Rauðkuverksmiðjan - Siglunesið og “stóra hneykslið”
Eftir A. R. SCHIÖTH
Svo sem kunnugt er ákvað stjórn síldarverksmiðjunnar Rauðku að gera það, sem í hennar valdi stóð til þess að verksmiðjan gæti tekið til starfa á sumrinu 1945. Var litið svo á, að jafnvel þótt leggja yrði í talsverðan aukakostnað til þess að þetta næðist mundi sá aukakostnaður endurgreiðast á tiltölulega skömmum tíma með því, að afurðir þessarar verksmiðju, sem og annarra verksmiðja voru fyrirfram seldar fyrir sæmilegt verð.
Um þetta munu allflestir hafa verið sammála, en hitt gat enginn séð fram á, að sumarið 1945 mundi verða eitt hið versta síldarsumar, sem menn muna eftir.
Örðugleikarnir á því að koma verksmiðjunni upp fyrir þann tíma sem síldveiði byrjar reyndust miklir og yrði of langt mál að skýra það hér, en þrátt fyrir þetta var verksmiðjan móttökuhæf í kring um 15. júlí og fyrsta löndun fór fram 17. þess mánaðar.
Ef nægilega mikið af sæmilega góðu hráefni hefði borist verksmiðjunni mundi hún vafalaust hafa getað afkastað 5.000 málum á sólarhring en það kom ekki til að á það reyndi af ástæðum, sem þegar eru kunnar.
Með hliðsjón af því, sem hér hefir verið sagt gerði stjórnin sitt ýtrasta til þess að ná samningum við veiðiskip, en það gekk treglega. Ástæðan var sú og sú eingöngu, að menn trúðu því ekki að verksmiðjan yrði tilbúin í tæka tíð. Útgerðarmenn þorðu ekki að samningsbinda sig við verksmiðju, sem þeir ekki höfðu trú á, að gæti tekið við síld þeirri, sem skip þeirra öfluðu, og sú er þá staðreynd, að í byrjun júlímánaðar hafði verksmiðjan ekki yfir að ráða nema 2 Íslenskum skipum (m.s. Dagný og m.s. Gunnvör) og 4 færeyskum (m.s. Yvonna, Mjóanesið, Fugloy og Godthaab).
Sér hvert mannsbarn, að það var svo það var svo víðsfjarri, að skip þessi gætu annað hráefnaþörf verksmiðjunnar, og það jafnvel þótt afköst hennar hefðu verið brot af því, sem ég tel hér að framan, enda þýðir ekki að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að ef sumarið 1945 hefði orðið meðal síldarsumar, eða meira, mundu aðrar verksmiðjur alls ekki hafa getað annað vinnslu af þeim mikla skipafjölda, sem þær höfðu undirgengist að taka síld til vinnslu af.
Svona er ástatt fyrir verksmiðjunni þann 4. júlí í sumar þegar þess gefst kostur að bæta við verksmiðjuna einu af stærsta og besta síldveiðiskipi í flotanum m.s. Siglunesinu. Útvegsbankinn, sem hafði ákveðið að hjálpa samnefndu útgerðarfélagi til þess að koma skipinu á síldveiðar, keypti 130 þúsund króna víxil af því, en til tryggingar voru tvennir snurpunótabátar, tvær snurpinætur og persónuábyrgð þeirra Áka Jakobssonar, Sigurðar Thoroddsen og Steinþórs Guðmundssonar. Var farið fram á það við stjórn Rauðku, að hún ábyrgðist greiðslu þessa með allt að 40% af afla skipsins.
Mér var það fullljóst, að Rauðku stjórn hafði ekki heimild bæjarstjórnar til þess að taka að sér þessa skuldbindingu og færði þetta því í tal við 4 bæjarfulltrúa, þar á meðal bæjarstjóra, sem ég náði til. Með því að afgreiða þurfti mál þetta samdægurs vannst ekki tími til að halda bæjarstjórnarfund um málið og tókum við meðstjórnendur mínir þá ákvörðun að eiga það á hættu, að bæjarstjórn gerði okkur ómerka að þessari ráðstöfun.
