Fréttir af Rauðkufundum bæjarstjórnar
Vegna almennings hefir Einherji ráðist í að skýra nákvæmlega frá umræðum á 2 bæjarstjórnarfundum um Rauðkumálið, svo að alþýða manna geti betur fylgst með málinu og séð, hve ástæðulaust allt uppsteyt þremenninganna er í málinu.
Bæjarstjórnarfundir hafa 2 verið haldnir um Rauðkumálið. Á fyrri fundinum var óspart beitt meiðyrðum og illindum að gömlu Rauðkustjórn, sérstaklega gegn formanni, þótt hann væri ekki viðstaddur né hefði verið boðaður.
Á seinni fundinum var hann viðstaddur og voru meiðyrðin þá færri en á fyrri fundinum.
Fundirnir voru haldnir í Alþýðuhúsinu og var húsfyllir. Var janúarkosinni Rauðkustjórn leyft málfrelsi á fundinum eins og bæjarfulltrúum. Var klappað er fjórmenningarnir (Kristján Sigurðsson, Egill Stefánsson, Axel Jóhannsson, og Ólafur Guðmundsson, á fyrri fundinum, en Gísli Sigurðsson á þeim síðari) töluðu, en einkum þó er formaður stjórnar Rauðku talaði, en alls ekkert klappað er fimmmenningarnir töluðu. Fór formaður Rauðkustjórnar einkum illa með bæjarstjórann Óla Hertervig og Þórodd.
Hér er nú ágrip af ræðum allra: Bæjarstjórinn (Ó1i Hertervig) :
“Ég álít að formann Rauðkustjórnar eigi að reka burt úr starfinu sem formann, af þessum ástæðum:
Hann hefur látið byggja Rauðku stærri, - (upp í 7-8000 mál), - en hann hefur fengið leyfi til af bæjarstjórn, og með því farið á bak við bæjarstjórnina.
Það er alveg ófyrirgefanleg yfirsjón af formanni Rauðkustjórn ar að ætla sér að fá leyfi til stækkunar Rauðku upp í 15 þúsund mál, og lántökuheimild allt að 11 miljónir króna (að meðtöldum útgjöldum til 5 þúsund mála verksmiðju), því að það gaf andstæðingum Siglufjarðar vopn í hendur til þess að sýna, að hér væru ábyrgðarlausir menn. Bara þetta eina atriði er brottrekstrarsök.”
Hann hefur sent símskeyti, Lárusi Jóhannessyni í janúar og febrúar undir nafni Rauðku, sem Rauðkunefndarmenn vissu ekki um áður en send voru.
Formaður Rauðkustjórnar hefur framið þá óhæfu að senda lánveitanda afrit af lóðasamningum þeim, sem þinglesnir eru um Rauðkulóðina, og með því farið framhjá bæjarstjórn. Hann hefur líka leitast við að fá 100 kr. ársleigusamning óuppsegjanlegan fyrir Rauðku, og þannig sett Rauðku upp á móti bænum. Er auðsætt (segir Ó.H.), að ef þarf að ganga að Rauðku er betra fyrir bæinn að vera ekki bundinn með ódýrum lóðarsamningi við kaupandann, heldur hafa dýran lóðarsamning.
Þá hefur formaður Rauðkustjórnar sennilega verið þess valdur að því, að í reglugjörðinni er ákvæði um, að ríkisstjórnin geti skipað einn mann í stjórn Rauðku (Einherji: áður hefur Ó.H. upplýst að Björn Ólafsson fyrrverandi ráð herra hafi gefið sér í skyn, að hann hafi verið því mótfallinn að setja þetta ákvæði inn í reglugjörðina og muni það þá vera pantað, og þá auðvitað af formanni Rauðkustjórnar).
Þá hefur formaður unnið sér til óhelgi með því að hafa látið í veðmálabókum tvær þriggja miljón króna veðsetningar bæjarstjóra, ná til Rauðku, sem sjálfur þáverandi bankastjóri Pétur Magnússon hafi sagt að ekki héldi. (“Ósatt” greip formaður fram í).
