afmæli kirkjunnar og við
heyrum fólkið segja: "Gleðilega hátíð !"
Í
Hjaltadalnum var nokkuð þungbúið loft en
rigningarlaust, svo hinir mörgu gestir,
líklega um 500 talsins, gátu notið
helgi staðarins og athafnarinnar, er
fram fór.
Athöfnin
í dómkirkjunni að Hólum hófst klukkan tvö, er 56 prestar, biskup
Íslands, vígslubiskup Hóladómkirkju og dómkirkjupresturinn gengu
skrúðbúnir í fylkingu til kirkju.
Í hátíðarskrúða gengu þeir
þeir fyrir altari, vígslubiskup, séra Sigurður Stefánsson og
dómkirkjupresturinn, séra Björn Björnsson. Þá las meðhjálparinn,
Árni Sveinsson, bæn í kórdyrunum, en kirkjukór Sauðárkróks
undir stjórn Eyþórs Stefánssonar söng. Vakti söngurinn mikla
hrifningu viðstaddra og rómuðu kirkjugestir bænina, sem sungin var
með ágætum.
Hátíðarmessan hófst er
biskupinn yfir Íslandi steig í stólinn. Í ræðu sinni lagði hann út
af orðunum: "Ég mun gera þá glaða í mínu húsi".
Dómkirkjupresturinn flutti einnig stólræðu og
lagði út af orðunum "Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður sem þú
stendur á er heilög jörð" Í ræðu sinni rakti Björn, sem þjónað hefur
Hólakirkju í 23 ár, sögu þessa merkilega, elsta guðshúsi landsins.
Of langt mál yrði að gera
grein fyrir sögu þessarar byggingar, en aðeins má þó stikla á
helstu atriðum. Þess má geta að kirkjan er um 28 metra löng, um 9
metra breið og um 4½ metri undir loft. Þykkt veggja er 90 sm. Eru þeir
reistir úr blágrýti, en sandsteinn er utan og innan. Má segja að
húsið sé allt traustlega reist. Svo kallaðar "frúardyr" eru
á suðurhlið en aðaldyr að vestan. Yfir þær dyr er letrað á
marmaratöflu: " Hinum þríeina Guði og Friðrik konungi V.
--1762". Friðrik konungur mun hafa safnað og látið til
kirkjunnar 50 þús. dali, en Gísli biskup Magnússon gekkst
mest fyrir byggingu hennar. Enginn kemur svo inn í Hóladómkirkju, að hann
verði ekki snortinn af helgi staðarins. Þar er ekkert prjál en sérhver
hlutur eða mynd vekur lotningu. Altaristaflan, Kristlíkneskið,
skírnarfonturinn, predikunarstóllinn, ásamt fjölda helgra muna og málverka
lætur fólkið finna að þarna er heilagur staður.
Undir gólfi kirkjunnar hvíla
margir biskupar, sem gert hafa staðinn frægan, en biskupsstóll var þar
frá 1106 til 1801. allir minnast þeirra Jóns biskups Ögmundssonar,
hins helga, sem sat á biskupsstóli 1106 til 1121. Í þann tíð
myndaðist orðtæki, sem ennþá lifir í tungu þjóðarinnar:
"Heima að Hólum" Þá varð Guðmundur Arason biskup um 1200.
Fékk hann hjá alþjóð viðurnefnið: "hinn góði", enda
mátti hann ekkert aumt sjá og vildi öllum gott gera.
Þó er Jón Arason
okkur kunnastur. Var honum til vegsemdar reistur veglegur turn nálægt
dómkirkjunni. Þetta veglega minnismerki um Jón Arason mun halda uppi nafni
hans um aldir. þá má ekki gleyma fræðimanninum Guðbrandi Þorlákssyni, sem að
Hólum sat 1571 til 1627. Í því mikla safni, sem hann gaf út, mun
Guðbrandsbiblía vera merkust og halda uppi nafni hans meðan kristin kirkja
er við lýði í landi hér.
Kirkjuathöfnin
öll var hin virðulegasta. Öll sæti voru þéttskipuð og mikil þröng
standandi fólks milli bekkja. Einnig var úti fólk sem eigi komst inn í
kirkjuna. Eftir stólræðu gekk biskup Íslands fyrir
altari og lauk guðsþjónustu.
Að því loknu flutti Bjarni Benediktsson,
kirkjumálaráðherra, ávarp þar sem hann tilkynnti, að ríkisstjórn Íslands
hefði ákveðið að gefa klukkur í turn þan er reistur var til minningar um
Jón Arason. Þakkaði dómkirkjuprestur gjöfina og sagði að í öndverðu
hefði verið áætlað að setja upp klukkur en fé hefði vantað. Nú hefði
verið úr því bætt af rausn.
Eftir kirkjuathöfnina var hlé.
Voru þá veitingar fram reiddar handa kirkjugestum. Kl. 5 hófst
svo annar liður hátíðahaldanna með samkomu í dómkirkjunni.
Söngflokkurinn söng "Heyr himna smiður" og dr. Páll
Ísólfsson lék þrjú tónverk á orgel kirkjunnar. Svipmyndir úr sögu
dómkirkjunnar voru fluttar af dr. Kristjáni Eldjárn, dr. Brodda
Jóhannessyni og Andrési Björnssyni. Þá lék dr. Pál aftur
þrjú tónverk. Dagskránni lauk með því að söngflokkurinn flutti
þjóðsönginn.
Öll hátíðin frá byrjun fór
fram með miklum hátíðarbrag. Hinn nýi skólastjóri á Hólum, Haukur
Jörundsson hafði veg og vanda af öllum undirbúningi, sem var honum til
sóma og gefur von um, að í fleiru verði störf hans Hólum og
Hólaskóla til blessunar.

Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn
Einarsson flytur hina postullegu kveðju
fyrir altari Hóladómkirkju.

Frá Hólahátíðinni. Sr.
Sigurður Stefánsson vígslubiskup, sr. Björn Björnsson,
Hólabiskup og herra Sigurbjörn Einarsson
biskup ganga til kirkju.