AFTUR RENNUR LYGI, ÞÁ SÖNNU MÆTIR
Blaðið hefir orðið þess áskynja, að formaður Rauðkustjórnar hefir fengið símskeyti frá póst og símamálastjórninni um að hvorki hann né Rauðka hafi sent Lárusi Jóhannessyni hæstaréttarlögmanni., Reykjavík í janúar og febrúar s.l. önnur símskeyti en þar eru tilgreind og eru þau símskeyti, er formaður Rauðkustjórnar á bæjarstjórnarfundinum vísaði til og las upp og sýndi.
Hafði Þormóður Eyjólfsson lýst yfir, að hafa séð og lesið símskeyti frá Guðmundi Hannessyni til Lárusar Jóhannessonar á þá leið að biðja Lárus að vinna að því, að Tryggingastofnun ríkisins borgaði ekki Rauðku út lofað lán fyrr en bæjarstjórnin léti Rauðku fá nýja lóðarsamninga.
Sýndi Þormóður á Framsóknarfélagsfundi vottorð frá Þóroddi um, að hann hefði séð símskeyti frá G.H. til Lárusar í þessa átt.
Samkvæmt vottorði símstjórnarinnar hefir slíkt símskeyti aldrei verið til og hvað verður þá um þá menn, sem skrökva því upp að hafa séð og lesið símskeyti, sem sannað er, að aldrei hefir verið til?
Símskeyti símstjórnarinnar til formanns Rauðku getur hver Siglfirðingur fengið að sjá og með því sjálfur séð, hve ástæðulausar uppdiktaðir Þormóðs og Þórodds hafa verið. |