Egill Stefánsson:
Allar ásakanir í garð gömlu Rauðkustjórnar eða formanns stjórnarinnar eru hinar fáránlegustu. Bæjarstjórn getur ekki gert sig að athlægi með því að taka umboð af Rauðkustjórn, sem ekkert hefur til saka unnið, heldur þvert á móti unnið vel. Jafnvel þótt bæjarstjórn hefði vald til slíks, væri það ranglæti, sem bæjarstjórn væri til óvirðu að beita: Annars er Rauðku stefnt í hættu með því brölti.
Jóhann Þorvaldsson segir:
Hér er aðeins að ræða um að skipta um einn mann í nefnd.
Axel Jóhannsson grípur fram í:
“hér er að ræða um að svipta að ástæðulausu á ólöglegan hátt nefnd skipaða eftir reglugjörð, staðfestri af stjórnarráðinu, verknaður, sem laginn er til að rýra tiltrú til Rauðku og hvað segja lánveitendur við tveim Rauðkustjórnum.
Eru lánveitendur vissari um að nýkosna Rauðkustjórna sé löglegri en sú, sem stjórnarráðið hefir úrskurðað löglega. Engum er hægt að víkja úr starfi nema fram bærileg ástæða sé til, en engin ástæða hefir komið fram, og ranglæti að gera það án ástæðna, þótt löglegt væri.”
Jóhann:
Bæjarstjórnin hlýtur ávallt að ráða, hverja hún kýs í nefnd.
Axel:
Sé nefndin áður löglega kosin eftir reglugjörð, sem stjórnarráðið hefir staðfest, og úrskurður hefir gengið um, eins og hér, getur bæjarstjórnin ekki eftir geðþótta skipt um, nema Rauðkustjórn hafi reynst ómöguleg að rækja störf sín, en það hefir enginn enn sýnt fram á. Auk þess væri það óhæfa af bæjarstjórn að skipta um af ástæðulausu, þótt hún gæti það. Þessi læti um að kjósa nýja Rauðkustjórn geta auk þess stórspillt um viðskipti lánstofnana við Rauðku.”
Kristján Sigurðsson:
“Það er auðséð, að þessi fyrirhugaða kosning í Rauðkustjórn verður a.m.k. ólögleg, ef Þormóður verður endanlega úrskurðaður úr bæjarstjórn, auk þess, sem hún hlýtur að skoðast fara í kringum úrskurð félagsmálaráðherra um að gamla Rauðkustjórn sé löglega kosin. Hafa þær samþykktir ekki hingað til þótt tryggar, sem færu í kringum lögin. Þeir sem breyta vilja til um nefndina geta engar ástæður fært fram."
Síðan lét Kristján ritara bæjarstjórnar lesa upp úr gjörðabók bæjarstjórnar. þar sem bæjarstjórn heimilaði Rauðkustjórn stækkun Rauðku upp í 10 þúsund mál. Hlógu áheyrendur þá á kostnað bæjarstjóra.
Gísli Sigurðsson tók í sama streng og Kristján og benti á, hvort bæjarfulltrúarnir héldu, að það gæti komið til mála, að skipta um nefndir eftir því sem meirihluti bæjarstjórnar breyttist, eins og t.d. nú gæti átt sér stað. Gæti slíkt ekki staðist.
Ólafur Guðmundsson fór mjög illa með Þórodd á fyrri bæjarstjórnarfundinum. Rak Ólafur ósannindin ofan í Þórodd, svo að hann varð til athlægis Hnekkti hann fullyrðingum Þórodds með tilvísun til fyrri framkomu hans. Verst þótti Þóroddi þegar það komst upp um hann, að hann hefði greitt atkvæði með að selja Rauðku 1938 fyrir 139 þúsund krónur. Þrætti Þóroddur, uns komið var með bókina. Þótt þar væri bókuð samþykkt með öllum atkvæðum, þóttist Þóroddur ekki hafa greitt atkvæði.
