Úr Vikublaðinu 
Siglfirðingur, 13. desember 1930
Ósannindum hnekkt.
Í 22. tölublaði ."Mjölnis"
birtist grein með fyrirsögninni "Bíó", undirskrifuð A.
Grein þessi er þrungin af
rangfærslum og ósannindum. og vil ég því leyfa mér að gera athugasemdir
við hana.
Greinarhöfundur talar fyrst um.
að Siglufjarðar-Bíó sýni tæplega aðrar myndir en þær lélegustu, sem
heimsmarkaðurinn hafi að bjóða, sundurtætta ræfla frá því um aldamót.
Síðan segir hann:
"Því er fleygt fyrir, að hér
séu sýndar sömu myndir og sýndar eru í Akureyrar- Bíó, en það er nú samt ekki;
margar bestu myndirnar koma hingað aldrei, og geta menn sannfærst um það
með því að lesa auglýsingar frá Akureyrar-Bíó".
Allir Siglfirðingar, sem sækja
kvikmyndasýningar vita, að hér fer greinarhöfundur rangt með, að minnsta
kosti tveir þriðju af öllum þeim myndum, sem sýndar hafa verið á
Siglufirði síðustu árin, hafa um svipað leyti verið sýndar á Akureyri -
og margar hverjar í Reykjavík. Um þetta er hægt að fá vottorð frá
eigendum Akureyrar-Bíós ef þarf.
Á veturna sýnir Akureyrar-Bíó
venjulega fleiri myndir en Siglufjarðar-Bíó. og eru þá einmitt
úrvalsmyndirnar sendar til Siglufjarðar til sýningar þar.
Sönnunargögn höfundar eru
auglýsingar í blöðunum frá Akureyrar-Bíó. Hafi höfundur samviskusamlega
borið saman myndaheiti á auglýsingum frá Akureyrar-Bíó við heiti þeirra
mynda sem Siglufjarðar-Bíó hefir sýnt, hlýtur hann að hafa komist að
raun um, að sömu myndirnar hafa verið sýndar í báðum kvikmyndahúsunum.
En sennilega hefir verið kastað höndum til þess verks.
Þá hefir það oftsinnis
komið fyrir, að sama myndin ber ekki sama heitið á Akureyri og á
Siglufirði. Heiti myndanna eru venjulegast þannig, að þýða má þau á fleiri
vegu, og auglýsingar frá Akureyrar-Bíó oft og tíðum ekki komnar oss í hendur
þegar sýna þarf myndina. Margar myndir eru sýndar Siglufirði áður en þær eru
sýndar á Akureyri, sérstaklega á þetta sér stað á sumrin - og þá er
Akureyrar-Bíó algjörlega ókunnugt um hvaða nafn myndin hefir borið í
auglýsingum frá Siglufjarðar-Bíó.
Sannleikurinn er sá að
Siglufjarðar-Bíó hefir sýnt fjöldann allan af ágætum myndum, sem bæði hafa
haft lista og menningarlegt gildi. Síðastliðið sumar voru t.d. sýndar
margar myndir, sem gerðar hafa verið eftir bestu bókmenntum heimsins -
og leiknar af heimsfrægum leikurum.
Er auðvelt að nefna dæmi ef
með þarf. Sennilega hefir greinarhöfundur sjaldan farið í Bíó á
Siglufirði - og er því lítt kunnur hvaða myndir hafa verið þar á boðstólum,
eða þá hann skortir menntun til að dæma um hvaða myndir hafa lista- og
menningarlegt gildi.
Og enda þótt að Siglufjarðarbær
færi að reka kvikmyndahús, eins og greinarhöfundur vill, efast ég um, að
stjórnendum þess tækist að útvega tiltölulega betri myndir en þær, sem
sýndar hafa verið :í Siglufirði síðustu tvö árin.
Þá talar greinarhöfundur um
Akureyrarbíóin. Þar séu miklu betri myndir af því að kvikmyndahúsin séu
tvö - og því samkeppni mikil. hér löðrungar greinarhöfundur sjálfan sig
óþyrmilega, eins og bent hefur verið á hér að framan.
