4. febrúar 1953
Bæjarpósturinn
Viðgerð á Bíókaffi og endurbætur á Nýja Bíó munu nú
standa yfir, en húsakynni þessi skemmdust talsvert í brunanum í byrjun janúar
s.l., bæði af eld, reyk og vatni.
Bíósalurinn verður málaður, sett þar upp veggljós ofl.
endurbætt. Bæjarpósturinn vill nota tækifærið og flytja eigendum Nýja Bíós mjög
eindregnar óskir margra lesenda sinna og tíðra bíógesta þeirra að endurbætt
verði sætin í húsinu.
Það eru fyrir löngu orðnar óskir Siglfirðinga, að eitthvert
samkomuhúsið hér hefði upp á forsvaranleg sæti að bjóða. Alþýðuhúsið hefur
bestu sætin að bjóða, en að öðru leiti hafa óskir ekki ræst.
Sætin í Nýja Bíó eru fyrir neðan allar hellur oft vantar
seturnar í sætin og er þá stundum fyllt í skörðin með kollum stólum. Auk þessa
eru sætin hættuleg hinum viðkvæmu sokkum kvennanna, en þær munu ærið margar,
sem hafa eyðilagt sokka sína á sætum þessum.
Þá væri ekki úr vegi, að reynt yrði að uppræta þann "hesthús"
brag, sem fólki finnst ríkja yfir húsakynnum þessum og þá sérstaklega anddyrinu.
Það er hörmulegt að sjá útganginn á öllu þarna, veggir rispaðir og krotaðir,
hurðir skornar og tálgað úr dyrakörmum, - sorglegur vottur um skort á
umgengnismenningu og þá ekki síður skort á eftirliti og umsjón með húsinu.
Eftirlitsleysið þarna býður skemmdarvörgunum heim. Anddyrið er
oft illa upplýst, stundum algert myrkur í ganginum inn á salernin og þarna er
því ákjósanlegur staður fyrir ærslafengna unglinga að safnast saman.
Ef dyravörslu væri þannig háttað að dyravörðurinn flytti sig að
útidyrum eftir að sýning hæfist og fylgdist þaðan með umferð inn í húsið, væri
engin hætta á spjöllum og eyðileggingu.
Á þetta er minnst hér af því, að fólk hefur mikið talað um, að
það óskaði eftir betri umgengni á þessum stað, og að það liði önn fyrir útlit
húsakynnanna eins og þau hafa oft verið.
Þegar nú hefur verið málað og gert við og húsið prýtt. Ættu
allir að sýna þann sjálfsagða menningarvott, að spilla ekki því, sem bætt hefur
verið. |