Þormóður (forseti bæjarstjórnar):
“Formaður Rauðkustjórnar laug að lánsstofnunum og þingmönnum, er hann var að fá þá til fylgis við Rauðku.
Hann hefir aðeins fengið leyfi til þess að byggja 5 þúsund mála verksmiðju (Rauðku).
Nú gortar hann af því í Einherja, að hún verði 7-5.000 mála. Hann hefir því látið byggja án leyfis bæjarstjórnar stærri verksmiðju en leyfilegt var og er þetta svo mikil sök, að fyrir það ætti að reka hann úr Rauðkustjórninni, enda lánar Rauðku engin lánsstofnun meðan hann er formaður.
Einherji bætir við:
Á Framsóknarfélagsfundi bar hann upp á G.Hannesson, að hann hefði þegið mútur af Lárusi Jóhannessyni hæstaréttalögmanni.
Sagðist ráðgera, að G.H. hefði ekki fengið minna en sem svaraði 20.000 kr.! En ekki gat hann þessa á bæjarstjórnarfundinum, þótt á honum mætti heyra, að það væri alveg óheyrilegt að hafa G.H. í formannssæti!!
Formaður Rauðkustjórnar (G.H.) svaraði bæjarstjóra, Þóroddi og Þormóði á þessa leið:
“Allur gauragangur þremenninganna (Þormóðs, Þórodds og Ó.H.) gegn Rauðkustjórn hlýtur að vera skaðlegur bæði gagnvart lánsstofnunum og öðrum.
Fyrst kýs bæjarstjórn ólöglega nýja Rauðkustjórn, sem stjórnarráðið hefir dæmt ólöglega, en dæmt löglega janúarkosna Rauðkustjórn.
Þá finnur bæjarstjórn upp á því að reyna að fara í kringum úrskurð stjórnarráðsins með því að lýsa yfir, að hún taki umboðið af Rauðkustjórninni og kjósa nýja Rauðkustjórn.
Hljóta allir að sjá, að ef, janúarkosin Rauðkustjórn er löglega kosin og hefir ekki unnið sér til óhelgi getur bæjarstjórnin ekki rekið hana frá með því að taka af henni umboðið.
Það er aðalatriðið fyrir málið, að Rauðkustjórn fái að vinna í friði og koma upp verksmiðjunni, en þessi ólæti torvelda slíkt starf. Janúarkosna Rauðkustjórnin mun halda áfram störfum sínum eins og áður, uns kjörtímabili hennar er lokið og eigi láta af störfum fyrr.
Bæjarstjórn getur heldur ekki svipt hana umboði til þess að framkvæma venjuleg stjórnarstörf, ef hún getur ekki rekið hana frá stjórnarstörfum að ástæðulausu.
Um stækkunarleyfi verksmiðjunnar upp 15.000 mál: Þetta hefir verið samþykkt af allri Rauðkustjórn, en að vísu hafi tillagan verið frá formanni. Þetta átti svo að bera undir lokaðan bæjarstjórnarfund, svo að ekki átti það að geta verið skaðlegt. Þá var það tilætlan, að það kæmi ekki fyrir bæjarstjórnarfund, nema bæjarstjóri teldi ekkert móti því vegna annarra mála; ætlaði formaður Rauðku að ná tali af bæjarstjóra, en áður en það hafi getað orðið, hafi Lárus Jóhannesson átt símtal við sig og bæjarstjóri verið hjá Lárusi.
Sagði Lárus, að bæjarstjóri væri hræddur um, að leyfisbeiðnin gæti spillt Skeiðsfossláni, en þetta taldi formaður Rauðku fjarstæðu, en sagði, að það væri sjálfsagt að hætta í bili við stækkunarbeiðnina, því að hann (bæjarstjórinn) héldi þetta. “Gekk ég,” segir formaður Rauðkustjórnar, strax á þetta og voru Rauðkustjórnarmenn viðstaddir, er símtalið átti sér stað.
