Opið bréf til Aage Riddermand Schiöth
Í 38. tölublaði Siglfirðings birtir þú ritsmíð mikla undir fyrirsögninni “Rauðkuverksmiðjan.” Vegna fyrirsagnarinnar mætti ætla, að þú hefðir fundið þig knúðan til þess að gefa almenningi nokkrar upplýsingar um stofnkostnað og rekstursafkomu þessa fyrirtækis, sem þú segist hafa stjórnað síðan 20. apríl s.l.
Svo er þó ekki. Þar fyrirfinnast engar upplýsingar um þau efni, þó að reyndar virðist mál til komið, að almenningur fái vitneskju um hversu þeim er háttað.
Tilefni þessarar greinar þinnar virðist það eitt, að verja gerræði og hneyksli aprílkosinnar Rauðkustjórnar, er hún gekk í 130.000 króna víxilábyrgð fyrir félag þeirra Þórodds og Áka.
Þungi almenningsálitsins hefur gert þér órótt. Kommúnistar skildu hneykslið og höfðu vit á að þegja. En einhver varð að reyna að gera hreint.
Þeir völdu þig til þess. Þú varst ánægður með að hafa forystuna. Þess skyldir þú þó minnast, að til er málsháttur um þá, sem att er út í ófæruna. Ég veit, að þú kannt hann. Þess vegna er óþarfi að prenta hann.
AF HVERJU ERTU SVONA OFSALEGA REIÐUR
Næsti tilgangur með grein þinni virðist vera sá, að staðfesta á prenti þær skoðanir, sem þú hefur á mér og veita til mín nokkru af persónulegum skömmum. Það sýnir sig fljótt á stílsmáta greinarinnar, lauslopa hennar og orðfæri, að þú hefur verið reiður, ofsalega reiður, hamslaus af reiði.
En hvers vegna? Jú, þér ferst líkt og pöróttum strák, sem framið hefur ódæði, sem hann treystir, að ekki komist upp. Þegar upp kemst verður hann hamslaus af reiði.
Ekki fyrir það að hafa framið strákaparið, heldur af því að það skyldi komast upp. Og reiði hans bitnar ekki fyrst og fremst á sjálfum honum fyrir að fremja þennan heimskuverknað, eða gagnvart þeim, sem töldu hann á að gera það heldur bitnar reiði hans á þeim, sem kom verknaðinum upp.
Alveg sama er með þig. Þér finnst að ég hafi ljóstrað þessu upp. Þess vegna bitnar reiði þín fyrst og fremst á mér. Ef þér hefur sjálfum verið ljóst, hvað þú varst að gera þegar þú skrifaðir upp á 130 þúsund króna „plaggið" hefðirðu áreiðanlega gert ráð fyrir, að það kæmist ekki upp. Það sýna bókanirnar á bls. 17. Kem ég að því síðar.
ÞRÍR ÁFANGAR
Úr því, að þú minnist á þátttöku þína í Rauðkustjórn og störf þín þar, er ekki úr lagi að rifja það nokkuð upp. Þessu starfi þínu má skipta í þrjú tímabil eða áfanga. Það fyrsta hefst 1938. Þá ert þú kosinn í stjórnina ásamt mér og Sveini Þorsteinssyni. Þegar til þess kom, að bærinn ætti að fara að reka verksmiðjuna, og átti að fara að taka reksturslán, neitaðir þú að skrifa upp á fyrsta víxilinn.
Bankinn, sem lánaði reksturslánið taldi að öll stjórnin þyrfti að skrifa upp á víxilinn samkvæmt umboði því, er bæjarstjórnin hafði veitt Rauðkustjórn.
Ég þurfti þess vegna að fá bæjarstjórnarfund til þess að breyta umboðinu og lýsa yfir því, að undirskrift okkar Sveins væri nægjanleg til þess að skuldbinda verksmiðjustjórnina.
Þetta gerðir þú á þeim tíma, sem verksmiðjunni var nauðsynlegt rekstursfé til þess að standa við skuldbindingar sínar. En mikið hefur þér nú farið fram síðan með viljugheit, að skrifa upp á allskonar víxla fyrir Rauðkustjórnina.
Annað tímabilið hefst rétt eftir áramótin 1944. Þú varst þá kominn í verksmiðjustjórnina aftur eftir langa hvíld. Og eftir því, sem þú segir, fyrir atbeina fógetans og 15 manna ráðsins. Þú varst kosinn formaður af þáverandi meirihluta verksmiðjustjórnar.