Var okkur ljóst, að færi svo, værum við persónulega ábyrgir ef handveð og persónutryggingar reyndust ófullnægjandi. Um “leynimakk” og “pukur” það, sem á að hafa átt sér stað um þessa ábyrgð, skal það tekið fram, að samdægurs var skráð eftirfarandi bókun á bls. 17 í fundargerðarbók stjórnarinnar, en að þessari bók eiga allir bæjarfulltrúar aðgang, þar á meðal Erlendur Þorsteinsson:
“Samþykkt með öllum atkvæðum að ábyrgjast gagnvart Útvegsbankanum ávísun á 40% afla m.s. Siglunes á í hönd farandi síldarvertíð allt að 130 þúsund kr. Með tilliti til þess, að verksmiðjan er í skipahraki, taldi stjórnin nauðsynlegt að gera þetta með því að ella mátti búast við, að verksmiðjan yrði af skipinu.”
Enda var það svo, að skipið hefði ekki farið á síldveiðar ef umrædd ábyrgð hefði ekki verið látin í té.
Þetta er nú, lesendur góðir, í stuttu máli það, sem Erlendur og fógeti kalla “stórkostlegt hneyksli,” “ennþá stærra hneyksli” og ég veit ekki hvað og hvað. En það er ekki látið þar við sitja að úthrópa mig, samstarfsmenn mína og framkvæmdarstjóra hér í bæ, heldur eru blaðsneplar þeir, sem þeir hafa aðgang að látnir flytja þessar “hneykslissögur” landshornanna á milli.
Þeir, sem einhverja hugmynd hafa um það, hvers, virði tvær snurpinætur og tveir snurpubátar eru geta gert sér einhverja hugmynd um, hve geigvænleg sú fjárhagslega áhætta er, sem við, vegna þessarar ábyrgðar höfum bakað Rauðku. Hrökkvi ekki handveðið fyrir víxilgreiðslunni, verður gengið að eignum þeirra Áka, Sigurðar og Steinþórs, en hrökkvi þær ekki að heldur má ganga að eignum okkar Gunnars og Ragnars, ef bærinn vill svo við hafa.
Það gefur að skilja, að ef stjórn Rauðku skuldbindur verksmiðjuna umfram það, sem heimildir standa til verður hún persónulega ábyrg fyrir þeim skuldbindingum.
Það er vitanlega ekkert nýtt þótt síldarverksmiðjur hlaupi undir bagga með útgerðarfélögum á einn eða annan hátt með ábyrgðum eða peningalánum, þótt hitt kunni að vera rétt, sem ég hefi heyrt fleygt að Síldarverksmiðjun ríkisins hafi aldrei gengið inn á þessa braut.
En ég fæ ekki séð, að hér hafi skapast hættulegt fordæmi með því að næsta sumar stendur allt öðruvísi á fyrir verksmiðjunni heldur en stóð sumarið 1945. Er óhætt að fullyrða, að verksmiðjan muni geta afkastað 7-8 þúsund málum á sólarhring sumarið 1946 og að kostnaður við að stækka verksmiðjuna upp í 10 þúsund mála verksmiðju mun ekki fara langt fram úr milljón.
Menn skildu nú halda, að þeir, sem hrópa hátt um þetta “stórhneyksli” hefðu aldrei látið sig henda sú skissa að gera sig seka í slíkt “stórhneyksli” eða verra. Við athugun á bókum síldarverksmiðjunnar Rauðku kemur í ljós, að stjórn þeirri er sat að völdum 1940 hefir, fyrir milligöngu formanns, lent sú skissa, að lána útgerðarmanni af lánuðu rekstrarfé verksmiðjunnar 8.000 krónur. Til tryggingar skaðlausri greiðslu voru hvorki veiðarfæri né persónuábyrgð, heldur síldin í sjónum.
En þá hét formaður Rauðkustjórnar ekki Aage Schiöth, hann hét Erlendur Þorsteinsson.