Ekki verður bæjarstjóra heldur þakkað þetta samtal, því að ég ætlaði að ná tali af honum sjálfum áður en málið kæmi fyrir bæjarstjórn.
Hversvegna, að slík stækkunarbeiðni eigi að varða brottrekstri úr Rauðkustjórn (sennilega þá á alla stjórnarmennina, sem höfðu samþykkt þetta með mér) er lítt skiljanlegt, jafnvel frá sjónarmiði bæjarstjóra, þegar flutning málsins fyrir bæjarstjórn átti að láta hann fyrst vita um, og að hætt var við það strax og hann hvatti frá því.
En svo kemur til, að þótt málið hefði komið fyrir bæjarstjóra, gat það aðeins styrkt gjaldþol bæjarins, aukið það.
Stækkunin var ráðgerð eftir stríð, Það var því ólíklegt, að rágerðar framleiðsluráðstafanir eftir stríð, þótt vitnast hefðu utan bæjarstjórnar (sem ekki var hægt nema þeir hefðu brotið þagnarskyldu sina) hefðu getað spillt fyrir Skeiðsfosslánum heldur hið gagnstæða.
Og enn eitt ótalið:
Hagnaðurinn af ársrekstri 15 þúsund mála Rauðku er áætlaður kr. 2.271.147,18 eftir að búið er að greiða tæpar 800.000 kr. í fyrningar- og varasjóði.
Af 10 þúsund mála Rauðku er árshagnaðurinn áætlaður 1.334.000 kr., eftir að 648.000 kr. hafa verið lagðar í fyrningar- og varasjóði, en af 5 þúsund mála Rauðku er árslegur hagnaður áætlaður einar 376.000 kr. eftir að lagðar hafa verið í vara- og fyrningarsjóði einar 247.500 kr.
Áætlaður árlegur árshagnaður af 15 þúsund mála Rauðku er því yfir 937.000 kr. meiri en af 10 þúsund mála Rauðku og áætlunin gefur í fyrningarsjóð um 150.000 kr. meir en 10 þúsund mála verksmiðju. Eftir áætluninni fær bærinn á ári yfir eina milljón króna meiri tekjur en af 10 þúsund mála verksmiðju.
Hvergi á landinu er hægt að stækka síldarverksmiðjur á jafn arðvænlegan hátt.
Gat það spillt fyrir Skeiðsfosslánum, að það vitnaðist til lánsstofnana og alþingis eða kaupenda ríkisskuldabréfanna, að eftir stríð hefði Siglufjarðarbær slíka möguleika?
Að vísu eru þessar áætlanir byggðar á núverandi verðlagi síldarlýsis og síldarmjöls, sem getur lækkað, en hlutfallið milli arðbæris 10 þúsund og 15 þúsund mála verksmiðju (Rauðku) breytist ekkert fyrir því. Þessi möguleikar gátu, ef vitnast hefðu, því aðeins orðið til að auka tiltrú til að lána mætti Siglufjarðarkaupstað til Skeiðsfoss. Það er því glópska af bæjarstjóra að nota ekki þessa afstöðu til áróðurs fyrir Skeiðsfosslán. Hitt bætist svo ofan á, að stækkunarbeiðni Rauðkustjórnar átti að bera undir bæjarstjóra, áður en hún kæmi.
Taldi formaður Rauðkustjórnar sjálfsagt, að engar deilur mættu verða um þetta við bæjarstjóra, hvaða skoðun, sem hann sjálfur hefði um málið að öðru leyti. Hvað er orðið úr brottrekstrarsökinni? (sem þá allir hluttakandi stjórnarnefndarmenn hefðu átt með formanni).