Undirbúningur að stækkun verksmiðjunnar stóð fyrir dyrum. Til þess að vinna að þeim undirbúningi var nauðsynlegt, að formaður verksmiðjustjórnar færi til Reykjavíkur. Allir voru sammála um það, nema þú. Þú heimtaðir, að fógetann færi með þér.
Þér fannst ekki, að þú komast af án hans í þetta ferðalag. Ég taldi þetta óþarfa og sömuleiðis tveir aðrir stjórnarmeðlimir. Þetta gast þú ekki þolað og sagðir af þér formensku. Svo mikið fannst þér þá liggja við að hafa fógetann með þér, til þess að vinna að undirbúningi málsins.
Þar með má segja, að ljúki öðru tímabili þínu í Rauðkustjórn, þó að þú reyndar starfaðir sýnilega með mestu ánægju undir forystu Guðmundar Hannessonar þar til 20. apríl s.l. En þá hefst hið þriðja tímabil. Því er ekki lokið enn.
Frá áramótum til 20. apríl gerast þó ýmsir skrítnir viðburðir. Í fullu samráði við þig, að því er best verður vitað, var kosin ný Rauðkustjórn 17. janúar 1945. Allir mættir bæjarfulltrúar voru sammála.
Fundur var haldinn í hinni nýkjörnu stjórn. Í henni áttu sæti sömu menn og áður. Þú gekkst til kosninga og kaust sem formann Guðmund Hannesson. (Hér má skjóta því inn, að eftir tveggja daga umhugsunarfrest, er þá sagðirðu af þér formennsku, þá kaust þú Guðmund Hannesson fyrir formann.)
Samkomulag virtist hið besta. Þegar þremenningarnir, Hertervig, Þormóður og Þóroddur, komu heim og vildu skipta um stjórn, vegna persónulegrar óvildar til Guðmundar Hannessonar, vildir þú ekkert af því vita.
Taldir þú sem rétt var, að allar ýfingar í verksmiðjustjórn, og deilur um verksmiðjuna, mundu skapa henni tortryggni og vandkvæði út á við. En eftir 20. apríl virðist þú skipta um skoðun.
Ekki mundi formannsstaða að nýju hafa freistað þín? Það var jú alveg búið að ganga frá öllum undirbúningi að byggingu verksmiðjunnar. Semja um útvegun og smíði véla, útvega lán og hvað eina. Þess vegna voru öll líkindi til þess, að formaðurinn kæmist til Reykjavíkur aðstoðarlaus, og þyrfti ekki að segja af sér formennskunni, þó að einhverjir slæmir menn í verksmiðjustjórn neituðu um “barnfóstru” til fararinnar.
SEGIRÐU NÚ ALVEG SATT?
Þú segir í grein þinni, að Útvegsbankinn hafi verið búinn að ákveða að kaupa 130.000 kr. víxil af Siglunesinu og til tryggingar ábyrgð 3ja manna. Þess vegna hafi verið farið fram á við stjórn ,,Rauðku" að hún ábyrgðist greiðslu þessa, með allt að 40% af afla skipsins.
Ertu nú alveg viss um, að þetta sé alveg rétt? Heldurðu ekki, að hitt sé nær sönnu, að Útvegsbankinn hafi verið búinn að neita um þetta lán? Og hvernig var hægt að veðsetja veiðarfæri og báta, ef félagið átti ekki þessa hluti?
Hversvegna var ávísað 10% af afla skipsins til snuprubáta Jóns Sveinssonar, ef Siglunesið átti þá? Hitt er svo tvímælalaust rangt hjá þér, að einungis hafi verið farið fram á, að þið ábyrgðust þessa lánveitingu með andvirði af 40% afla skipsins.
Ef það hefði verið rétt, hefðuð þið aldrei átt né þurft að skrifa upp á víxilinn. En á þessu virðist þú engan mun skilja, og kem ég síðar að því.
Það var beinlínis gert að skilyrði fyrir lánveitingunni að svo yrði gert. Þú ert ákaflega hrifinn af því, hversu mikils virði séu tvær nætur og tvennir snurpubátar.
Og rétt er það, það er mikils virði ef það er nýtt. En það skyldi nú aldrei vera svo, að aðrir bátarnir, sem veðsettir voru hafi verið þeir sömu, sem Þórhallur Björnsson hætti við að tjarga, eftir að sérfróðir menn höfðu sagt honum, að enginn skipstjóri mundi fara með þá á síld.
