Náttúran - Síldin - Mennirnir.
Hafið úti fyrir Norðurlandi er stórgjöfult um þessar mundir. Í blikandi sólskini og lognstafa-sjó sigla síldarskipin í sífellu svo drekkhlaðin að landi, að tæplega er borð fyrir báru.
Þetta er hvorttveggja í senn, fögur sjón og björguleg. Nú liggur þessi fagri fiskur í þrónum og bíður eflir kvörninni, til þess að forklárast þar, og verða að hinu rauða gulli sem mannkynið tilbiður.
Dag og nótt snýst kvörnin. Dag og nótt vaka mennirnir, vinnandi, gangandi, talandi, hver við annan og hver um annan. Dómar eru felldir. Hundrað dómar á hverjum klukkutíma, sem allir stangast.
Og hver um sig er svo innilega sannfærður um það, að sinn dómur sé sá eini rétti. Nú mætti ætla að mennirnir væru eitt sólskinsbros, þegar þeir, hver um sig hafa svona mikið hyggjuvit. En það er öðru nær. Þeir eru slompaðir af gremju yfir því að aðrir skuli ekki vera eins gáfaðir. Rétt eins og það væri æskilegt að allir væru jafn vitrir. Hvernig yrði þá samkomulagið? - - -
- - Það er verið að landa síldina.
"Bölvuð ómynd er að ríkið skuli ekki láta nýtísku löndunartæki, eins og eru á Hjalteyri" segir einn.
"Asni ertu! Það er ekki hægt nema í ládauðum sjó, sem aldrei er hér". Segir annar.
"Þetta verður einhvernvegin að breytast. Það má ekki eyðileggja útgerðina með þessum töfrum" Gall í þeim þriðja.
"Ojæja" Rumdi í þeim fjórða. "Skipin verða nú að liggja og bíða hvort sem er þegar allt er orðið fullt".
"Fleiri síldarþrær" Hrópar einn.
"Já, til þess að hafa skemmda vöru og verðlitla" Var honum svarað.
"Það verður að bæta við mörgum nýjum verksmiðjum" Var þá sagt í hátíðlegum róm.
"Hver á að bera það allt uppi þegar verðfallið og síldarleysið kemur yfir okkur?" Mælti gamall sjómaður með hægð. -
Ég gekk í burtu, ég fann að þessir menn væru mér svo miklu vitrari að ég vissi ekkert hverjum þeirra ég átti að trúa. En þegar heim kom fékk ég ráðninguna á þessari gátu í "Neista" þeirra kratatanna. Þar skilst mér vera leyst þetta vandamál sem karlarnir ræddu um, sem sé, með því að nú séu vélar verksmiðjanna keyrðar til meiri afkasta, en þær eru byggðar fyrir og í öðru, lagi sé nýbúið að byggja síldarþró fyrir 20 þúsund mál, og blaðið segir að það sé ekkert ekkert nema bölvuð afturhaldssemi að tala um að þetta kosti eitthvað töluvert, hér sé aðallega um hagsýni og fyrirhyggju að ræða. -
Drottinn minn dýri! Jón erindreki farinn að tala um fyrirhyggju. Flest verður maður nú að hlusta á. Þetta vakti upp fyrir mér það sem einn háttsettur kratabroddur í Reykjavik sagði fyrir allöngu: "Við (þ.e.kratarnir) eigum síldarverksmiðjurnar og við viljum engin slettirekuskap annarra flokka um þær".
Mér datt í hug í þessu sambandi að ekki væri ennþá alveg útdauð í heiminum lífsskoðun hins auma keisara sem sagði: "Ríkið það er ég".
En ef kratarnir ætla að farar að taka súr þessi frægu einkunnarorð, þá get ég búist við árekstri við íhaldið, af því mér hefir skilist að þeir telja það blóðuga móðgun við sig að aðrir flokkar skuli yfir höfuð vera til, svo sannfært hefir það verið um það, að það, og það eitt væri ríkið.
Og nú kemur "Brautin" þeirra kommanna inn úr dyrunum. Mér varð fyrst að athuga hvort hún væri mjög breið, því það er alltaf geigur í mér við breiðar brautir, vegna þess að mér var kennt í barnæsku að þær lægju til glötunar.
En þessi braut var þó hvorki mjó né breið. Hún virtist hverfa út í skýin. Undir það álit Brautarinnar munu þó margir taka, að engin lífsnauðsyn sé það fyrir velgengni síldarverksmiðjanna og afkomu þjóðarinnar að kratarnir einir ráði þar lögum öllum og skoðunum manna.
Hitt er annað mál að kommarnir telja að engum flokki sé raunar trúandi fyrir verksmiðjunum nema þeim sjálfum.
Hygg ég samt að þeir segi þetta meira til að láta bera á sér, heldur en að þeim sé alvara. Það eru í þeim leiðindi út af því að enginn talar við þá um alvarleg mál.
Má raunar segja um forsjón kratanna og kommanna fyrir síldarverksmiðjunum, að menn hafi álíka trú á henni eins og að:
"Þeir sem aldrei þekktu ráð, þeir geti bjargað hinum".
X. |