Skrum eða raunveruleiki.
Gísli Halldórsson er ákaflega reiður út af því að Einherji skyldi vera að leiðrétta ranghermi hans og birta réttar tölur í stað rangra, er hann hafði gefið upp og skrifar í því tilelni illorða skammargrein í síðasta "Neista".
Gefur sú ritsmíð ókunnugum furðu glögga hugmynd um höfundinn og sýnir allt í senn: vanstillt skap, litla greind, hóflaust yfirlæti og óvenjulega ríka tilhneigingu til að reyna að hefja sjálfan sig á kostnað fyrirrennaranna.
Eru þetta allt heldur óheppilegir eiginleikar fyrir mann sem er í vandasamri og ábyrgðarmikilli stöðu.
Gísli vill reyna að snúa sig út úr umælum sínum og samanburði á afköstum verksmiðjanna fyrr og nú, með því að hann hafi hvergi talað um "toppafköst".
En hver er munurinn á því að tala um hvað verksmiðja "afkasti mest", eða að tala um "toppafköst" hennar?
Í viðtalinu við Alþýðublaðið, talar Gísli um muninn á "mestu atköstum" verksmiðjanna fyrir tveimur árum og nú, og svo kemur hann núna í "Neista" og segist ekki hafa talað um "toppafköst"!
Hann verður að fara til einhverra annarra en þeirra, sem skilja Íslenskt mál sæmilega, með þessa afsökun sína.
En nú talar hann aftur um mestu afköst, (í sekkjum). Hver eru þá "toppafköstin"? Þau hljóta að vera allt önnur eftir hans skýringu á málinu að dæma.
Annars er það vitanlega ekkert annað en fáránleg fjarstæða og blekking ein að reikna afköst verksmiðjanna út eftir "toppafköstum" Allt veltur á því hvað þær vinna jafnaðarlega.
Og sé reiknað út eftir því, sem auðvitað er það eina rétta, verður heldur en ekki annað upp á teningnum, en Gísli Halldórsson heldur fram.
SR30 hefir alltaf haft næga síld til vinnslu síðan 10. júlí í sumar og hefir á þeim tíma, þ.e. ca. 50 dögum (eina eða tvo sunnudaga mun ekki hafa verið unnið) unnið úr 102 þúsund málum. Meðalvinnsla verður því 2.000 mál á sólarhring, en árið 1935 var meðalvinnsla þessarar verksmiðju 2.140 mál á sólarhring eða 140 málum hærri en í sumar.
SRP hefir á sama tíma unnið úr 68 þúsund málum eða að meðaltali á sólarhring úr 1.360 málum. Sumarið 1935 var meðalvinnsla þeirrar verksmiðju 1.334 mál eða aðeins 26 málum lægri en nú.
Gerðum við okkur þó - bæði framkvæmdastjórinn J.G. og stjórn - fastlega von um að meðalvinnslu þeirrar verksmiðju mætti auka með litlum tilkostnaði um 200 mál á sólarhring.
Það hefir sýnilega ekki tekist ennþá.
SRN getur ekki komið til samanburðar nú og sumarið 1935, því þá var hún í smíðum og á margan hátt í ólagi og varla um annað að ræða en reynsluvinnslu.
Afköst Raufarhafnarverksmiðjunnar mun vera nokkurn vegin vera þau sömu í sumar og árið 1935, eða um 1.000 mál að meðaltali á sólarhring.
Útkoman er því þessi:
Meðalvinnsla SR30 hefir lækkað um 140 mál á sólarhring miðað við vinnsluna 1935.
Meðalvinnsla SRP hefir hækkað um 26 mál á sólarhring miðuð við sama ár og Raufarhöfn stendur í stað. Sólbakka er sleppt hér af því því ég hefi ekki fullnægjandi gögn um meðalvinnsluna þar í sumar.