Hinir voru líka gamlir. Ætli það hafi ekki líka verið farið mesta nýjabragðið af nótunum, ef að Pétur Njarðvík hefur veitt leyfi til að veðsetja þær, sem aldrei voru greiddar að fullu.
HVERN ÁTTI AÐ BLEKKJA EÐA SVÍKJA?
Þú segir, að þér hafi verið ljóst, meira að segja fulljóst, að Rauðkustjórn, hafði ekki umboð til pens að gera þessa skuldbindingu. Til þess skorti hana umboð frá bæjarstjórn.
Þú talaðir við fjóra bæjarfulltrúa, þar á meðal bæjarstjóra. Hverjir voru þessir fjórir? Það skyldu þó ekki hafa verið, auk bæjarstjóra, þeir Þóroddur, Gunnar og Ragnar? Tími var ekki til að halda bæjarstjórnarfund segir þú.
Er ekki hitt réttara, að þið hafir talið vonlaust að fá þetta samþykkt í bæjarstjórn, þar sem Þormóður ekki vildi fylgja ykkur að málum? Þess vegna tókuð þið þann kostinn, að gera þetta í heimildarleysi.
En ef þér hefur verið ljóst, að þið gerðuð þetta í heimildarleysi, hlýtur þér líka að hafa verið ljóst, að með uppáskrift ykkar hlutuð þið að blekkja eða svíkja einhvern af þeim aðilum, sem treystu því, að þið hefðuð leyfi til þess að ábyrgjast lán þetta fyrir verksmiðjunnar hönd.
Átti að svíkja bæinn til þess að samþykkja þessa ábyrgð eftirá? Var það gert vitandi vits að blekkja Útvegsbankann, sem hafði neitað að veita þetta lán nema með ábyrgð Rauðku? Eða er verið að blekkja félagið, sem lánið tók með því að veita því einskisverða ábyrgð?
BÓKUNIN Á bls. 17
Þú ert ákaflega hreykinn af því, að ekki hafi nú verið farið leynt með þessa ábyrgð. Birtir þú í þessu sambandi bókun, sem þú segir, að sé á bls. 17 (ekki vantar nákvæmnina.) En fyrri hluti þessarar bókunar er svo:
”Samþykkt með öllum atkvæð um að ábyrgjast gagnvart Útvegsbankanum ávísun á 40% afla m.s. Siglunes á í hönd farandi síldarvertíð allt að 130 þúsund krónur”
Þetta segir þú, að sé sönnun þess að engu hafi verið reynt að leyna. En þetta er þveröfugt. Þessi bókun segir nefnilega allt annað, heldur en það, sem gert var.
Hún nálgast það að vera fölsun, ef húm ekki er það beinlínis. Þessi bókun segir, að verksmiðjustjórnin ábyrgist 40% af afla skipsins, - sennilega þess hluta, sem seldur var verksmiðjunni til bræðslu - allt að 130 þúsund krónur, - 40% af afla þó aldrei meira en 130 þúsund krónur.
Hér er ekkert minnst á uppáskrift á víxil. Hér er ekkert minnst á neinar tryggingar eða einkaábyrgðir. Hér er einungis um það að ræða að sjá um, að Útvegsbankinn fái 40% af andvirði aflans, um leið og það fellur til, en þó aldrei yfir ákveðna upphæð.
Samkvæmt þessari bókun var um enga áhættu eða ábyrgð að ræða, aðra en þá að skila þessum peningum til bankans. En hvað gerðuð þið?
Jú, þið fáið stimpil verksmiðjunnar framan af skrifstofu, og skrifið upp á 130 þúsund króna víxil. Þessi bókun virðist því beinlínis gerð til þess að dyl,ja það, að verksmiðjustjórn hafði gengið í ábyrgð sem hún samkvæmt þinni eigin játningu hafði enga heimild til.
Lengra var ekki hægt að ganga til þess að leyna þessu. En svo segir þú, að engin leynd hafi verið. Skilur þú virkilega ekki muninn á þessu tvennu? Eða heldur þú, að þér takist að blekkja almenning, sem er lítt vanur þessum hlutum, með því að halda svona endileysu fram.