II
Janúarkosin stjórn - Aprílkosin stjórn
Það verður ekki séð annað en að tvö blöð hér í bæ, “Neisti” og Einherji eigi til óþrjótandi pappír og blek þegar um svokölluð Rauðkumál er að ræða. Æ ofan í æ er verið að staglast á því að stjórn sú, sem bæjarstjórn kaus 20. apríl s.l. sé ólögleg “gervistjórn.” en svo sem kunnugt er, hefir stjórn þessi haft með höndum lántökur, endurbyggingu og rekstur verksmiðjunnar frá þeim degi og fram á þennan dag.
Um þessi mál hefi ég ritað tvær smágreinar, sem hirtust í þessu blaði, og skal ekki endurtaka neitt af því, sem þar stóð annað en það, að ég er ólögfróður og tel mig ekki dómbæran á það, hvort bæjarstjórn hefir brotið lög á janúar kosinni stjórn eða hvort stjórnarráðið er að leitast við að brjóta lög á bæjarstjórninni, því hvorttveggja hefir verið fleygt. En mér er spurn:
Ef 4 af 9 kjörnum bæjarfulltrúum telja sig beitta ólögum af 5 manna meirihluti, hversvegna leita þeir þá ekki réttar síns hjá dómstólunum? Því slíkt er ekki annað en heimska ein að halda því fram, eins og gert hefir verið, að meirihlutinn hafi látið undir höfuð leggjast að framkvæma þessa skyldu sína. Og ef að svo stendur á, að dómarinn á hér hagsmuna að gæta, ja, þá sýnir undanfarin reynsla, að tök eru á að fá hingað setudómara.
En nú segir fógetinn og minnihlutinn: Úrskurður er kominn frá Félagsmálaráðuneytinu, og sá úrskurður er dómur, en meirihlutinn svarar: Skeyti ráðuneytisins er álit en ekki dómur, með því að það fjallar um málefni, sem er á valdi bæjarstjórnar að afgreiða.
Enn spyr ég sem leikmaður: Úr því ekki var hægt að fá neinn dómúrskurð hjá héraðsdómara Siglufjarðar og Reykjavíkur og heldur ekki hjá Hæstarétti er þá ekki eitthvað til, sem heitir landsdómur?
En hvað um það, samstarfsmenn mínir, framkvæmdastjóri og ég, höfum litið svo á, að ráðuneytið væri húsbóndi bæjarstjórnar en bæjarstjórn væri húsbóndi okkar og samkvæmt þessu höfum við hagað okkur. Teljum við, að í bæjarstjórn, sem skipuð er 9 bæjarfulltrúum sé það í fullu samræmi við algildar lýðræðisreglur að 5 bæjarfulltrúar ráði meiru en 4 þegar eitthvað ber á milli.
Annars skal hér sagt frá því, að mér er ekki ljóst með hverjum hætti þessi 3/5 hluti janúarkosinnar stjórnar hagar sinni “ólöglegu” starfsemi. Ekki hefir verið látið svo lítið að boða okkur Gunnar Jóhannsson á málamyndafundi þá, sem þetta nefndarbrot hefir verið að halda á lögregluvarðstofunni, hafnarskrifstofunni, úti á Hvanneyrarbraut og hver veit hvar, en hinsvegar hefir verið lögð mikil áhersla á að fá framkvæmdastjóra verksmiðjunnar til að mæta á fundum þessum, en ekki tekist.
Það væri þó synd að segja, að minnsta kosti formaður þessa stjórnarbrots hefði ekki gert eitt og annað til þess að vekja á sér athygli. Öðru hvoru hefir hann komið inn á skrifstofu verksmiðjunnar, boðið þar góðan daginn, spurst frétta, snúið sér við og horfið í sömu andránni. Þá hefir bæjarstjórninni borist bréf frá sama aðila undirritað f.h. fulltrúaráðs Siglufjarðar, en enginn, nema kannski hann sjálfur, veit hvaða ráð þetta er, ekki er það 15 mannaráðið.
