Bæjarpósturinn og fréttir: Mjölnir 4. febrúar 1953
Siglufjarðarbíó hefur hafið bíósýningar að nýju.
Verður sýnt tvisvar þrisvar í viku. Húsnefnd verkalýðsfélaganna
starfrækir það.
Mjölnir 21. júlí 1954
Um kvikmyndir og bíóhús.
Þeir viðburðir hafa skeð, að hingað í bíóið hafa komið
ágætar kvikmyndir nú í vor og sumar.
Má þar nefna Rauðu mylluna, ítölsku myndirnar Vonarlandið og
Lokaða glugga, og þýsku gamanmyndina Hans og Pétur í kvennahljómsveitinni.
Væri sannarlega óskandi, að forstöðumenn bíósins reyndu að fá
hingað góðar myndir eftirleiðis. Myndir sem ofarlega eru i minni vegna umsagna
Reykjavíkurblaða eru t.d. Sviðljós Chaplins mexíkanska myndin Glötuð æska, er
hlotið hefur dóma sem frábært listaverk og leikafrek, og svo er Bæjarbíó í
Hafnarfirði enn að sýna ítölsku stórmyndina Önnu, hefur sýnt hana stöðugt í sex
vikur.
Þessar þrjár og fleiri, þó ekki séu taldar hér, eru
eftirsóknarverðar myndir, og er hér rneð skorað á eigendur bíóhússins hér að
útvega þær til sýninga.
Og svo er það fyrirspurn til þeirra.
Hversvegna hefur verið hætt að númera sætin í salnum?
það þekkist hvergi í reglulegum kvikmyndahúsum, að sæti séu ekki
númeruð, enda getur það verið býsna óþægilegt fyrir sýningargesti, þegar svo er
ekki.
Oft má sjá einstök sæti auð inni í miðjum röðum, en fólk, sem
sitja vill saman á sýnigunni verður að standa.
Þegar aðsókn er mikil, gildir ekki fyrir fólk að vera snemma í
tíðinni að ná sér í miða, heldur hitt að koma nógu snemma til að ná í sæti, og
sitja svo yfir þeim lon og don, kannski hálftíma eða meir, -áður en sýning
hefst.
Það eru vissulega holurekstrarsjónarmið að bjóða fólki upp á
slíkt, bara til að spara fyrirhöfnina við að númera sætin. Sem sagt, bræður
góðir, góðar kvikmyndir og númeruð sæti niðri, það eru næstu verkefnin.
Mjölnir 27. janúar 1955
Salka Valka verður sýnd hér bráðlega. Það er Eddafilm, sem sýnir myndina.
Mjölnir
16. febrúar 1955
Bíódyrnar. Bæjarpósturinn hefur fengið margar áskoranir um að
krefjast þess kröftuglega af eigendum og umsjónarmönnum Nýja Bíós, að þeir láti
moka betur frá dyrum hússins, þegar sýningar eru.
Hefur á það verið bent, að stundum þegar húsfylli sé, þá séu
aðaldyr hússins því nær lokaðar og litlu, þröngu dyrnar því þær einu, sem um sé
hægt að ganga.
En geilin, sem í skaflinn er mokuð sé oftast það þröng, að við
vandræðum liggi, þegar svo margt fólk þarf að ganga þarna um.
Að þetta er rétt, geta t.d. allir þeir mörgu, sem í bíóinu voru
s.l. sunnudagskvöld vottað. Fólk hefur spurt hverjum beri að hafa eftirlit með
svona nokkru.
Er þeirri spurningu hér með beint áfram til þeirra, sem betur
vita. Er það lögreglan, brunaliðsstjóri eða máski einhver annar aðili, sem á að
gæta hagsmuna fólks í slíkum tilfellum sem þessum.
Mjölnir 19. ágúst 1955 (frétt)
Þrjár kvikmyndir, um notkun kjarnorku til friðsamlegra þarfa.
Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna sýnir í Nýja bíó föstudaginn 19. ágúst kl. 9
þrjár merkilegar kvikmyndir um notkun kjarnorku til friðsamlegra þarfa.
Í fyrstu myndinni er greint frá byggingu atómsins, lýst
hvernig keðjusprengingar fara fram, sýnt hvað gerist er kjarnorkan leysist úr
læðingi, og er það stórfróðlegt.
Önnur myndin greinir frá hagnýtingu kjarnorkunnar í þágu
landbúnaðarins iðnaðar og tækni, en hin þriðja segir frá hagnýtingu hennar í
þágu læknisfræðinnar. Í þeirri mynd er
aðalpersónan, Íslenskur læknir í Boston, Þórður Einarsson og
flytur hann skýringartexta með öllum myndum.
Er í síðustu myndinni lýst hvernig hann finnur æxli í
heila manns nokkurs og notar hann kjarnorkuvísindin ekki aðeins til að finna
æxlið, heldur einnig til að ná því burt.
Efnt er til þessarar kvikmynda sýningar í tilefni
kjarnorkuráðstefnu S.Þ., sem nú er haldin í Genf.
Aðgangur að sýningunni er öllum heimill ókeypis
Mjölnir
28. janúar 1956
Mættum við fá meira af slíku!
Það gerðust þau tíðindi um síðustu helgi, að Nýja Bíó
auglýsti sýningu á góðri mynd, hvorki meira né minna en Sviðljósum Chaplíns.
Loks kom að því að mynd, sem búið er að sýna í flestum bæjum og
smáþorpum landsins berst á fjörur bíósins hér og víkur í bili frá þessum eilífu
káboj sýningum, sem er daglegt brauð á borðum þess.
Fullt hús var á fyrstu sýningu myndarinnar, en á tveim siðari
sýningum lítil aðsókn.
Hvað veldur? Er það vegna þess, að enginn síþeysandi
skammbyssufantur sést þar, eða ekkert morð framið eða engar hryllingssenur
sjást þar?
En samt, - það sýnir sig þó að til eru nokkur hundruð manns hér
í bæ, sem vilja sjá og njóta góðra kvikmynda og vilja jafnvel greiða talsvert
hærra verð fyrir aðgang að þeim en venjulegum sýningum, og fyrir munn þeirra
segi ég: mættum við fá meira af slíku.
Og ég minni á fyrst og fremst myndina Nútíminn eftir Chaplín,
þá Morfín og Konur til sölu, frönsk og ítölsk að ég held
Og fleiri og fleiri myndir mætti telja upp, sem fengur væri í
að sjá.
Eigendur Nýja Bíós mega vita það, að þótt þeir e.t.v. græði ekki
mikla peninga á sýningu góðra mynda, þá græða þeir vinsældir hjá allstórum
hluta bæjarbúa, sem annars situr heima og vill ekki eyða hvorki tíma né
peningum i að horfa á hundleiðinlegar kúrekamyndir og skyldu fantamyndir, sem
ekkert erindi eiga til íslenskra áhorfenda.
Kæru bræður!
Gefið okkur kost á að sjá annað slagið góðar myndir. Það verður
ykkur til góðs og okkur til ánægju!
"Kæru bræður!" hér er átt við bræðurna Odd og Ólaf
Thorarensen.