Vátryggingar ríkisverksmiðjanna.
Neisti óskar þess eindregið að teknar séu upp umræður um það mál "með frekju".-
Ekki vill Einherji verða við þeirri ósk "kollega" síns, því hann er yfirleitt mótfallinn allri "frekju" og viðurkennir hana ekki til bóta fyrir neinn málstað, en vill gjarnan ræða þetta mál og önnur með rökum og raunar er það vel við eigandi, að einmitt þegar Íslendingar almennt eru að minnast fullveldis síns og sjálfstæðis þjóðarinnar, að á það sé drepið um leið, hvort réttara muni fyrir Íslenska einstaklinga og Íslensk ríkisfyrirtæki, að skipta, við útlend fyrirtæki - í þessu tilfelli útlent vátryggingarfélag - en alíslenskt.-
En áður en lengra er farið út í umræður um þetta mál, er á ný skorað á Neista að birta samning verksmiðjanna við útlenda vátryggingarfélagið og tilboðið sem, þær fengu frá Sjóvátryggingarfélagi Íslands til samanburðar. -
Tölur þær er Neisti nefnir eru alveg út í bláinn, án þess að getið sé vörumagns eða lengdar vátryggingartímans.
Ríkisverksmiðjunum hefir alltaf staðið til boða 10% afsláttur hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands sem föstum viðskiptavin.
Tilhæfulaust er það með öllu, að vátryggingarsamningur verksmiðjanna hafi verið gerður í sumar með leyfi fjármálaráðherra.
Árásir Neista á Sjóvátryggingarfélag Íslands virðast vera settar fram sem gagnsök á hendur Þormóði Eyjólfssyni vegna Gísla Halldórssonar og því væri eðlilegast að samhliða umræðunum um þetta mál væri svarað þeirri gagnrýni er komið hefir fram hér í blaðinu á skrumauglýsingum Gísla og starf hans við verksmiðjurnar. Þær umræður yrðu nú að ýmsu leyti auðveldari en áður.
Reikningum verksmiðjanna fyrir árið 1936 er nú loksins lokið og endurskoðendurnir munu langt komnir að gera sínar alhugasemdir, svo við þær verður vafalaust að einhverju leyti hægt að styðjast, þó fullglöggt yfirlit yfir hag og ástand verksmiðjanna komi vitanlega ekki fram fyrr en "uppgjöri" fyrir yfirstandandi ár er lokið.
En því mun áreiðanlega verða hraðað sem, mest úr áramótum. Þá dugar hvorki skrum né dylgjur, þá liggja skilríkin og sannanirnar á borðinu. |