Bæjarstjórnarfundur var ekki haldinn vegna þess, að það varð að leyna þessu og líka vegna hins að þið höfðuð ekki meirihluta í bæjarstjórninni til þess að samþykkja þessa ábyrgð. En þú hefur sjálfsagt einnig skilið, að ekki mundi sigurvænlegt að ganga til lánsstofnana og fá viðbótarlán eftir að slík ráðsmennska með fjármuni þeirra var orðin á vitorði almennings.
„ÞAÐ ER LÍTIÐ SEM HUNDSTUNGAN FINNUR EKKI,” segir gamall málsháttur.
Og datt mér hann í hug þegar þú kemur með stóru “bombuna” um 8.000 krónurnar, sem ég átti að lána 1940.
En hér hagræðir þú enn sannleikanum og beinlínis skrökvar þó að þú berjir þér á brjóst annað veifið og þykist vera sannleikans postuli. Þú hefur ekkert fyrir þér í því að þetta lán hafi verið veitt fyrir mína milligöngu.
Ég var fjarverandi - á Alþingi - þegar þetta var afráðið. Það, sem þú hefur fyrir þér í þessu, er að ég í maí 1940, sendi verksmiðjustjórn símskeyti um það, að ég hafi tekið við þeim skilríkjum, sem hún heimtaði til tryggingar fyrir láni þessu.
Ef það er sama og að hafa milligöngu um lán, er þér óhætt að fara heim og læra betur. Hér gerði ég ekki annað en að framkvæma sjálfsagða fyrirgreiðslu, sem verksmiðjustjórn óskaði eftir.
Það eru hrein ósannindi, að þetta lán hafi verið veitt af rekstursfé verksmiðjunnar. Verksmiðjan hagnaðist allverulega árið 1939, og gat lánað þetta af eigin fé. Þá segir þú einnig sannleikann þannig, að hann verður allt að því lygi, þegar þú talar um lán til útgerðarmanns, vegna þess, að lánið var veitt til tveggja skipa.
Til annars 3.000 krónur en hins 5.000 krónur. En nú skulum við að gamni, bera þetta saman við lánveitinguna eða ábyrgðina til Sigluness. Fyrra skipið setti í tryggingu 50% af afla. Hið síðara einnig. Fersksíldarverð var 12 kr. Verksmiðjan fékk því 6 krónur af hverju máli sem þessi skip fiskuðu. Það fyrra þurfti því að fiska 500 mál til þess að greiða skuldina að fullu, en hitt skipið 850.
Með öðrum orðum. Hvorugt þurfti eitt fullfermi til þess. En Siglunesið þitt þurfti hvorki meira né minna en ca. 18.000 mál - átján þúsund mál - eða 10 til 12 fullfermi. Og þessa upphæð lánaðir þú af lánsfé bankanna, sem sumpart var fengið með ábyrgð ríkisins. Er það ekki von, að þú sért hreykinn!!
HEIMSPEKILEGAR HUGLEIÐINGAR OG RAUNHÆFAR UPPLÝSINGAR.
Ég held ég verði að mestu að sleppa II. kafla ritgerðar þinnar, þar sem þú ræðir mjög háfleyglega um ýmis efni og dóma.
Ég er ekki vel sterkur á svellinu í heimspekilegum hugleiðingum. Þú verður þess vegna að fyrirgefa þó að ég skilji ekki allar hugleiðingar þínar um hina ýmsu dóma, sem þú þar talar um. En mér finnst þó einhvern veginn, að þú hafir tekið þann kostinn að beygja þig undir þann dóminn, sem síst skyldi, nefnilega dóm einræðis og ólöghlýðni.
Er það e.t.v. næst skapferli þínu. En ekki skil ég heldur hversvegna þú hefur svona ,,flotta" fyrirsögn fyrir III. kafla “Endurbygging verksmiðjunnar og rekstur”
Þar er nefnilega ekkert nema fyrirsögnin og svo upplýsingar um það, að eiginlega vitir þú ekkert um byggingarkostnað og ekkert um rekstursafkomu.
Allir bæjarbúar verða síðan að gera svo vel og bíða bar til þér þóknast að vita eitthvað um þessa hluti. Þó að þú getir ekkert fullyrt um stofnkostnað, segir þú samt á öðrum stað, að stækkun upp 10 þúsund mál kosti aldrei yfir milljón króna.
