Þingsályktunartillaga um BYGGINGU LÝSISHERSLUSTÖÐVAR samþykkt á Alþingi. --
Síðast liðið haust flutti Sigurður Kristjánsson alþingismaður þingsályktunartillögu um að ríkisstjórnin hlutaðist til um að byggð væri lýsisherslustöð í sambandi við Síldarverksmiðjur ríkisins. Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt í sameinuðu þingi þann 6. þessa mánaðar.
Einherji 6. apríl 1945
RAUÐKA
Síðustu fréttir herma, að allt efni og vélar muni koma í tæka tíð til Rauðku, ef ekkert óvenjulegt beri að höndum. Það má því ganga út frá, að Rauðka komist upp fyrir byrjun síldarvertíðar næsta sumars, ef ekkert óvenjulegt ber að höndum.
Siglfirðingar! Það verður ekki aðeins 5 þúsund mála Rauðka heldur 7-8 þúsund mála, sem kemur upp í sumar!
Einherji 19. apríl 1945
Þormóði Eyjólfssyni og Ragnari Guðjónssyni hefur verið vikið úr Framsóknarfélagi Siglufjarðar
Á félagsfundi í Framsóknarfélagi Siglufjarðar 12.þ.m. var samþykkt tillaga frá stjórn og í fulltrúaráði félagsins, um að víkja þeim Ragnari Guðjónssyni og Þormóði Eyjólfssyni úr Framsóknarfélagi Siglufjarðar fyrir brot á samþykktum félagsins.
Þá hefur félagið krafist þess, að þeir víki sæti úr bæjarstjórninni, svo að félagið geti sett þar inn menn, sem njóta trausts félagsins.
Siglfirðingur 27. júlí 1945
ÚRSKURÐUR ER FALLINN UM RAUÐKUSTJÓRNINA
Það hefir verið hljótt um Rauðkumálið svonefnda hér í Siglufirði nú um skeið. Deilurnar innan kaupfélagsins hafa, ef svo má segja, ýtt því út úr dagskránni. Þann 21.þ.m. barst bæjarstjórn símskeyti frá Félagsmálaráðuneytinu um Rauðkumálið, og er það svohljóðandi:
“Þar sem bæjarstjórnin hefir símleiðis tjáð ráðuneytinu, að hún hafi á fundi sínum 7. maí síðastliðinn ákveðið að leita úrskurðar dómstólanna um það, hvort stjórn sú, sem kosin var 17. janúar eða sú, sem kosin var 20. apríl síðastliðinn fyrir síldarverksmiðjuna Rauðku, skuli starfa áfram, tilkynnist yður til birtingar fyrir bæjarstjórn, að rétt er að stjórn sú, sem kosin var 17. janúar, starfi þangað til dómsúrskurður er fallinn."
Eins og menn sjá, er úrskurður þessi þannig. að enn er leiðin opin fyrir bæjarstjórn Siglufjarðar til þess að halda þessari leiðinlegu og hlægilegu togstreitu áfram. Henni stendur enn opið að reka mál út af þessum ágreiningi, bæði í héraði og síðar fyrir Hæstarétti. - Hinsvegar er vonandi, að bæjarstjórn sjái sóma sinn í því, að láta við þennan úrskurð standa. Það er ekki svo langt eftir af kjörtíma stjórnarinnar, að líkur séu til þess, að mál út af kosningunni yrði til lykta leitt áður en hann væri á enda. Báðir partar mega una úrskurðinum fullvel; jafnaðarmenn að hafa fengið 17. janúar nefndina viðurkennda, og kommúnistar og Þormóður að frýjast við að gera sig enn meira hlægilega en þegar er orðið í má1 þessu.
Siglfirðingur 27. júlí 1945
Tvö skip komu inn með síld í nótt eða seint í gærkvöldi, annað til ríkisverksmiðjanna 300 mál, hitt til Rauðku með um 1.500 mál. Var það færeyska skipið “Johannes,” og hafði tekið síldina austur við Bakkafjörð. -
Mjölnir 9. nóvember 1945
Byggingarstjórn skipuð fyrir nýbyggingar Síldarverksmiðja ríkisins
Atvinnumálaráðherra hefur skipað eftirtalda menn í byggingarstjórn við byggingu 10 þúsund mála verksmiðju á Siglufirði og 5 þúsund mála verksmiðju á Skagaströnd:
Trausta Ólafsson, forstjóra atvinnudeildar Háskólans, og er hann formaður stjórnarinnar. Magnús Vigfússon, byggingarmeistara, Snorra Stefánsson. framkvæmdarstjóra og Þórð Runólfsson, verkfræðing.