Hér á eftir fer sýnishorn af einu af þessum sprenghlægilegu bréfum, sem sami aðili sendi mér persónulega:
“Á fundi janúarkosinnar Rauðkustjórnar í dag í skrifstofu Rauðku var svohljóðandi samþykkt gerð:
Rauðkustjórn ákveður að mótmæla þessum aðgerðum 20.apríl kosinnar Rauðkustjórnar og skorar á hana að afhenda framkvæmdarstjóra lykilinn, svo að ekki þurfi árekstrar að myndast milli aðilja út af öðru eins atriði.
Uppl. staðfest. Fundi slitið.
Guðmundur Hannesson
Axel Jóhannsson
Kristján Sigurðsson
Virðingarfyllst
Guðmundur Hannesson
(sign.)
Er nokkuð vit í þessu bréfi? Hvaða aðgerðir, lykil og atriði er atriði er átt við?
Annars skal ég ekki fjölyrða um samanburð á þessum nefndum, en vil taka fram að endingu, að stjórn sú, sem bæjarstjórn kaus 20. apríl s.l. hefir að einu og öllu leyti. farið með mál verksmiðjunnar hvað endurbyggingu og rekstur snertir.
Hafa lánsstofnanir og aðrir aðiljar sem undir var að sækja, svo og viðskiptamenn viðurkennt hana sem löglegan samningsaðilja. (Hér er þó rétt að geta einnar undantekningar, sem sé Axels Jóhannssonar f.h. hönd m.s. Dagný). Stjórnin hefir haft fullt umboð til að skuldbinda bæinn um lántökur vegna endurbyggingarinnar allt að 5,5 milljón króna og lántöku og veðsetningu vegna reksturs hennar innan vissra takmarka. Hefir bæjarstjóra gefist kostur á, ásamt skrifstofustjóra að sitja alla fundi og hafa þeir gert það, þegar þeir hafa getað komið því við.
Er þessa getið vegna þess, að á tímabili fyrrverandi formanns var vægast sagt ekkert gert til þess, að bæjarstjóri gæti fylgst með gjörðum stjórnarinnar nema það, að ég fékk munlegt samþykki fyrir því, að hann yrði boðaður á fundi, en því var ekki framfylgt. Tel ég, að bæjarstjóri sá, er fór með þann starfa fram til ársins 1938 hefði kunnað illa við slík vinnubrögð.
Fundirnir hafa gengið vel og greiðlega, allar gerðir nefndarinnar samþykktar með öllum atkvæðum nefndarmanna og framkvæmdarstjóra, nema 15. fundurinn, - en á þeim fundi mætti Erlendur Þorsteinsson. Var ekki annað að sjá og heyra, en að hann væri þangað kominn til þess að svala heift sinni á bæjarstjóra, enda lét hann að vanda, bóka allskonar óviðkomandi “glósur” til hans.
Ég segi að vanda, vegna þess, að eins og fundargerðarbók Rauðku, sú er bæjarfógeti heldur, ber það með sér að það var siður hans og raunar líka fógeta, að bóka skammir hver um annan á þessi pappírsblöð verksmiðjunnar.
En þá voru þeir vitanlega ekki eins góðir vinir eins og nú!
III
Endurbygging verksmiðjunnar og rekstur
Mér hefði þótt vænt um að geta birt niðurstöðutölur byggingarkostnaðar verksmiðjunnar á þessu stigi málsins, en það er því miður ekki hægt. Í næsta mánuði býst ég við, að hægt verði að gangs frá endanlegum reikningsskilum við h.f. Héðinn í Reykjavik, en eins og kunnugt er hefir þetta félag haft með höndum smíði og pöntun á flestum vélum verksmiðjunnar og annast uppsetningu þeirra að verulegu leyti.
Um afkomu rekstursins er svipað að segja, endanlegar tölur eru ekki fyrir hendi enn sem komið er. Mun stjórnin á sínum tíma leggja gögn sín þar að lútandi fyrir bæjarstjórn og er það á valdi bæjarstjórnar, hvort skýrsla nefndarinnar verður gerð heyrum kunn áður en bæjarreikningar verða lagðir fram.