En hvernig getur þú staðhæft þetta, ef að þú ekki hefur hugmynd um hvað verksmiðjan kostar nú. Á einum stað segir þú “Um afkomu rekstursins er svipað að segja (þ.e. eins og um stofnkostnað), endanlegar tölur eru ekki fyrir hendi enn sem komið er.” En á öðrum stað litlu síðar segir svo:
“Er auðelt að gera sér hugmynd um, hvernig rekstursafkoma verksmiðjunnar er með slíkum aðdrætti.” þetta er víst það, sem þú kallar að gefa haldgóðar upplýsingar um endurbyggingu og rekstur verksmiðjunnar!!
Það er svo sem auðséð, að hugurinn hefur verið annarstaðar, og að tilgangur inn með þessum skrifum þínum, hefur verið allur annar en sá, að upplýsa bæjarbúa um það, hvernig gengi með þetta stóra fyrirtæki þeirra.
Reyndar kemur þú því að, að þið i stjórninni hafið nú sýnt það göfuglyndi!! og þá miklu sjálfs afneitun að taka ekkert fyrir stjórnarstörfin í sumar. Ja, ekki er nú samviskan í of góðu lagi. Hverju skyldi það muna fyrir jafn stórt fyrirtæki og “Rauðku” hvort hún greiðir stjórnarlaun eða ekki. Það er ekkert atriði í rekstri verkamiðjunnar.
En hitt er miklu meira um vert, að henni sé stjórnað þannig, að gagn verði að, en ekki á þann hátt að valdi fyrirtækinu álitshnekki og miska. En ykkur kann að finnast það “billeg” auglýsingarstarfsemi fyrir áhuga ykkar á málefnum bæjarins.
ÞÚ VILT FÁ VINNUFRIÐ OG STERKAN MEIRIHLUTA.
Þú kvartar mjög um það, að þú og samstarfsmenn þínir hafi verið lagðir í einelti. Bornir rógi og álygum, og það ásamt framkvæmdarstjóra.
Það er Þóroddar sannleikur, sem þú ferð þar með. Á framkvæmdarstjóra hefur aldrei verið minnst í þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið á gerðum ykkar.
En hvar er “rógurinn og lygin?” Það hefur verið átalið, sem hneyksli, að þið skylduð ábyrgjast þetta lán eins og allt var í pottinn búið.
Á það hefur verið bent, að til þessa hefðuð þið enga heimild og hefðuð reynt að leyna þessu. Allt þetta hefur þú viðurkennt og játað í skrifum þínum.
Ert þú að “rógbera” eða “ljúga” á sjálfan þig? Sé svo, þá verður sennilega að álíta, að skrif annarra, sem hafa farið í sömu átt megi heimfæra þar undir, annars ekki. Þú villt hafa vinnufrið, ekki til þess að starfa að gagni að málum verksmiðjunnar, því hann hefurðu, heldur til þess að mega í friði og óáreittur fremja aðrar eins kórvillur og þá, sem þú hefur verið átalinn fyrir.
En rétt er það, einu hefur verið upp á þig logið. Því hefur verið haldið fram, að þú hafir gert þetta nauðugur, að áeggjan annarra, eða jafnvel af því, að þér hafi ekki verið fulljóst, hvað þú varst að gera.
Þetta segir þú ósannindi. Þú hafðir forgönguna um málið, þú gerðir þetta ekki að áeggjan annarra. Og þér var fullljóst, hvað þú.varst að gera. Sjálfsagt er að hafa það, sem réttara reynist.
Og ætlast þú sennilega til að afsökunar sé beiðst á þessum “álygum” á þig. Þú vilt sterkan meirihluta. Finnst þér Ragnar veikur? Ég veit, að þú telur kommúnista sterka, annars hefðirðu aldrei gert tilraun til að hjálpa þeim eða verja þá.
En með kutann í erminni!! Þá má segja við þig eins og Sigurjón á Laxamýri sagði við dóttur sína, sem var að fara til Danmerkur: “Varaðu þig á þeim dönsku, þeir hafa hann hjá sér.”. Varaðu þig á kommum þeir hafa hann hjá sér.
MARGUR HELDUR MANN AF SÉR
Þú hefur tekið að þér að verja brask kommúnistanna. Aðaluppistaðan í þeirri vörn þinni er hnútakast til mín. Lýsing þín á mér og skammir í minn garð er þó hvorki frumleg né fyndin. Þú hefur tekið þér til fyrirmyndar grein, sem Aðal björn Pétursson skrifaði til mín 1940. Á hana var litið sem sorpskrif og höfundur hlaut engan sóma af.