Formaður sagði:
“Að vera rekinn úr Rauðkustjórn fyrir að hafa Rauðku stærri en 5 þúsund mála, eins og Þormóður og bæjarstjóri telja sök, væri mér hinn mesti heiður, sem ég gæti hugsað mér. Feginn vildi ég vera rekinn fyrir það"
En svo kemur þarna eitt atriði:
Bæjarstjórnin hafði leyft að stækka Rauðku meir (upp í 10 þúsund mál) en, Rauðka verður á þessu sumri (7-8 þúsund, vonandi). Hvað verður þá úr þeirri sök?
Þá er sökin að hafa sent Lárusi Jóhannessyni símskeyti undir nafni Rauðku, án þess að bera undir aðra í Rauðkustjórn.
Málavextir eru þessir:
Þremenningarnir: bæjarstjóri, Þormóður og Þóroddur flytja, - eftir að Rauðkustjórn var kosin 17. janúar við stjórnarráðið frumvarp um kosningu í Rauðkustjórn, sem er þannig orðað, að kjósa ætti aftur í Rauðkustjórn.
En til þess höfðu þeir ekkert umboð frá bæjarstjórn, sem hafði samþykkt og sent stjórnarráðinu reglugjörð, er Rauðkustjórn hafði samið tillögur að og stjórnarráðið svo staðfesti og taldi janúarkosna Rauðkustjórn löglega.
Til þess að halda fram réttmæti þess, að Rauðkufrumvarpið væri löglegt, símaði formaður Rauðkustjórnar undir nafni Rauðku (ekki Rauðkustjórnar) tvö símskeyti.
Hér var aðeins að ræða uni rökfærslu fyrir þeirri reglugjörð, sem Rauðkustjórn hafði áður samþykkt og setja Lárus inn í málið. Taldi ég mér heimilt að senda Lárusi tvö slík símskeyti án þess að bera undir nefndina, og það því fremur, sem ég var bæði lögfræðingur og formaður.
Taldi eðlilegt, að ég væri þar í fyrirsvari fyrir Rauðkustjórninni. Önnur símskeyti hefi ég ekki sent Lárusi í nafni Rauðku.
Þá hefir Þ.E. haldið því fram, að ég í eiginnafni hafi sent símskeyti til Lárusar hæstaréttarlögmans, sem hann hafi séð, og beðið Lárus að fá Tryggingarstofnun ríkisins til þess að borga ekki út lánið til Rauðku, fyrr en bæjarstjórn léti Rauðku hafa lóðarsamninga þá, er Tryggingarstofnunin vildi fá til þess að lána Rauðku 2,5 milljón króna.
Er þetta allt tilhæfulaust, þótt Þóroddur hafi gefið Þormóði vottorð um að hafa séð símskeytið hjá Lárusi frá mér um þetta.
Það er ekki líklega skrökvað, að ég þurfi að hafa vit fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Því lygilegra var þetta - sem Rauðkustjórn vanhagaði um þetta leyti um lánið.
Bæði ég og aðrir í Rauðkustjórn gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess að fá Tryggingarstofnunina til þess að greiða lánið fyrr en hún gerði. Auk þess hefði slíkt símskeyti til Lárusar verið annaðhvort í símareikningi Rauðku eða mínum í jan.-febrúar, en vottorð skrifstofustjóra Rauðku sýna, að þar sé það ekki, ennfremur liggur fyrir símskeyti frá Lárusi um að hann hafi aldrei frá mér fengið slíkt símskeyti. Ætli sá rógburðúr að vera fallinn sínum herra.
Form. Rauðkustjórnar sagði:
“Í fyrravetur, er ég var syðra, spurði framkvæmdarstjóri Tryggingarstofnunar ríkisins mig eftir þinglesnum lóðarsamningum Rauðku, og hve ár leigan væri há.
Ég sagðist ekki muna það, hringdi svo upp fulltrúa embættisins og fékk að vita um þetta og tjáði framkvæmdastjóra.