Eins og ég benti á í byrjun þessarar greinar þótti sjálfsagt að leggja í verulegan aukakostnað til þess að verksmiðjan gæti tekið til starfa tímanlega sumarið 1945 en þetta hefir meðal annarra ástæðna orðið orsök þess, að verksmiðjan hefir farið talsvert fram úr áætlun. Mundi þetta þó eigi hafa komið að sök, ef sæmileg síldveiði hefði verið. En ég get huggað menn með því, að byggingarkostnaður verksmiðjunar verður alltaf mun lægri en áætlaður kostnaður við byggingu annarra svipaðra verksmiðja.
Sumarið 1945, en það er fyrsta sumarið, sem hún tekur til starfa að aflokinni endurbyggingu, berast verksmiðjunni ekki nema 13,8 þúsund mál síldar. Er auðvelt að gera sér hugmynd um, hvernig reksturs afkoma verksmiðjunnar er með slíkum aðdrætti. Stjórnin gengur ekki að því gruflandi, að framundan bíður mikið og vandasamt starf, en hún treystir því, að yfirleitt muni bæjarbúar una henni vinnufriðar og einnig þykist hún mega vænta skilnings hjá lánveitendum fyrirtækisins með því að öllum er ljóst, að slík óáran til sjávar, eins og síldarútvegur allur hefur átt við að búa síðastliðið sumar, er ekkert sjálfskaparvíti.
Hefir stjórnin samþykkt að taka ekki laun sín fyrir þessa árs starf sitt svo sem skylt var.
III
Niðurlag
Mottó:
“Hér syndum vér fiskar,” sagði hornsílið.
Það er ósköp mannlegt að ganga, með þá flugu í höfðinu, að enginn sé eins fær um að fara með umboð meðborgara sinna á löggjafarþingi þjóðarinnar eins og hann sjálfur. Og hafi maður verið svo heppinn að hossast upp í ábyrgðarmiklar og vel launaðar stöður vegna andláts tveggja heiðursmanna, -án þess að hafa nokkuð verulega til þess unnið, er ekki nema eðlilegt, að mann langi á þing, ekki síst þegar maður hefir komist þangað áður sem varamaður þess alþingismanns, sem einnig féll frá.
En tilviljunin ein er ekki nóg, almenningur á atkvæðin, sem til þess þarf og hann er oft gagnrýninn og duttlungafullur. En sú er bót í máli, að almenningur lætur oft blekkjast, og besta ráðið til þess að blekkja almenning til fylgis við sig er að staglast nógu oft á því í ræðu og riti, og ekkert sé hægt að framkvæma til almennings heilla nema í samráði við sig, og að sjálfur eigi maður frumkvæðið að flestum þeim framfaramálum sem framkvæmd hafa verið. Best að gera sig í augum almennings að einhverskonar pólitískum stórlaxi, sem syndir gljáandi og velnærður innan um alla hina fiskana:
“Lítið á mig; ég einn er fær um að fara með umboð ykkar, en til þess þarf ég að fá atkvæði. Það var ég og vinur minn frá Noregi, sem bentum Svavari bankastjóra á “kreditexport". Mér og vini mínum frá Noregi er fyrst og fremst að þakka, að byrjað var á athugun á endurbyggingu Rauðku. Ef þið meðnefndarmenn mínir þurfið að halda fund, þá getið þið haldið hann á minni skrifstofu, annan hef ég engan tíma.
Ykkur hlýtur að vera ljóst, að aldrei hefir verið annar eins útflutningur á síld og síðustu stríðsárin og ekki koma þar “fjölskyldusjónarmið” til greina.”
Kannist þið, lesendur góðir, við grammafónplötuna? - En þið vitið að flestum grammafónsplötum er hægt að snúa við og þá kemur annað lag:
“Þið eruð niðurrifsmenn Rauðku þið viljið selja Rauðku “svei ykkur þið viljið torvelda endurbyggingu Rauðku, þið viljið selja ríkinu Rauðku. Þið eruð ólögleg stjórn, ég hefi skeytið frá félagsmálaráðuneytinu í höndunum. Hættið að starfa að Rauðkumálum," fáið okkur lykilinn svo ekki þurfi að verða neinn ágreiningur.”
