ENN UM RAUÐKUSTJÓRN
Einræði bæjarstjórans og óhlýðni hans gegn fyrirskipunum Félagsmálaráðuneytisins
Fyrir nokkru síðan birtist smáklausa í blaðinu “Mjölni” undir fyrirsögninni: “Skilyrðislaus uppgjöf eða hvað?”
Var tilefni þessarar klausu það, að “fulltrúi kratanna” í Rauðkustjórn (sennilega ég) hefði alltaf neitað að mæta í stjórninni, en væri nú farinn að mæta. Enginn kippir sér upp við það, þó “Mjölnir” hagræði sannleikanum, en mér þykir þó rétt, í framhaldi af því, sem ég áður hefir skrifað um þessi “Rauðkumál,” að ræða þetta nokkuð.
Það er algerlega rangt, að ég hafi nokkurn tíma neitað að mæta í löglega kjörinni stjórn Rauðku, hvort sem hún væri kosin í janúar eða apríl.
Ég lít hinsvegar svo á, að stjórn sú, sem kosin var í janúar 1945 til febrúar 1946, sé löglega kosin, enda hefur um það fallið úrskurður Félagsmálaráðuneytisins, sem bæjarstjórn hefur viðurkennt.
Ég lít svo á, að umboðssvipting meirihluta bæjarstjórar hinnar janúarkosnu Rauðkustjórnar hafi verið ólögmæt, og þar af leiðandi kosning nýrrar.
Samt sem áður hefi ég tvisvar, ef, svo mætti til orða taka, tekið þátt í störfum aprílkosinnar stjórnar undir forystu Schiöths.
Í annað skipti samþykkti ég 500 þúsund króna víxil vegna lántöku til handa verksmiðjunni. Búið var að ákveða og útvega þetta lán af fyrri stjórn.
Þótti mér því sjálfsagt, úr því að Schiöth taldi það nauðsynlegt, að samþykki mitt kæmi til, að framkvæma þessa athöfn, enda þótt búast mætti við hnútukasti frá hálfu Mjölnismanna.
Í hitt skipti mætti ég á fundi þar sem bæjarstjóri var mættur, til þess að spyrjast fyrir um, hvort það væri virkilega rétt, að hann hefði neitað að hlýða fyrirmælum ráðuneytisins um afhendingu lykla og bóka verksmiðjunnar til janúar kosinnar stjórnar.
Skal nú þessi dæmalausi þáttur bæjarstjórans rakinn nokkru nánar.
Hinn 20. júlí var bæjarstjóranum sent símskeyti frá Félagsmálaráðuneytinu til birtingar fyrir bæjarstjórn, þar sem ráðuneytið tilkynnir að “rétt er að stjórn sú, sem kosin var 17. janúar starfi þangað til dómsúrskurður er fallinn.”
Hér var ekki um að ræða annað en tilkynningu til bæjarstjórans, sem embættismanns. Það er að vísu rétt, að bæjarstjóra brá nokkuð við þetta skeyti, og kemur skýring á því síðar.
Hann kallaði þegar til ráðagerðar, vini sína Þórodd og Þormóð. Þessum gáfnaljósum kom síðan saman um að kalla þessi fyrirmæli ráðuneytisins “tilmæli” og samþykktu síðan ásamt Ragnari “mági” og “svila” tillögu þess efnis að bæjarstjórn gæti ekki orðið við þeim.