Tveir þeir fyrst töldu eru skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins
Margir Siglfirðingar munu gleðjast af því að Snorri Stefánsson er skipaður í þessa virðingarstöðu, enda vita þeir sem þekkja Snorra, að hann er prýðilega til þessa starfs fallinn vegna þekkingar sinnar, samviskusemi og dugnaðar.
Mjölnir 22. ágúst 1945
ÆTLAR SÍLDIN ALVEG AÐ BREGÐAST Í SUMAR?
Aflinn ekki nema 1/3 af því, sem var á sama tíma í fyrra.
Dagný SI 7 er hæsta skip, með 6.045 má1 og tunnur
Á laugardaginn skiptist bræðslusíldin þannig á verksmiðjurnar:
Verksmiðja
Hektólítrar
HF Ingólfur, Ingólfsfirði
38.467
HF Djúpavík, Djúpavik
44.905
Ríkisverksmiðjurnar, Siglufirði
133.329
Síldarverksmiðjan Rauðka
20.161
HF Kveldúlfur, Hjalteyri
8.1163
Síldarbræðslustöðin Dagverðareyri h.f.
21.031
Ríkisverksmiðjan, Raufarhöfn
97.242
HF Síldarbræðslan Seyðisfirði
1.4271
Aflinn: 1945 = 450 þúsund mál –
1944 =1.290 þúsund mál –
1943 = 1.275 þúsund mál –
1942 = 1.460 þúsund mál
Mjölnir 22. ágúst 1945
Magnús Blöndal framkvæmdarstjóri SR látinn. - S.l sunnudagskvöld andaðist að heimili sínu hér í bæ, Magnús Blöndal framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja Ríkisins.
Dó hann af áverka er hann fékk er hann datt af hestbaki á sunnudagsmorguninn.
Magnús var ráðinn framkvæmdastjóri ríkisverksmiðjanna fyrir um ári síðan, en áður hafði hann verið skrifstofustjóri þeirra. Hann var góður starfsmaður og vinsæll.
Einherji 16. september 1945
MAGNÚS BLÖNDAL framkvæmdarstjóri ferst af slysi
19. f.m. datt hann af hestbaki, er leiddi hann til dauða að kveldi þess dags.
Hann var fæddur 6.nóvember 1897 að Sævarlandi í Þistilfirði, sonur Björns Blöndal læknis. Hann gekk á verslunarskóla í Höfn og að loknu prófi var hann um nokkur ár í þjónustu Snorraverslunar á Akureyri og síðast framkvæmdastjóri. 1930 varð hann skrifstofustjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, en framkvæmdastjóri þeirra haustið 1944.
Magnús Blöndal var vel gefinn maður og drengur hinn besti, svo sem hann átti ætt til. Er að honum mikill skaði.
Einherji 16. september 1945
Síldin hefir brugðist í ár. Bræðslusíldin einar 450 þúsund hektólítrar, en rúmlega 1/3 bræðslusíldarveiðar 1944 og 1943, en tæpur þriðjungur bræðslusíldar 1942.
--- Rauðka fékk um 15 þúsund mál, meðfram að kenna því, að hún fékk ekki leyfi til þess að fá þau færeysk skip, er hún átti að fá.
Einherji 16. september 1945
Fáheyrt stórhneyksli
Hin ólöglega Rauðkustjórn, sem bæjarstjórnin kaus í apríl og stjórnarráðið hefir tilkynnt, að ekki ætti að sitja áfram, hefir gengið í ábyrgð fyrir yfir 100 þúsund krónu víxilskuld fyrir skipi Þórodds og annarra kommúnista.
Þá gengur sterkur orðrómur um, að Ragnar Guðjónsson, mágur Þórodds, en fulltrúi, sem Þormóður og Jóhann Þorvaldsson kusu í Rauðkustjórn (hinni alræmdu, ólöglegu aprílkosningu) í stað Guðmundar Hannessonar, hafi reynt að fá Schiöth til þess að samþykkja, að Rauðka lánaði skipi Þórodds álitlega fúlgu fjár upp á væntanlega síld, sem skipið átti að fiska (en fiskaði ekki).
Þótti Schiöth það svo glæfralegt, að hann sagði nei. Var það þá sjálffallið.
Nú fer að skýrast hamagangur Þórodds og Þormóðs fyrir því að fá Ragnar inn í Rauðkustjórnina í stað Guðmundar Hannessonar. Það var meira en fjölskyldusjónarmið.
Neisti 22. nóvember 1945
Nýjustu fréttir herma, að stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sé búin að ráða nýjan framkvæmdastjóra fyrir verksmiðjurnar. Heitir hann Hilmar Kristjánsson.