Á alltaf að féfletta sjómenn ?
Af því að N.Dbl. á alltof fáa lesendur hér á Siglufirði, þykir rétt að birta þessa ágætu, rökföstu grein eftir
formann Framsóknarflokksins, í Einherja.
Er hún rituð fyrir N.Dbl. 5. þ.m., sem beint svar við þeim úlfaþyt sem reynt hefur verið , að þyrla upp meðal sjómanna gegn því að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu síldina áætluðu verði en ekki föstu.
En Framsóknarmenn leggja áherslu á að verðið sé áætlað og full greiðsla fari ekki fram fyrr en séð er, hve mikið verð fæst fyrir afurðirnar. Vilja þeir að þar sé fylgt samskonar reglu og höfð er í samvinnufélögunum, um greiðslu á afurðum bændanna og telja með því tvennt fengið: Verksmiðjurnar sé forðað frá mestu fjárhagslegu áhættunni, og komið í veg fyrir það, að af sjómönnunum sé haft það sem þeim ber, samkvæmt hinum upprunalega anda og tilgangi verksmiðjulaganna.
Ýmsir af svokölluðum leiðtogum sjómanna, t.d. Jón erindreki og Páll Þorbjarnarson í Vestmannaeyjum, hafa undanfarna daga staðið að því að fá samþykktar á æsingafundum í sjóþorpum og kauptúnum gífuryrt mótmæli gegn því að sjómönnum og útgerðarmönnum verði tryggt sannvirði síldarinnar, fyrst í verksmiðjum ríkisins og síðan í verksmiðjum, sem einstakir menn eiga.
Málið er að mörgu leyti skemmtilegt. Broddum þessara ályktana er alveg sérstaklega snúið að mér. En ég er einmitt fyrsti maður utan sjómanna og verkamannastéttar, sem hefi lagt á mig nokkra fyrirhöfn og talsverðar óvinsældir við að móta þá einu stefnu, sem tryggir sjómönnum að verða aldrei féflettir fyrir vinnu sína við síldveiðarnar.
Að öðru leyti eru sjómenn ginntir til að samþykkja yfirlýsingar, sem eru beinlínis bæn frá þeirra hálfu um að þeim, megi auðnast sú mikla hamingja að verða féflettir framvegis eins og hingað til.
Þriðja merkis-einkennið er það, að þeir leiðtogar, sem hér hafa forustuna um að fá sjómenn til að biðja stétt sinni ólán í framtíðinni, eru menn mest sekir um eigingjarna framkomu: Páll Þorbjarnarson og Jón Sigurðsson höfðu frá Alþingi trúnað um að stýra verksmiðjum ríkisins á þann hátt að það efldi hag sjómanna.
Þeim var meir en vel launað fyrir þá vinnu, sem þeir leystu af hendi. Samt veittu þeir sér sjálfum lán af fé sjómanna í verksmiðjunum.
Sama gerðu helstu yfirmenn sem þeir völdu til samtarfsins, þar á meðal Gísli Halldórsson.
Auk þess lofuðu þeir Gísla Halldórssyni, eftir því sem hann segir sjálfur, a.m.k. 4.000 krónum aukabita fyrir að leggja fram verkfræðirit við verksmiðjuna, auk þess sem hann hafði 12.000 krónur í kaup og 110 krónur á dag, er hann ferðaðist fyrir sjómenn til að koma vöru þeirra í verð erlendis.
Forkólfar sjómanna, sem nú standa fyrir stórorðum ásökunum á Framsóknarflokkinn, hafa þessa forsögu, og er þó ekki allt talið, sem bregður birtu yfir verðleika þeirra.
Sök Framsóknarmanna er sú, að þeir hafa lálið reisa verksumiðju á Siglufirði til að taka til vinnslu síld frá sjómönnum og útgerðarmönnum, og gera hana nú markaðsvöru, og tryggja eigendum vörunnar sannvirði hennar á heimsmarkaðnum.
