkustjórnar, Guðmundur Hannesson og mæltist hann til þess, eftir nokkrar umræður, að reglugerðinni yrði ekki breytt á þeim fundi, en stjórn “Rauðku” gefinn kostur á að ræða málið og gera um það tillögur.
Undir umræðunum um málið kom það skýrt fram, að allir bæjarfulltrúarnir voru óánægðir með það ákvæði reglugerðarinnar að fjármálaráðuneytinu væri heimilt hvenær sem því kynni að þykja ástæða til að skipa einn mann í stjórn “Rauðku,” meðan ríkissjóður er í ábyrgð fyrir verulegum fjárhæðum vegna Siglufjarðarkaupstaðar.
Þar sem svo stóð á, að þrír bæjarfulltrúar, einn úr hverjum flokki, voru þegar kominn til Reykjavík, varð það að samkomulagi meðal allra bæjarfulltrúanna, að fela áðurnefndum bæjarfulltrúum, sem fóru til Reykjavíkur, að ræða við ríkisstjórnina, hvort hún gæti ekki fallist á, að framangreind ákvæði yrði niðurfellt, og jafnframt var samkomulag um að fresta öllum breytingum á reglugerðinni, þar til vitað væri uni afstöðu ríkisstjórnarinnar um þetta atriði, og að þær breytingar, sem kynnu að verða gerðar, gætu farið fram samtímis enda gæfist þá Rauðkustjórn eins og formaðurinn óskaði eftir - tími til að koma fram með tillögur til bæjarstjórnar um breytingar á reglugerðinni.
Þann 13. jan. s.1. hélt Rauðkustjórnin fund, þar sem gerð er svohljóðandi tillaga til bæjarstjórnar:
”Fimm fyrstu málsgreinar 1. greinar reglugerðar um rekstur verksmiðjunnar “Rauðku” falli niður, en í stað þeirra komi svohljóðandi málsgrein:
Stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku skal skipuð fimm mönnum árlega kosnum hlutfallskosningu, af bæjarstjórn."
Svo flausturslega er þó frá þessari tillögu gengið, að láðst hefir að ákveða um kosningu á varamönnum.
Þ.17. janúar s.l. tók bæjarstjórn á fundi sínum fyrir þessa tillögu og samþykkti bana óbreytta. Á þeim sama fundi var svo kosin fimm manna stjórn í síldarverksmiðjuna “Rauðku” og fimm menn til vara, þó að þau ákvæði vantaði í reglugerðina að varamenn skuli kosnir.
Nú ber þess að gæta, að þó breyting hafi verið gerð af bæjarstjórninni á reglugerðinni, þá hefur hún ekki öðlast lagalegt gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af stjórnarráðinu.
Á fundinum bar forseta skylda til að upplýsa bæjarfulltrúana um þetta og fresta kosningu í stjórn “Rauðku,” þar til reglugerðin hafði öðlast gildi. En úr því að forseta láðist að gera þetta, þá bar bæjarstjóra, sem ber ábyrgð á, að bæjarstjórn fari að lögum og settum reglum, að sjá um, að ekki yrði kosið nema á löglegan hátt.
Hvorki forseti bæjarstjórnar né bæjarstjóra gættu þessa og fór kosningin fram ólöglega.
Svo virðist sem formaður Rauðkustjórnar, hafi fært þá röksemd fram fyrir því, að stjórnin yrði að kjósa strax, að umboð Rauðkustjórnar væri útrunnið 15. jan, og af þeim ástæðum bæri að kjósa strax því ella hefði fyrirtækið enga stjórn. - Í þessari röksemd er þó ekkert hald, því auðvitað var hin gamla stjórn lögleg stjórn fyrirtækisins, Þar til bæjarstjórn hefði kosið aðra og gildir hið sama um allar nefndir bæjarstjórnar.
Ef hinsvegar væri talið, að nauðsyn væri til að kjósa Rauðkustjórn þá þegar, bar tvímælalaust skylda til að skipa hana samkvæmt reglugerð þeirri, sem þá var i gildi.
Fyrir því úrskurðast:
Þar sem kosning í stjórn síldarverksmiðjunnar “Rauðku” á bæjarstjórnarfundi þann 17, janúar fór ekki fram samkvæmt þágildandi reglugerð, ber að kjósa á þessum fundi fimm aðalmenn og fimm til vara í stjórn síldarverksmiðjunnar “Rauðku” samkvæmt reglugerð um rekstur verksmiðjunnar, staðfestri af félagsmálaráðuneytinu dags 7. febrúar 1945.
Þormóður Eyjólfsson (sign.) forseti bæjarstjórnar
Þeir Egill Stefánsson, Axel Jóhannsson, Ólafur Guðmundsson og Kristján Sigurðsson óska bókað :
“Við undirritaðir höfum áður en úrskurður forseta um að neita að leita afbrigða frá fundarsköpum um fyrirtekt á kosningu í nefndir og Rauðkustjórn féll, mótmælt fyrirtekt forseta afbrigðalaust uni að kjósa nefndir og Rauðkustjórn. Við mótmælum gengnum úrskurði og teljum hann ólöglegan.
Í öðru lagi, af því að lögmæti eða ólögmæti kosningar stjórnar “Rauðku" er lögskýring á reglugerðum stjórnarráðsins um kosningu í Rauðkustjórn sem forseti á engan úrskurðarrétt á.
Í þriðja lagi af því, að sjálf fyrirtekt á kosningu í stjórn “Rauðku” þyrfti afbrigða frá fundarsköpum bæjarstjórnar, þótt kosning í Rauðkustjórn hefði verið lögleg að öðru leyti. Vér áfrýjum því hér með úrskurði forseta til félagsmálaráð herra og skorum á forseta og aðra í bæjarstjórn að flytja fast fram að ráðherra felli úr skurð sinn sem fyrst.