Hvað samkeppninni viðvíkur, þá
skal það játað, að hún er góð á flestum sviðum. En á Akureyri varð
raunin sú, að bærinn og nágrenni var of fólksfátt til þess að tvö
kvikmyndahús gætu borið sig - og neyddust því eigendur kvikmyndahúsanna
til þess, að gera samsteypu úr báðum bíó-félögunum. Þetta varð útkoman í bæ,
sem er meira en helmingi stærri en Siglufjörður, hefir einhverjar fjölmennustu
sveitir landsins allt í kring um sig - og marga skóla, sem sóttir eru frá
Norður- Austur- og Vesturlandi. (En reynslan sýnir, að nemendur skóla
sækja mikið kvikmyndasýningar.)
Síldarútvegur og söltun er.
sömuleiðis talsverð þar á sumrin, og einhver stærsta
síldarbræðsluverksmiðjan, sem til er á landinu, rétt fyrir utan
kaupstaðinn.
Þetta má bera saman við
Siglufjörð. Væri ekki ólíklegt, að greinarhöfundur myndi, að athuguðu
máli, komast að þeirri niðurstöðu, að Siglufjarðar-Bíó muni ekki vera
önnur eins féþúfa eins og hann vill vera láta.
Sagan um danska manninn er
helber uppspuni.
Þá minnist greinarhöfundur á
sætin, telur þau afar slæm nema á svölunum. Þegar Bíó var byggt árið
1924, var ætlun eigendanna að kaupa góð sæti í húsið. En þá var
innflutningsbann á þeim sem svo mörgu öðru. Var sótt um leyfi til
stjórnarráðsins en Stjórnarráðið synjaði.
Var því einskis annars úrkostur
en að smíða trébekki. Þess: má geta. að í aðalleikhúsi Reykjavíkur, hafa. þar
til í haust, aðeins verið trébekkir, sem síst voru þægilegri en
bekkirnir í Siglufjarðar- Bíó - og tekur leiksýning þó allt að helmingi lengri
tíma en myndasýning.
Þá talar greinarhöfundur um, að
svo þröngt hafi verið í kvikmyndahúsinu, að sumir hafi orðið að standa
og aðrir að sitja á innstu bekkjunum og minnist á að lögreglan hefði átt
að stöðva aðgöngumiða-söluna.
Sannast að segja. er það mjög
sjaldan, að aðsókn hafi orðið eins mikil eins og höfundur. skýrir frá.
En þegar það hefir komið fyrir, hefur þeim, sem seinast keyptu
aðgöngumiða, verið tilkynnt, að engin sæti væri að fá nema í innstu
bekkjaröðum. Fullyrða má, að oftar hefur verið þrengra í Akureyrar-Bíó en
nokkurn tíma í Siglufjarðar-Bíó og þó ekki verið að fundið Aðgöngumiðasala við
Siglufjarðar-Bíó, hefur ávalt verið stöðvuð þegar sæti hafa verið uppseld, en
sumir hafa heldur kosið, að standa út við dyr en að sitja -á innstu
bekkjum, en bekkirnir eru ekkert nær sjálfri myndinni í Siglufjarðar-Bíó
en mörgum öðrum kvikmyndahúsum.
Lögreglan hefur stundum vakið
athygli sölumanns á því, að réttast væri að selja ekki fleiri
aðgöngumiða, svo það er ekki rétt hjá höfundi, frekar en annað, að
lögreglan hafi aldrei skipt sér af því.
Grein höfundur, A. er mjög
ósanngjörn frá byrjun til enda. Rakalausum fullyrðingum og ósannindum
slegið fram.
Eigendur kvikmyndahússins hafa
einmitt á þessu ári gert talsvert til að gera húsið vistlegra og
þægilegra, þar sem salurinn hefur verið málaður og miðstöð sett í húsið
ofl. og er ætlunin að halda umbótunum áfram smám saman.
p.t. Reykjavík í nóvember 1930,
H. Thorarensen
---------------------------------
Tilefni þessa svargreinar
Ósannindum hnekkt. er að
finna HÉR
Blaðið Mjölnir, sem
greinarhöfundur vitnar í, er blað sem gefið var út af Jafnaðarmönnum
1929-1930.
Blað kommúnista, 1. eintakið af Mjölnir var gefið út
árið1938. (8 árum síðar)
Athygli vekur að Thorarensen
talar alltaf um Siglufjarðar-Bíó í grein sinni, þó svo, að ekki fari á milli
mála að hann er að tala um Nýja Bíó, sem byggt var árið 1924 og var hans
eign. (Hlutafélagið Valur)
SK