Þennan óskapnað senda þeir síðan til ráðuneytisins, sem er orðið ýmsu vant af hálfu bæjarstjóra, t.d. því að hann gleymi að sækja um leyfi til framkvæmda eða lántöku, sem búið er að gera og bæjarstjórn hefur falið honum. Hinn 27. barst svohljóðandi eftir farandi símskeyti:
“Kæra hefur borist ráðuneytinu, undirrituð Rauðkustjórn Guðmundur Hannesson, yfir því, að bæjarstjórn haldi fyrir janúarkosinni Rauðkustjórn lyklum að skrifstofu verksmiðjunnar og skjölum, og öllum umráðum yfir verksmiðjunni, og að þér hafið lagt fyrir framkvæmdastjóra að hlýða ekki janúarkosinni Rauðkustjórn. Rauðkustjórn var löglega kosin 17. janúar til eins árs og leggur ráðuneytið fyrir yður að viðlagðri ábyrgð samkvæmt lögum, með skírskotun til símskeyta yðar til dómsmálaráðuneytisins 3. og 17. maí og skeytis Félagsmálaráðuneytisins til yðar 23. þ.m., að veita hinni janúarkosnu Rauðkustjórn umráð yfir verksmiðjunni þangað til dómsúrskurður samkvæmt."
Enn voru þeir félagar Þormóður og Þóroddur kvaddir til ráða, en reyndust nú ráðlausir með öllu. Þeim Þóroddi og Þormóði hefur þó sýnilega þótt rétt að láta bæjarstjóra verða sér einan til skammar.
Að minnsta kosti er það víst, að bæjarstjóri neitaði að hlýða fyrirskipunum ráðuneytisins, en leyndi bæjarfulltrúana símskeytinu.
Vissu margir þeirra ekki um það fyrr en ég las það upp á bæjarstjórnarfundi í gær. Þó að þeir Þóroddur og Þormóður beri ábyrgð á framferði bæjarstjóra, hafa þeir með þessu herbragði gagnvart honum komist hjá því að taka opinberlega afstöðu gagnvart hinu síðara símskeyti ráðuneytisins og hinni tvímælalausu fyrirskipan, er í því felst.
Bæjarstjórinn hefur hér framið ákaflega alvarlegt agabrot. Hann fær sem embættismaður ákveðna fyrirskipun frá yfirboðara sínum Félagsmálaráðuneytinu.
Þessa fyrirskipan neitar hann að framkvæma. Í lýðfrjálsu landi byggist lýðræðið á því, að þeir sem eiga að framkvæma það bregðist ekki.
Dómstólarnir áttu að fjalla um þetta mál, enda hafði bæjarstjóri lofað því, að svo skyldi verða. Ef að bæjarstjóri taldi þessa fyrirskipan ráðuneytisins fara í bága við skoðanir sínar, þá hlaut hann samt að framkvæma fyrirskipunina á ábyrgð þess, en dómstólarnir mundu síðan skera úr, hvor hefði á réttu að standa.
Bæjarstjóri kaus heldur að fara leið ofbeldisins og neita að hlýða. Það er nú ljóst, að hann framdi þetta afbrot til þess að leyna öðru.
Hann hafði látið til leiðast að láta aprílkosna Rauðkustjórn samþykkja 130 þúsund króna ábyrgð fyrir láni til félags Þóroddar og Áka. Þessu þurfti að leyna, ef vera mætti, að tækist að greiða lánið á sumrinu, þess vegna mátti ekki janúarkosin Rauðkustjórn með neinu móti fá afhentar fundargerðarbækurnar.
Ef að janúarkosin stjórn hefði tekið við yrði líka ábyrgðin ógild, því að þá félli niður umboð Ragnars “mágs og svila” sem hafði samþykkt þessa ábyrgð.
Bæjarstjóri hefur leynt bæjarfulltrúana fleiru en þessu. Þegar rannsóknarnefnd í Skeiðsfossvirkjuninni kom hingað, leyndi hann því.
Var þar líka eitthvað að fela, álíka eða verra en lánið til félaga Þórodds og Áka?
Ég efast um, að bæjarstjóra séu þessi afbrot sjálfráð. En það sýnir að hrekkjóttir klækjamenn geta teymt hrekklausa og reynslulitla menn í hinar mestu ógöngur, þegar þeir ná taki á þeim.
Siglufirði 18. september 1945 Erlendur Þorsteinsson |