Mjölnir
5. mars 1947
Bíó
Bíóið hérna er bænum til skammar.
Einn af þeim fáu stöðum, et hér standa almenningi opin
til skemmtunar og afþreyingar á kvöldin er Nýja Bíó, sem rekið er af
Hinrik Thorarensen.
Sá maður er löngu orðinn frægur fyrir lítinn glæsibrag á
þeim stofnunum, sem hann rekur og er bíóið sannarlega engin
undantekning.
Er áreiðanlega leitun á öðru eins kvikmyndahúsi, a.m.k.
í þeim löndum, sem eiga að heita menningarlönd.
Umgengni þarna er svo fyrir neðan allar hellur, að engu
líkara er, en að eigandinn geri sér það til yndis að hafa þetta svona.
Um myndavalið skal ekki fjölyrt, - það er býst ég við
svipað og annarsstaðar, en mun þó yfirleitt lélegra. En húsakynnin og
umgengnin er sennilega Evrópumet a.m.k. Þegar komið er inn í forstofuna
blasir strax við eyðileggingin.
Veggir allir eru rispaðir og krotaðir langt inn í stein
og svo langt upp sem hægt er að seilast. Forstofan er full af unglingum,
sem virðast hugsa um það eitt að ólmast sem mest og gera sem mestan
hávaða.
Þegar inn í salinn kemur leggur fyrir vitin óþef, sem
venjulega myndast í illa upphituðum húsakynnum.
Sæti öll eru úr lagi gengin, þeim er illa raðað og
seturnar úr stólunum liggja oft niðri á gólfi og eru rifnar og
hálfbrotnar. Um það eitt er hugsað að hirða peningana af sýningargestum.
Síðan er þeim hleypt inn eins og fé í rétt og ekkert
hirt um hvort þeir geti notið þess, sem þeir eiga að fá fyrir peningana
eða ekki. Enginn skiptir sér af því, þó að ólætin séu svo mikil, að
maður geti naumast gert sér grein fyrir hvort maður er að horfa á þögla
mynd eða -talmynd.
Er einna líkast því, að sýningin færi fram á skólagangi
í frímínútum í illa öguðum skóla. Upphitun er ekki meiri en það, að þótt
maður sitji í þykkum frakka með trefil og vettlinga, er trauðla, að
maður haldi á sér hita.
Það er dapurleg hugmynd, sem aðkomumaður fær um
menningarlíf í þessum bæ, við að koma í Nýja Bíó.
En sú mun bót í máli, að eigandinn er orðinn landfrægur
fyrir ómyndarskap og lítilsvirðingu á því er velsæmi heitir.
Heyrt hef ég. að varla líði svo vika, að þessi maður eigi ekki í
einhverjum erjur við heilbrigðisnefnd, lögreglu, barnaverndarnefnd og
aðra þá, sem líta eiga eftir opinberum rekstri.
En mér er nú spurn. Eru engar kröfur, sem gera verður til þeirra, er
reka t.d. kvikmyndahús? Verður ekki að fá leyfi bæjaryfirvaldanna til
slíks reksturs og geta ekki þau yfirvöld svipt menn slíku leyfi, ef þeir
reka það svo, að almennum hneykslunum valdi?
Hvað á umburðarlyndi bæjarbúa að ná langt gagnvart þeim, sem storka
almenningi. lítilsvirða hann og fótumtroða almennt velsæmi?
Það verður að gera þá kröfu til þessara yfirvalda, að eiganda Nýja Bíós
verði tafarlaust settir tveir kostir. Annaðhvort breyti hann rekstri
kvikmyndahússins í það horf, að menn þurfi ekki að fyrirverða sig að
stíga þar inn fyrir dyr eða hann verði sviptur leyfi til að reka húsið.
Það er nógu ljótur blettur, sem þessi maður er búinn að setja á þennan
bæ, þótt nú væri sagt hingað en ekki lengra.
En verði ekkert gert gagnvart þessum manni, þá ættu bæjarbúar að athuga
hvort þeir ættu ekki að taka Ólafsfirðinga til fyrirmyndar og hætta að
sækja bíó Thorarensen.
Það er mál, sem hann myndi áreiðanlega skilja, ef lækkaði í pyngjunni.
Bíógestur.
|