Áður en ganga átti frá láninu biður hann mig um afrit af þinglesnum lóðarsamningum Rauðku og fær þau að sjálfsögðu.
Þetta kallaði bæjarstjóri á fundinum, að formaður Rauðku hefði með þessu farið á bak við bæjarstjóra. Benti formaður Rauðkustjórnar á að hann afgreiddi staðfest afrit þinglesin sem embættismaður, en ekki sem formaður Rauðkustjórnar, og hvort heldur hefði verið væri ekki með þessu hægt að segja að farið hefði verið á bak við bæjarstjórn.
Það mundi auk þess reynast svo, að eftir því sem lóðarsamningar væru ódýrari og til lengri tíma væri auðveldara að fá lán fyrir Rauðku.
Hitt væri fjarstæða, að það hjálpaði nokkuð bænum, ef gengið yrði að Rauðku, að hafa leiguna háa. Ef gengið yrði að Rauðku og hún hrykki ekki til lúkningar má ganga að öllu, sem bærinn á, þar á meðal hinu háa leigugjaldi til bæjarins, en það er líkast sem bæjarstjórinn sé að byrla sér inn, að aldrei væri hægt að ganga að lóðargjaldi Rauðku til bæjarins.
Því lægra sem lóðargjaldið væri, sagði formaður, því meira yrði boðið í Rauðku og því minna boðið í Rauðku sem lóðargjaldið væri hærra.
Hinsvegar á Rauðka í framtíðinni, þegar hún er búin að borga hóflega niður skuldir sínar, að hjálpa bænum eftir föngum og það miklu meir en nemur venjulegu lóðargjaldi.
Tekur út yfir, að bæjarstjóri skuli ekki skilja þetta. Ég er því ekki, segir formaður Rauðku, að setja Rauðku upp á móti bænum, þótt ég vilji lága leigu, heldur eru mótstöðumennirnir fremur fávíslega að setja bæinn upp á móti Rauðku.
Þá er þetta líka fremur óheppilegt fyrir bæjarstjórann, að vera að blása út þennan lóðargjaldsmismun skilning sinn, því að hann hefir “leigt” alla Rauðku - ef svo má að orði kveða - þar af leiðandi líka landið undir henni og Gránu m.fl., sem ekki kemur þessari deilu við, fyrir 30 aura á hvert síldarmál, miklu hærri leigu en margfalt venjulegt lóðargjald.
Samningur, sem bæjarstjóri hefir undirritað við Rauðkustjórn 28. september s.l. hljóðar m.a. svo:
“Bæjarstjórn afhendir hér með Rauðkustjórn hina svokölluðu Rauðkueign og Gránueign.” Lóðin er helsti hluti “Rauðkueignar” og “Gránueignar.” Annað mál er hitt, eins og ég hefi svo oft bent á, ef bærinn þarf og Rauðku gengur vel á hún ávallt að hlaupa undir bagga með bænum, en hvers vegna er bæjarstjórinn með þessa lóðarleiguþvælu?
Þá eru það tilhæfulaus ósannindi að ég, segir formaður, eigi nokkra minnstu sök á því, að ríkisstjórnin hafi sett inn í reglugjörðina ákvæði um að skipa sjötta manninn í Rauðkustjórn. Hafa andstæðingarnir ekki reynt að fá fyrir því hina minnstu sönnun.
Þá hefir bæjarstjóri sagt, sagði formaður Rauðku, að ég hafi gert það til þess að ná mér niðri á sér að láta tvö þriggja milljón króna verðbréf fyrir Skeiðsfossláninu til Rauðku!
Ó.H.:
“Ég hefi aldrei veðsett Rauðku fyrir Skeiðsfossláninu” og Pétur Magnússon, þá bankastjóri. sagði svo bæjarfógeti heyrði, að það mundi aldrei halda, að Rauðka væri með þessu veðsett.
