Bæjarpósturinn:
Kvikmyndahúsin, börnin og
barnaverndarnefnd.
Hér í bænum eru tvö kvikmyndahús starfandi, og er ekki
nema gott um það að segja. Síðan þau urðu tvö, hefur bæjarbúum gefist
kostur að sjá meira úrval mynda, þó að auðvitað séu innan um lélegar
myndir.
En það er líka annað, sem bíógestir komast ekki hjá að
sjá á leið sinni inn í þessi hús og það er barna og unglingahópurinn við
dyr eða í fordyrum bíóhúsanna. Unglingum innan 14 ára er ekki leyfður
aðgangur að kvöldsýningum og margar myndir eru bannaðar unglingum innan 16
ára. Er það reglugerð um barnavernd, sem mælir svo fyrir og
barnaverndarnefnd kosin til að gæta þess, að reglugerð þessi sé haldin.
En hópurinn, sem ákvæði þessi ná til, er áleitinn og á í
stöðugu brasi við dyraverði og eftirlitsmenn barnaverndarnefndar. Af þessu
leiðir ýmis óþægindi og ekki síst fyrir bíógesti, sem koma til að njóta
skemmtunar í friði og ró. Nú eru margir, sem spyrja: Hver og hverra er
orsökin að þessu, hvers vegna eru börn allt niður í 8 og 9 ára gömul að
flækjast á götum úti kl. 9 að kvöldi?
Þessu er ekki auðvelt að svara, en eflaust eiga
foreldrar og aðstandendur barnanna mikla sök á þessu. Ekkert er svo
eðlilegra en að börn þessi leiti að stöðvum eins og bíóhúsum og reyni að
komast þar inn. Hvaðan þau hafa peninga til kaupa á aðgöngumiðum og sælgæti,
væri fróðlegt að vita, en það mun oft vera drjúgur skildingur, er í það
fer.
Oft verður það verk barnaverndarnefndarmannsins að tína
út þá, sem komist hafa inn með einhverju móti. Hann er þar að gegna starfi,
sem honum hefur verið falið, en unglingarnir líta óhýru og hatursfullu
auga verk þessarar nefndar, sem kosin er til þess að gæta velferðar þeirra.
Í öðru blaði bæjarins var fyrir skömmu gert,
að umræðuefni athæfi barna- og unglingahópsins við dyr Nýja-Bíós. Í þeirri
grein var ekkert ofsagt og er furða, að ekkert skuli vera gert til að
afstýra þessum ólátum.
Hvort eigandi eða dyraverðir þessa húss gera nokkuð til
að bægja börnunum frá er ekki vitað, en sé það gert, ber það engan
árangur.
Þó að hópur safnist að dyrum Siglufjarðarbíós,
fjarlægist hann strax og um það er beðið, enda ríkir þar ró og spekt
meðan á sýningu stendur.
Það væri æskilegt að gott samstarf gæti tekist með
foreldrum, barnaverndarnefnd og eigendum eða forráðamönnum
kvikmyndahúsanna. Þá væri von um, að sýningargestir gætu óáreittir af
áflogum, hávaða og gauragangi komist til sæta sinna og notið þar
myndarinnar.
Um kvikmyndahúsin er það að segja, að bæði eru þau
ófullkomin. Nýja Bíó er enn með sína hörðu, óþægilegu bekki-
og hálfgerðan frystihúsabrag. En salurinn er stór og myndin því ekki svo
nærri þó setið sé framarlega. Reykingar eiga að vera bannaðar þar, en menn
verða fremur lítið varir við, að reynt sé að hindra þær.
Siglufjarðarbíó hefur enn ekki starfað heilt ár, en
fengin reynsla boðar gott um framtíðina. Salurinn er alltof lítill og því
óþægilegt að sitja í fremstu bekkjum. Sætin eru þægileg og salurinn er
vistlegur þó lítill sé og ávalt vel upphitaður. Reykingar eru fremur litlar þar enda mun vera
reynt að hindra þær eftir bestu getu.
Annars eru þessir reykingamenn engu síður
vandræðagripir en unglingarnir. Það er ansi hart ef eigendur bíó- eða
samkomuhúsa þurfa að gæta þeirra eins og óvita, gæta þess, að þeir ekki
eyðileggi og eitri andrúmsloftið í samkomusölunum.
Þetta er mál, sem hver einstaklingur verður að finna sjálfan sig í að
leysa, en yfirleitt er það eftirtektarvert, hvað reykingamennirnir ganga
freklega á rétt hinna sem ekki reykja, hvenær og hvar, sem þeir eru
staddir.
Kvikmyndahúsin eru menningarstofnanir eða gætu verið það.
Því eiga viðskipti þeirra og sýningargesta að vera mótuð af hagsmunum
beggja, þau eiga að láta gestum í té góð sæti og vistleg húsakynni og
eins góðar myndir og föng eru á, en gestir aftur á móti að hlýða settum
reglum um góða umgengni og þrifalega.
Það er lofsverð tilraun, sem verkalýðsfélögin , hér hafa
gert til reksturs kvikmyndahúss og vonandi má
telja það áfanga á leiðinni til fullkomins kvikmyndahúss hér í bænum.
ema |