Endurbygging Rauðku mun fara fram úr áætlun um nokkur hundruð þúsund krónur. Við þessu mátti alltaf búast og má heita merkilegt, að það skyldi ekki verða meira en raun er á.
Hvað kostnaðurinn fer lítið fram úr áætlun er sjálfsagt einsdæmi um þau mannvirki, sem byggð hafa verið undanfarna tíma. En fjárhagur Rauðku stóð tæpt fyrir, þegar svo bætist við tapið í sumar, vaxa ennþá örðugleikarnir.
Ekki er hægt að sækja í bæjarsjóðinn það, sem vantar hjá Rauðku, eina leiðin er því að taka ný lán og hvað segja peningastofnanirnar? Öllum bæjarfulltrúunum ætti að vera ljóst að Rauðka er gott fyrirtæki þó að hún sé í kröggum nú og dýrmætasta eignin, sem bærinn á og meira að segja hans fjárhagslega fjöregg.
Henni verður því að bjarga, hvað sem öllu öðru liður. En hvernig er um samheldnina hjá bæjarfulltrúunum um þetta þýðingarmikla mál?
Jú, samheldnin er þannig, að sömu dagana og Rauðkustjórn er að gera upp tapið í sumar og taka saman hve mikið fé vantar til að greiða það og ógreiddan byggingarkostnað, ræðst einn bæjarfulltrúinn á Rauðkustjórn og brigslar henni um ábyrgðarleysi og reynir að telja mönnum trú um, að meirihlutinn séu hálfgerðir glæpamenn. sem hafi farið hneykslanlega með fé verksmiðjunnar.
Gengið í áhættusama ábyrgð fyrir stórfé og fram eftir því. Nú ríður á samheldni um Rauðku, kannski meir en nokkru sinni fyrr og þessi samheldni næst þrátt fyrir það þótt Erlendur og þrír, fjórir menn með honum leiki Kvislingshlutverkið.
Ábyrgð sú, sem stjórn Rauðku gekk í síðastliðið vor fyrir Siglunesið var frá upphafi áhættulaus, þetta veit Erlendur og allir, sem til þekkja.
En setjum svo að Rauðkustjórn hefði farið óvarlega að ráði sínu, þá hefði það samt sem áður verið svívirðilegt af bæjarfulltrúa, að velja einmitt það augnablikið til árása, sem verið er að leita fyrir sér með lán til að bjarga fyrirtækinu við á erfiðum tímum.
Árásina hefði Erlendur gert siðar, ef hann ekki einmitt hefði stílað upp á að valda Rauðku erfiðleikum og skaða. Siglfirðingar munu standa saman um Rauðku og hún mun verða bæjarbúum til blessunar og framfara en Kvislingarnir í Rauðkumálunum munu hljóta verðskuldaða fyrirlitningu, hvort þeir heita Þormóður eða Erlendur.
Blöðin Einherji og Neisti hafa verið með mikinn úlfaþyt yfir því, að meirihluti bæjarstjórnar skuli ekki hafa hlýtt sjálfum ráðherranum og sett Guðmund Lúther formann Rauðkustjórnar.
Sjálfur herra ráðherrann hefur bara ekkert vald til að fyrirskipa neitt um þetta. Það er bæjarstjórn, sem ræður hverjir stjórna fyrirtækjum hennar, en ekki ráðherrann.
Ef ráðherra tekur sér vald, sem hann ekki hefur að lögum og ætlar að fara að fyrirskipa bæjarstjórn með einræði, er auðvitað sjálfsagt að bæjarstjórn neiti kurteislega að hlýða slíku og haldi sér við rétt sinn.
Lögin ná alveg eins yfir hæstvirtan ráðherra Finn Jónsson eins og aðra menn. Brölt Finns Jónssonar í þessu Rauðkumáli hefur, ef hægt er, minnkað álit hans, því öllum er ljóst að það er gert í því skyni að kaupa fylgi á flokksnefnu hans hér í bænum. |