Ef ekki fæst úrskurður stjórnarráðsins skorum við á bæjarstjórn að höfða mál gegn Rauðkustjórn til viðurkenningar að úrskurður forseta sé réttur."
Kosning fór þá fram í Rauðkustjórn:
A - listi.
Gunnar Jóhannsson Ragnar Guðjónsson Ottó Jörgensen
B - listi.
Aage Schiöth
Sveinn Þorsteinsson
Fleiri bárust ekki, því sjálfkjörnir.
Ó. Guðmundsson og Kristján Sigurðsson óska bókað að þeir
taki ekki þátt í atkvæðagreiðslunni vegna sinna fyrri bókunar. Varamenn í stjórn “Rauðku.”
A - listi.
Kristmar Ólafsson Skafti Stefánsson Óskar Garibaldarson
B - listi
Egill Stefánsson Axel Jóhannsson
Fleiri bárust ekki, því sjálfkjörnir.
Axel Jóhannsson óskar bókað, að hann hafi ekki tekið þátt í uppstillingu á lista eða kosningu í Rauðkustjórn 4. apríl 1945.
Að loknum fundi kærðu þeir: Egill, Kristján, Ólafur og Axel kosninguna til félagsmálaráðuneytisins og óskuðu úrskurðar þess þar um.
Svar ráðuneytis barst 6. apríl og er svohljóðandi:
“Bæjarfulltrúarnir Egill Stefánsson, Kristján Sigurðsson, Ólafur Guðmundsson og Axel Jóhannsson hafa óskað úrskurðar ráðuneytisins um nýja kosningu stjórnarnefndar síldarverksmiðjunnar “Rauðku”. Þangað til sá úrskurður er fallinn, gildir kosning sú á Rauðkustjórn, sem fram fór í janúar síðastliðnum. Ráðuneytið væntir greinargerðar bæjarstjórnar fyrir hinni nýju kosningu, sem kærendur telja ólöglega.”
Félagsmálaráðuneytið
Þann 9. apríl var svo fundur haldinn um málið. Bæjarstjóri og Þóroddur héldu því fram, að þeir finndu það hvergi í lögum að mál þetta heyrði undir ráðuneytið, en lögfræðileg þekking þeirra var ýtarlega véfengd.
Fjórmenningarnir fluttu tillögu um að fresta fundi, en hún fékkst ekki borin upp. Kommúnistarnir, Þóroddur og Jörgensen fluttu þá tillögu svohljóðandi:
“Í tilefni af símskeyti Félagsmálaráðuneytisins dags. 6. apríl s.l. lýsir bæjarstjórn Siglufjarðar því yfir hér með, að hún svipti fyrrverandi Rauðkustjórnarnefnd umboði sínu, er hún kaus nýja Rauðkustjórnarnefnd á fundi sínum 4. apríl s.l."
Þessar ráðstafanir voru gerðar með samþykki meirihluta atkvæða á löglegum fundi í bæjarstjórn Siglufjarðar og heyra á engan hátt undir úrskurð Félagsmálaráðuneytisins. Bæjarstjórnin sér, sér því ekki fært, að verða við fyrirmælum Félagsmálaráðuneytisins um að hin fráfarna Rauðkustjórnarnefnd skuli gegna störfum Þetta tilkynnist hinu háa Félagsmálaráðuneyti hér með.”
Var um tillögu þessa rætt til kl. 12, en þá báru þeir: Kristján, Ólafur, Egill og Axel fram dagskrártillögu um að fresta fundi og var hún samþykkt með atkvæðum þeirra og bæjarstjóra. Þannig stendur þá málið í dag, hvernig sem næsti fundur endar.
Margir munu nú spyrja. Hvað á allur þessi gauragangur að þýða? Tilgangur þeirra Þormóðs og Þóroddar er sjálfsagt margvíslegur og kemur ekki allur í dagsljósið að svo stöddu, en vafalaust má telja valdagræðgi pólitískra og fjárhagslegra baksamninga ásamt sviksemi Þóroddar og illgirni Þormóðs í garð “Rauðku,” aðal uppistöðuna.
Það ættu menn að gera sér þegar ljóst að allur þessi úlfaþytur hlýtur óhjákvæmilega að stórskaða Rauðku út á við, og er það máski tilgangurinn, og einnig að ef þessi nýja Rauðkustjórn á að sitja, þá er Rauðka komin undir stjórn Þormóðs Eyjólfssonar og Þóroddar. Þeir Ragnar og Jörgensen eru settir í stjórnina af því að þeir hlýða í blindni fyrirskipunum Þormóðs og Þóroddar, svo á að þjálfa Gunnar Jóhannsson og jafnvel Schiöth líka til hlýðni, og úr því, er þá sama hverju megin Sveinn Þorsteinsson er.
Bæjarstjóri virðist algjörlega orðinn fastur í þessari svikamyllu, hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn getur losað hann þaðan aftur eða ekki.
Það liggur í augum uppi, að sú bæjarstjórn, sem rífur niður gerðir sínar á tveggja mánaða fresti, er algjörlega óstarfhæf, og getur ekki innt starf sitt af hendi öðruvísi en til stórskaða fyrir bæinn. Það hlýtur að verða krafa alla hugsandi borgara bæjarins, að forsprakkar slíkrar skemmdarstarfsemi, hverfi sem allra fyrst af vettvangi opinberra mála. Eitt er víst, að allt þetta uppþot og afskipti Þormóðs ásamt hjálparkokkamennsku Þóroddar er Rauðku stórskaðlegt og verða afleiðingar þessa deilumáls ræddar hér á næstunni. |