Það er sitt hvað gaman og alvara, en hvorttveggja fer þó oft saman. Ég hefi leitast við, með þessum línum að sýna fram á, að Rauðkumálið á, eins og flest mál broslegar hliðar, en fyrst og fremst er endurbygging og stækkun síldarverksmiðju bæjarins alvarlegt hagsmunamál bæjarbúa.
Það veltur á miklu um framtíð þessa fyrirtækis, að um það skapist fyrst og fremst vinnufriður, Ég þykist hafa styrkt fyrrverandi formann stjórnarinnar í þessu, sem og öðru, sem til hagsbóta gat orðið endurbyggingunni og ég þykist hafa látið hann njóta sannmælis í hvívetna, en með því, að ég get ekki fallist á að hann hafi gert hið sama eftir 20. apríl, vil ég að endingu leggja fyrir hann tvær spurningar:
a) Man bæjarfógetinn nokkuð eftir því, að hann hafi sjálfur, ekki alls fyrir löngu, borið fram tillögu um að bærinn seldi Rauðkuverksmiðjuna ef fyrir hana fengist 1 milljón króna? Ég veit að fógetinn er stálminnugur, en ef hann er í vandræðum vil ég gjarnan hjálpa honum.
b) Hvernig stóð á því, að bæjarfógetinn barðist ekki við hlið okkar hinna, sem vildum endurbyggja síldarverksmiðjuna árið 1939? Hvernig stóð á því, að þá taldi hann það hreinasta glapræði að ráðast í slíkar framkvæmdir?
Af hverju stafar þessi kúvending? Það er líklega ekki af því, að það hefir þótt ósigurvænlegt til fylgisauka, að leggjast á móti báðum stærstu velferðarmálum Siglfirðinga, Skeiðsfossvirkjuninni og endurbyggingu Rauðku?
Siglufjörður hefir vakið á sér eftirtekt annarra landsmanna síðustu mánuðina fyrir svo kölluð “skandalsmál". Það er ekkert nýtt, að þeir, sem skreppa í aðra landsfjórðunga séu spurðir að því, hvort “ekki sé neitt nýtt skandalsmál í Siglufirði.” sumrin kennum við aðkomumönnum um hávaðalætin í bænum en í þessum “skandölum" eiga þeir engan þátt. Hér eiga þeir bæjarbúar fyrst og fremst sökina. sem látlaust senda óhróður um meðborgara sína til blaða í Reykjavík, Akureyri og víðar.
Undanfarið hefir bærinn verið að setja í stórskuldir vegna þess, að hann hefir bjargfasta trú á framtíð atvinnulífsins hér við fjörðinn. Þess vegna er þess líka krafist af allmörgum bæjarbúum, að þeir vinni margháttuð störf í þarfir framfaramála bæjarins oft á tímum ókeypis eða fyrir titla þóknun. Nú spyr ég:
Ætlast bæjarbúar til þess að þeir fái vinnufrið eða eiga þeir að vera ofurseldir álygum og rógi pólitískra spekúlanta?
Siglfirðingar standa nú í svo miklum stórræðum, að því aðeins verður hægt að stýra bæjarskútunni fram hjá boðaföllum, að hér ríki sterkur bæjastjórnarmeirihluti. Skal hér engu spáð um það, hvaða einstaklingar og hvaða flokkar muni mynda þennan meirihluta upp úr næstu bæjarstjórnarkosningum, en eitt er víst, að því aðeins verður komið á haldfastri samvinnu milli flokka og einstaklinga, að öruggt sé, að enginn þeirra, er að samstarfinu stendur sé með falinn kuta í erminni, er hann rekur í bak samstarfsmanna sinna, hvenær sem honum þykir henta.
A. SCHIÖTH
Eftir að lokið var að rita grein þessa, hefi ég lesið. í Alþýðublaðinu þvætting og ósannindi um þessi mál, m.a. það, að ríkið sé í 2ja miljón króna ábyrgð fyrir verksmiðjuna. Ábyrgð ríkisins er að vísu ekki nema ein og hálf miljón en hvað munar Erlend & co um það, að þeir ljúgi um slíka smáupphæð?
A. SCHIÖTH |