Formaður Rauðkustjórnar svaraði:
“Þetta er allt tilhæfulaust, sem bæjarstjóri talar um ummæli Péturs Magnússonar í minni nærveru. Ég hefi aldrei heyrt hann segja nokkuð í þá átt.
Annars er það nokkuð langt gengið af bæjarstjóra, gegn dómara, að fullyrða, að dómari í embættisverki sínu, eins og afgreiðsla þinglesturs á veðskjali er, skuli afgreiða skjalið ranglega - að því er bæjarstjóri telur - til þess að ná sér niðri á bæjarstjóra!
Þetta verður enn óviturlegra fyrir bæjarstjórann þegar það er athugað, að þetta kemur verst niður á Rauðkustjórn sjálfri, ekki síst á formanni Rauðkustjórnar og gerir honum erfiðara að fá lán til Rauðku.”
Bæði bæjarstjóri og formaður Rauðku reyndu árangurslaust að fá yfirlýsingu Fjármálaráðuneytisins um að Rauðka væri ekki í veðböndum fyrir umræddum tveim þriggja miljón króna lánum fyrir Skeiðsfoss, réttara sagt:
Reyndu að fá eftirgjöf á þeim 6 miljón króna veðböndum á Rauðku, sem bæjarstjóri telur ekki vera til.
Þetta veit bæjarstjóri. Því er hann með þessi ósannindi og dellu.? “Rauðka” greiðir í ársleigu 30 aura á hvert mál síldar, sem Rauðka kann að taka á, móti árlega." Eftir því á Rauðka enga lóðarleigu að greiða, háa eða lága.
Hvers vegna skyldi ráðuneytið hafa haldið fast við, að bæjarstjóri hefði með bréfum þessum veðsett Rauðku, ef það hefði ekki verið óvéfengjanlegt?
En hér þarf engan lögfræðing til þess að skilja ákvæði veðbréfanna, þar sem bæjarstjórinn verðsetur Rauðku. Hver heilvita maður getur séð það og skilið, hvort bæjarstjórinn hafi ekki veðsett Rauðku fyrir 6 milljónum til Skeiðsfoss!
Í fyrra þriggja milljóna bréfinu, frá 31. júlí 1943 stendur: “til tryggingar” ríkisábyrgð þriggja milljóna króna, veðsetur bæjarstjórinn eftirtaldar eignir, sem eru taldar upp, og svo kemur: “auk þess standa til tryggingar þessari ábyrgð ALLAR eignir bæjarins.”
Skyldi Rauðka ekki vera eign bæjarins?! Og í veðbréfum frá 9. des. s. ár fyrir seinna þriggja milljónaláninu stendur: “Auk þess standa til tryggingar þessari ábyrgð allar AÐRAR eignir bæjarins.” Er Rauðka þá ekki eign bæjarins?
Hvernig er hægt að álíta, að með þessu 6 milljón króna veðböndum á Rauðku sé Rauðka ekki veðsett?
Þá segir bæjarstjóri mjög borginmannlega þessa dæmalausu athugasemd, er lengi mun lifa: “Það er allt annað í veðbréfi að vera veðsett eða vera til tryggingar.”
Þótt eitthvað sé til tryggingar er það ekki veðsett. (Mikill hlátur um allan salinn) Ætli hann sé ekki eini bæjarstjórinn í heimi, sem heldur því fram, að trygging sé annað en veðsetning?!!
“Ég lofaði þeim því fyrir sunnan!”
Þegar Sjálfstæðismenn á fundi inntu bæjarstjóra eftir því, hvers vegna, að hann væri að beita sér fyrir þessu brölti með Rauðku, og hvað hann hefði út á formann Rauðku að setja, því frambornar ástæður væru einskisvirði, svaraði hann: “Ég lofaði þeim því fyrir sunnan!!”
Flokksmenn hans spurðu hann þá nánar, hverjum “fyrir sunnan” hvort það væri ríkisstjórninni t.d.
