Útsvarsfrelsi | Saga Rauðku | Rauðku-raunir | "Stóra hneisklið" | Erlendur, fógetinn og | Aflaskýrsla | Vinna verður að... | Atvinnuleysið og .. | "Þrenningin" | Norðurlandssíldin | Lánsábyrgðin | Opið bréf til Aage Sch. | Fyrirspurn svarað | Lýsisheslustöð Einherji | Niðurrifsöfl | Fréttir af fundi | Úrskurður ráðherra | Aftur rennur lygi ... | Enn um úrskurðinn | Falkurábyrgðin | Aumingja Schiöth | Niðursuðuverksmiðjan | Yfirgangur SR | Þóroddur og lýsisgeymar

>>>>>>>>>>> Aumingja Schiöth

 

Til forsíðu
Til baka




Ljósmyndasafn Steingríms
á netinu.

Steingrímur Kristinsson Siglufirði
G-892-1569
S-467-1569

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einherji 11. nóvember 1945

AUMINGJA SCHIÖTH kemst í óþægilega mótsögn við sjálfan sig og víða í langlokugrein í 41. tölublaði Siglfirðings, út af Rauðkumálinu, enda telja jafnvel kunningjar hans, að greinin sé að mestu skrifuð af öðrum.

 

Hún er a.m.k. víða rætnari en búast má við af manni eins og honum, sem talinn hefir verið drenglyndur, þótt kappsfullur væri.

 

Hann telur janúarkosna Rauðkustjórn hafa verið löglega kosna, en af því að hún sé undirnefnd, geti bæjarstjórn vikið henni frá, þegar hún vilji.

 

Hann gleymir því, sem Einherji hafði minnt hann á, að janúarkosin Rauðkustjórn væri kosin eftir sérstakri reglugjörð staðfestri af stjórnarráðinu með kjörtímabili eitt ár.

 

Fyrr en það kjörtímabil er liðið gat bæjarstjórn ekki breytt til um löglega kosningu Rauðkustjórnar, nema þá með því að breyta reglugjörðinni með samþykki ráðuneytisins, en það var ekki gert. Ætti þetta að vera auðskilið mál.

 

En svo kemur hér til í viðbót, að dómsmálaráðuneytið hefir úrskurðað, að janúarkosin Rauðkustjórn væri lögleg, en sú aprílkosna ekki.

 

Þessum úrskurði bar bæjarstjórn að hlýða, en hún gat lagt hann fyrir dómstólana og reynt að fá honum breytt, en bæjarstjórn gerir hvorugt. Hún hvorki hlýðir úrskurðinum né fær honum breytt hjá dómstólunum, heldur hefir hann að engu og vísar til sinna "færu" lögfræðinga, eins og þeir væru eitthvað æðra stjórnarvald!

 

Ráðuneytið er æðra stjórnarvald en bæjarstjórnin og í siðuðu þjóðfélagi verður óæðra valdið að hlýða því æðra, uns úr sé skorið af enn æðra stjórnarvaldi á löglegan hátt, í þessu tilfelli af dómstólunum.

 

Þessa hefir meirihluti bæjarstjórnar ekki gætt, heldur látið Þormóð og kommana narra sig til þess að brjóta þessa sjálfsögðu reglu.

 

En engu líkara er, eftir grein Schiöth, en að hann skilji ekki þessa mikilvægu reglu, hvers siðaðs þjóðfélags.

 

Maður hefði nú getað trúað kommunum til þess, að þeim flökraði ekki við að rísa gegn úrskurðum ríkisvaldsins án þess að fá þeim breytt á löglegan hátt eða a.m.k. gera tilraun til þess.

 

Hitt þótti ótrúlegra, að bæjarstjóri, sem væri Sjálfstæðismaður, léti narra sig út í slíkt ævintýri, og að jafnheit Sjálfstæðiskempa og Schiöth okkar skyldi gerast skósveinn þess óheillavættis, er þannig flekaði Sjálfstæðishetjurnar tvær.

 

Hinn greindi kommúnisti Gunnar Jóhannsson sagði líka um þetta á bæjarstjórnarfundi:

 

“Við gerum þetta til þess að kljúfa borgaraflokkana.” Er það út af fyrir sig athyglisvert og sýnir m.a. stjórnmálahyggindi bæjarstjórans og Schiöth, en hitt er enn verra, ef það kynni að draga dilk á eftir sér fyrir bæjarstjórnina í öðrum málum, ef henni yrði ekki trúað fyrir því að ráða málum sínum innan þess réttarsvæðis, sem henni að lögum, er afmarkað.

 

Blaðið vonar, að svo margir sanngjarnir og vitrir menn megi hér eftir jafnan skipa bæjarstjórn Siglufjarðar, að við slíku sé ekki hætt, en hinsvegar er rétt að leggja niður fyrir sér, hverjar afleiðingar það getur haft fyrir bæjafélagið í framtíðinni, ef oft er höggvið í sama óheilla knérunn heimskulegra ofbeldisverka.

 

Mun bæjarstjórinn og Schiöth varla græða á frekari umræðum, en eigi verður því neitað, að fullhugi er Schiöth að fara með slíkum rökum að hreyfa þessu máli aftur og tæplega mun flokkur hans kunna honum þakkir fyrir.
 

Er svo útrætt um þetta mál af hendi Einherja