En Páll Þorbjörnsson og sálufélagar hans vilja ekki þetta, heldur að síldin sé keypt af þeim, og gróðamöguleikunum veitt yfir á ríkið og einstaka menn, P.Þ. vill halda við hinu aldagamla skipulagi, að þeir sem ráða yfir fjármagninu og atvinnutækjunum fái tækifæri til að fá sérgróða af striti sjómannanna.
En mín aðstaða til síldveiða og sjómannanna er með allt öðrum hætti en hinna skuldugu þjóna sjómannanna.
Árið 1916 risu sjómenn hér í Reykjavík upp og kröfðust Þess að þeir mættu sjálfir versla með sinn, hlut af aflanum á togrunum. Það var talið, að lifrin væri aflahlutur sjómanna. En þeir fengu ekki að selja lifrina sjálfir. Útgerðarmenn kölluðu lifrina hlut sjómannsins, en tóku hana sjálfir fyrir lítinn hlut af sannvirði hennar.
Sjómennirnir voru féflettir fyrir allra augum. En þeir áttu fáa vini í landi utan stéttar sinnar. Og það var heldur ekki hægt að hafa aukastarf fyrir mörg þúsund krónur á ári þá, fyrir að taka málstað sjómanna, enn síður að fá hjá þeim lán til eigin þarfa.
Þá var ekkert hægt að hafa upp úr því að taka málstað sjómanna, nema að gera rétt, og fá óþökk allra þeirra, sem völd og áhrif höfðu í landinu.
Ég studdi sjómennina í þessu verkfalli, í ræðu og riti benti ég á samvinnugrundvöllinn, sem ætti að byggja á.
Allar afurðir hækkuðu stórlega. Útvegsmenn græddu meir en nokkru sinni fyrr. Sjómenn voru félagar þeirra í starfinu og höfðu sinn bróðurpart af áhættunni.
Úr því að lifrin var þeirra kauphluti, þá áttu þeir að fá að versla með hann, og fá af honum hinn réttmæta tekjuauka, sem leiddi af verðhækkuninni. En útgerðarmenn vildu þetta ekki. Þeir vildu að sjómenn væru féflettir eins og áður og eins og Páll í Eyjum vill enn vera láta.
Árið 1916 sýndi ég fram á hinn réttlátu beiðni sjómanna, að fá sannvirði fyrir sinn hlut. Sjómenn stóðu þá með mér og trúðu á sannvirðið.
Útvegsmenn stóðu þá móti, því að þeirra var gróðavonin, eins og þá stóð á, að svipta sjómenn sannvirði fyrir hlut þeirra á togurunum.
En nú er skipt um hlutverk. Nú bjóða útvegsmenn hlutaráðningu og frelsi til að sjómenn ráðstafi sínum hlut, þeir hafa sömu ástæðu til að bjóða þessi boð nú, eins og að neita 1916.
En nú neita sjómenn. Nú vilja þeir ekki fá sannvirði vöru sinnar. Þeir eru komnir í spor útgerðarmanna frá 1916.
En samvinnumenn standa í sömu sporum eins og við hin fyrstu stóru átök um réttláta skiptingu andvirðisins fyrir sjávarafurðir fyrir 21 ári. Þá neituðu útgerðarmenn réttlátu verði. Nú neita sjómenn fyrir munn skammsýnna leiðtoga.
Framsóknarmenn hafa aðeins eitt ráð að gefa andstæðingunum á sjávarbakkanum: Vinnið saman og skipið í friði og réttlæti því sem sjórinn gefur í sigurlaun fyrir mikið strit og áhættu.
Fram að þessu hafa báðir aðilarnir talið sig hafa betra af að berjast um fenginn í fjörunni, með gagnkvæmri tálvon um að geta leikið á mótpartinn.
En árangurinn hefur orðið gagnkvæm hörmung og getuleysi. Og fyrir sjómennina er það ef tilvill mesta þrekraunin, að hafa fyrir leiðtoga menn, sem biðja um að sjómenn megi alltaf verða féflettir.
J.J. |