Hann svaraði nei, en gaf í skyn, að hann hefði lofað því Sveini Ben., Þormóði og Þóroddi! - Finnst mörgum Sjálfstæðismönnum fátt um, ef Sveinn, Þormóður og Þóroddur færu að ráða gjörðum bæjarstjóra Siglufjarðar í bæjarmálefnum.
En það eru ábyggilega fleiri Siglfirðingar en Sjálfstæðismenn, sem finnst fátt um, ekki síst þegar Sveinn Benediktsson er farinn að fyrirskipa um málefni Siglfirðinga.
Hvað er á bak við það?
Og bæjarstjóri er í Reykjavík á kostnað bæjarbúa, við að skapa þetta öngþveiti í Rauðkumálinu, er hugsast gæti orðið til þess, að ríkið tæki Rauðku af bænum (þótt það væntanlega verði ekki)
Siglfirðingar! Fylkjum okkur um Rauðku, hvar í flokki sem við stöndum, með því að fylkja okkur um gömlu Rauðkustjórnina, sem borið hefir hita og þunga endurbyggingarinnar. Hristum af okkur þremenningana, forsprakka illdeilnanna um Rauðku.
Á fyrri bæjarstjórnarfundinum las Þóroddur upp yfirlýsingu, (sem Axel Jóhannsson hafði fengið honum og spurt Þ.G., að hvort innihald hennar væri ekki rétt eftir honum haft) fyrir fullu húsi, og kvaðst Þóroddur hafa sagt við Axel Jóhannsson bæjarfulltrúa á þessa leið:
“Heldur þú, að Guðmundur Hannesson hafi borgað (eða borgi) Lárusi Jóhannessyni 90 þúsund krónur nema að fá eitthvað af því sjálfur?
Ég fyrir mitt leyti er viss um, að Guðmundur Hannesson hafi fengið eitthvað af þessum peningum, en auðvitað er ekki hægt að sanna það."
Formaður Rauðkustjórnar svaraði þessu:
"Ég hefi ekkert samið við Lárus umfram það, sem gerst hefir á fundum. Hann hefir enn fengið aðeins helminginn, 1%, og það aðeins þannig, að framkvæmdarstjóra var falið að greiða honum þetta eftir að hafa leitað álits þekkts lögfræðings, í Reykjavík.
Ef ég er sekur um greiðslu til Lárusar eru þeir það eins, sem hafa samþykkt fundargjörð Rauðku um umboðsmennsku Lárusar.
Ásökunin um, að ég hafi þegið mútur í málinu mun verða sótt á öðru vopnaþingi.
Hefði sú ásökun átt að bíða uns Rauðka væri komin upp, því að það spillir fyrir Rauðkustjórn og Rauðku sjálfri, ef hún hefði slíka stigamenn í stjórn.
Í sumar væri hægt að taka slíkan mann í hnakkann. Lárus færi varla að sverja rangan eið til þess að losa mig undan þessari ásökun.
Einherji getur bætt við:
Á Framsóknarfélagsfundi flaug út úr Þormóði, að Lárus mundi ekki hafa borgað G.H. minna en 20 þúsund kr.
Hafa slíkar sögur - einkum frá Þóroddi - fyrir alllöngu hlaupið um allt héraðið. Sjá allir til hvers refirnir eru skornir.
Einherji telur sjálfsagt, að svona sakir séu rannsakaðar og sannleikurinn látinn koma í ljós og mun G.H. þess fús.
En Siglfirðingar! Er það ofsögn hjá Einherja, að Rauðka kæmist ekki upp, ef öll stjórnin hefði ekki unnið, eins og hún gerði, með formanni og framkvæmdastjóra. - og svo eiga þakkirnar að vera ósannar dylgjur um mútur og sviksemi hjá formanni.
Öll gamla Rauðkustjórnin á þakkir skyldar fyrir starfsemi sína, sem hefir verið hin besta og þýðingarmesta.
En hvaða þakkir eiga mannorðsþjófar að fá? |