Ég hefði gjarnan kosið þér betra hlutskipti, en að setjast á bekk með Aðalbirni. En enginn má sköpum renna, og hver velur sér náttstað við sitt hæfi. Svo hefur orðið um þig nú. Annars svaraði ég aldrei grein Aðalbjarnar, svo nokkru hærra hefi ég gert þér undir höfði, þótt vafi kunni á því að leika, að þú sért þess maklegur. Annaðhvort er skoðun þín sú, að þessir tveir ágætismenn, sem þú minnist á hafi gert það mín vegna að deyja, eða ég hafi á einhvern hátt flýtt fyrir um að hérvistardögum þeirra lyki.
Hirði ég ekki um, hvor er þín skoðun, þar sem báðar eru jafn fjarstæðar. Aftur á móti skil ég vel gremju þína yfir því, að ég skuli vera í vellaunaðri stöðu. Vellaunuðu stöðurnar eru að þínu áliti ekki fyrir menn af mínum uppruna.
Að þínu áliti eru það synir efnamannanna og sérréttindamannanna í þjóðfélaginu, sem þær eiga að fá. Þér þykir það óviðurkvæmilegt, að sonur fátæks sjómanns, sem alinn er upp á snauðu verkamannsheimili, skuli hafa fengið vel launaða stöðu.
Það gengur glæpi næst. En þó sárnar þér kannski enn meir, að ég skuli ekki hafa brugðist stétt þeirri, sem ég er sprottinn úr. Þú hefðir sjálfsagt verið ánægðari, ef ég hefði með öllu látið ófreistað að reyna að notfæra þá þekkingu og þær gáfur, sem ég kann að hafa öðlast til þess að gera mitt til að bæta kjör verkamanna og láglaunamanna.
Þú hefðir sjálfsagt fyrirgefið mér, ef ég hefði látið þetta afskiptalaust. Orðið hrifinn, ef ég hefði gengið í lið með ykkur sérréttindamönnunum. En ég er óalandi og óferjandi af því að ég er í góðri stöðu, en reyni samt að vinna að bættum hag vinnandi fólksins. Ég er ánægður með þetta álit þitt.
Og mér þykir vænt um, að þú tekur kommana og brask þeirra fram yfir mig. Það gefur mér vissu um, að ég er enn óvilltur og á réttri leið.
ÞAÐ BER EKKI ALLT UPP Á SAMA DAG.
Það hefði þótt fyrirsögn fyrir nokkrum árum hefði því verið spáð að forystumenn kommúnista myndu verða þátttakendur í allskonar braski og spekulationum.
En það hefði þó líklega þótt ennþá meiri fyrirsögn, ef því hefði verið spáð, að þú mundir takast á hendur að aðstoða þá í þessu braski og ganga fram fyrir skjöldu þeim til varnar. En þetta er ekki óskiljanlegt. Örskammt er öfganna á milli.
Skilningurinn og hluttekning þín í þeirra garð á sínar ástæður. Að sinni skal ekki farið lengra í að rekja það.
Ég hefi reynt í þessu bréfi að forðast eftir föngum að blanda inn í þessar umræður persónulegum skætingi eða persónulegri skilgrein ingu á þér, sem kynni að verða skammir á prenti, þó að sönn og rétt væri.
Þú hefur að vísu gefið ærið tilefni til þess. En ég álít, að það verði meir þeim til skammar, sem það viðhefur, en hinum, sem það er um.
Ég vildi aðeins ráðleggja þér að lesa grein þína í Siglfirðingi aftur yfir, ekki einu sinni heldur oft og með athygli. Ég er þess fullviss, að slíkur lestur mundi verða hollur fyrir þig, og til varnaðar að láta það ekki henta þig aftur að láta slíkan þvætting á “þrykk út ganga.”
Þá mættir þú einnig minnast þess, að holt getur það ekki talist fyrir þá, sem í glerhúsi búa, að hefja grjótkast að náunga sínum. Vel mætti svo fara, að kastað yrði til baka, þó að svo hafi ekki verið gert af mér í þetta sinn.
Siglufirði 2/10'45 Erlendur Þorsteinsson
P.S. Af því að þú ert af dönskum uppruna, þá vilt þú kannski segja mér hvað orðið “kreditexport,” táknar sem þú talar um í grein þinni, þýðir, þá skal ég reyna að skýra fyrir þér hvað átt er við með orðinu “exportkredit.” E.P. |