En þetta nægir fyllilega til að sýna fram á, að öll blaðaskrifin og útvarpsfréttirnar sem Gísli lætur birta um mikla afkastaaukningu verksmiðjanna - stundum 2.800 mál daglega, stundum allt upp í 3.400 mál á sólarhring - er skrum eitt og blekkingar, því jafnvel þó miðað væri við SRN, sem, eins og ég hefi áður tekið fram, var ekki komin í fulla vinnslu 1935 er meðalvinnslumunurinn á henni þá og nú ekki nema rúm 400 mál á sólarhring.
Það er þá öll aukningin rúm 400 mál! Því þó einhver hækkun kunni að vera á Sólbakka, sem þó ekki er líklegt, nemur hún sjálfsagt ekki meira en lækkuninni í SR30.
En hvaða gagn er svo að því, þó hægt sé að flagga einstöku sinnum miklum afköstum og há met séu sett?
Hefnir það sér ekki með verri framleiðsluvöru, meira vélasliti og fleiri "stoppum"? Sú skýring virðist liggja hærri fyrir því að meðalafköst SR30 hafa lækkað samanborið við 1935, að, "óhappastoppin" hafi verið fleiri nú en þá, því hráefnið var upp og niður það sumar eins og núna.
Þó veiðin væri þá litil, (Gísli segir í Neista að það hafi verið mjög hagstætt ár!) kom hún mest öll í kviðu, svo skipin urðu að bíða allmikið eftir löndun og síldin skemmdist.
Gísli Halldórsson segir að "margt" hafi verið í niðurníðslu í verksmiðjunum í tíð fyrirrennara hans. Er þetta bæði ósönn og ómakleg árás -- og ekki sú fyrsta - á báða hina reglusömu, starfhæfu og pössunarsömu framkvæmdarstjóra er á undan honum voru, þá Jón Gunnarsson verkfræðing og Oscar Ottesen.
Hitt kom vitanlega að sjálfu sér, að allstaðar þurfti aðgæta ýtrustu sparsemi og margt varð að láta ógert sem þörf hefði verið á, meðan verðlag á afurðunum var meira en helmingi lægra en það er nú og stundum aflabrestur líka.
En það er eins og Gísli haldi að honum beri þakklætið fyrir verðhækkun lýsis og mjöls og eindæma mikinn afla.
Það hefir vist enginn búist við að Gísla þætti það mikið fé, sem hann hefir notað til "endurbóta" (sumar "endurbæturnar" eru nú taldar æði vafasamar) á verksmiðjunum og segir að verksmiðjustjórninni þyki það ekki heldur.
Honum þótti ekki mikið á sínum tíma að, setja upp 12 þúsund krónur fyrir verk sem aðrir verkfræðingar töldu hæfilegt að vinna fyrir þrjú þúsund og fimm hundruð krónur.
Honum þykir heldur ekki mikið að taka 110 krónur á dag í ferðakostnað (símakostnaður þar ekki meðtalinn) þegar hann þykist vera að ferðast í þágu verksmiðjanna.
En er það nú alveg víst að verksmiðjustjórninni hafi ekki stundum fundist hann nokkuð fjárfrekur?
Það mætti kannski taka upp umræður um það mál að nýju þegar búið er að leggja fram ársreikningana fyrir 1936. En hvenær verður það gert?
Endurskoðendurnir voru hér í júlí og ágúst (um mánaðartíma) við endurskoðun verksmiðjureikninganna fyrir árið 1936, en urðu frá að hverfa án þess að hafa lokið því verki, vegna þess að reikningarnir voru ekki að fullu tilbúnir af hendi framkvæmdarstjórans, og enga skýrslu um ársstarfið var hann búinn að semja.
En fyrir árið 1935, þegar Jón Gunnarsson var framkvæmdastjóri, voru reikningar verksmiðjanna fullgerðir í febrúar, og skýrsla um ársreksturinn afhent stjórninni fyrir áramót og, hafði hann þá ekkert tekið fyrirfram af launum sínum, né verið kostaður til undirbúnings undir framkvæmdastjórastarfið af verksmiðjufé.
Þormóður Eyjólfsson.
|